20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (3010)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Björn Kristjánsson:

Ég þakka hæstv. ráðh. svarið við fyrirspurninni, en þó er það ekki að öllu leyti fullnægjandi. Ég skil það nú, að svarið, sem ég fékk frá ríkisstj. í júlí, var að því leyti rétt, að leyfilegt var að veiða á þessu svæði, sem friðað var með reglugerðinni frá í fyrra. á tímabilinu frá 15. júlí til 1. sept., úr því að bannið, sem sett var eftir henni, gekk ekki í gildi fyrr en 1. sept.

En það, sem mig langaði til að vita og spurði um, var það, hvernig ríkisstj. mundi framvegis líta á, ef þessi l. verða samþ., hvort okkar alfriðun helzt í gildi eða ekki. Mér skildist þá ráðh. búast við, að þetta sé óþarfa spurning, af því að frv. muni falla. Þess vildi ég óska. En ef svo færi, að það yrði samþ. og afgr. til Ed., þá er ekki útilokað að koma við breytingum, sem ganga mættu til alfriðunar, ef hæstv. stj. lítur ekki svo á, að okkar alfriðun sé í gildi, ef frv. er samþ.

Ég vildi óska, ef hæstv. ráðh. sér sér fært að svara þessari spurningu ákveðið, að hann gerði það nú. Ef hann er ekki við því búinn, verður náttúrlega þar við að sitja.