20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (3015)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það getur vel verið, að undirbúningurinn hafi verið sá, sem hv. þm. N.-Þ. nefndi. En þessi reglugerð var birt í Stjtíð., svo allir hafa aðgang að henni og eiga að þekkja hana.

Ég er hv. þm. sammála um það, að reglugerðin er, eftir að l. hefir verið breytt, alveg þýðingarlaus. Þess vegna er ekki til neins að leggja áherzlu á hana út af fyrir sig. Ástæðan til þess, að í reglugerðinni er tiltekinn tíminn frá 1. sept. til 1. nóv., var sú, að áður voru dragnótaveiðar bannaðar til 1. sept. Með bráðabirgðalögum voru dragnótaveiðar leyfðar frá 1. júlí til 1. september, og við það kom, ef svo má að orði kveða, þetta gat í reglugerðina. Aðalatriðið er þetta, að reglugerðin var rétt samin og fullnægjandi á meðan lögin voru óbreytt, en varð þýðingarlaus þegar búið var að breyta lögunum.