10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

1. mál, fjárlög 1934

Ingvar Pálmason:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 609 og vil leyfa mér að fylgja þeim úr hlaði með nokkrum orðum. Fyrsta till. er undir rómverskum II., þess efnis að koma inn styrk til sjúkrahússbyggingar í Reyðarfjarðarhéraði. Er farið fram á 10000 kr. framlag og er meiningin, að það sé fyrsta greiðsla af þremur.

Mér er óhætt að segja, að sjúkrahúsmál Austurlands hefir um alllangt skeið verið landlækni töluvert umhugsunarefni. Fyrrv. landlæknir var oft búinn að hreyfa því, að eitthvað yrði að gera til þess að bæta úr sjúkrahúsleysinu á Austurlandi. Mun hugmynd hans hafa verið sú, að eitt stórt fjórðungssjúkrahús væri byggt þar. Nú hefir núverandi landlæknir farið austur og ferðazt þar um, og mér er óhætt að segja, að honum varð strax ljóst, og hefir sennilega verið það áður, að mjög brýn nauðsyn er að bæta tafarlaust úr sjúkrahúsþörf Austurlands. En mér er kunnugt um, að hans hugmynd er ekki sú, að komið verði upp einum stórum fjórðungsspítala. Hann gerir ráð fyrir, að með tímanum verði a. m. k. 3 spítalar á Austurlandi. Telur hann, að það fyrirkomulag verði hagkvæmara þegar litið er á staðhætti alla. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er svo ástatt frá náttúrunnar hendi á Austurlandi, að samgöngur eru mjög erfiðar og torfærur margar. Samgöngurnar innan héraðs og við aðra landsfjórðunga munu um langt skeið aðallega verða á sjónum. Á því sviði hefir lítið rætzt úr á seinni árum. Ferðum á sjó við Austurland hefir ekki fjölgað, heldur þvert á móti. Þess vegna held ég, að sú hugmynd landlæknis sé rétt, að keppa beri að því að koma upp a. m. k. 3 sjúkrahúsum á Austurlandi. Og hann telur, að fyrsta sjúkrahúsið eigi að koma í Reyðarfjarðarhéraði. Sem rök fyrir því má benda á það, að Reyðarfjarðarhérað liggur við þann eina samgöngumöguleika, sem enn er til orðinn á landi milli Héraðs og fjarðanna, Fagradalsbrautina. Auk þess liggur það engu verr við samgöngum á sjó heldur en aðrir staðir á Austfjörðum.

Þessari hugmynd landlæknis hefir verið vel tekið fyrir austan, og nokkur undirbúningur er hafinn til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Áætlun hefir verið gerð um kostnaðinn við byggingu þessa sjúkrahúss. Er hún miðuð við það, að keypt verði sjúkrahús, sem verið hefir á Austurlandi. Það var eins og kunnugt er eign Frakka, og hefir nú staðið óstarfrækt í nokkur ár. Það er að vísu nú orðið eign íslenzks ríkisborgara, en óhugsandi er, að það geti orðið starfrækt fyrst um sinn þar sem það er, bæði vegna samgönguerfiðleika við Fáskrúðsfjörð, og af því að Fáskrúðsfjarðarlæknishérað er ekki svo stórt, að það geti staðið undir rekstri sjúkrahúss út af fyrir sig. Áætlunin er sem sagt miðuð við, að keypt sé þetta hús, sem er úr timbri, og verði það flutt til Eskifjarðar. Það kann nú að vakna hjá einhverjum sú spurning, hvort hagkvæmara sé að kaupa þetta gamla sjúkrahús, heldur en að reisa nýtt hús úr nýju efni. Er því þar til að svara, að allverulegar stoðir renna undir þá skoðun, að svo sé. Þarna er um eign að ræða, sem verður verðlaus eða verðlítil, ef ekki er hægt að breyta, henni eða flytja hana til. En það er vitanlega ekkert aðalatriði í þessu spítalamáli. Hitt er allmikilsvert atriði, að þeir peningar, sem fyrir þessa efnivöru mundu fara, fara ekki út úr landinu, eins og ef keypt væri nýtt efni. Í öðru lagi stendur svo á, að á þessu húsi hvílir skuld, sem væntanlega yrði færð yfir á hlutaðeigandi sjúkrahússeigendur, hvort sem það yrði eitt læknishérað eða fleiri. Er þannig fenginn lánsmöguleiki fyrir nokkrum hluta af kostnaðinum. Einnig má fullyrða, að verð hússins mundi verða miklu lægra heldur en á tilsvarandi efni, sem keypt væri nýtt, þó tekið sé tillit til kostnaðarins við að flytja það. Mér er persónulega kunnugt um, að húsið er að öllu leyti vandað og óskemmt.

Samkv. þessari áætlun er gert ráð fyrir, að sjúkrahúsið mundi kosta upp komið a. m. k. 78 þús. kr. Er þar í ekki gert ráð fyrir áhaldakaupum eða neinum slíkum kostnaði. Ég hefi því ekki bundið þessa byrjunarfjárveitingu við fast lokatakmark, en leyft mér að fara fram á 10 þús. kr. framlag í þessum fjárl., sem væri fyrsta greiðsla af þremur. Þar af mætti draga, að heildarfjárveitingin til sjúkrahússins mundi verða 30 þús. kr. En það þarf alls ekki að vera, að hún verði svo há. Ef það sýndi sig, sem telja má vist eftir áætlun húsameistara ríkisins, að kostnaðurinn við að koma upp sjúkrahúsinu yrði ekki svo hár sem því svarar, að ríkissjóður þyrfti að leggja fram 30 þús. gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar að, þá mundi síðasta greiðslan verða þeim mun lægri.

Viðvíkjandi undirtektum þessa máls þar eystra get ég sagt það, að ég hefi í höndum skýrslu frá oddvita Eskifjarðarhrepps, þar sem hann upplýsir, að kvenfélag og ýmiskonar annar félagsskapur innan læknishéraðsins hafi fyrir nokkrum árum byrjað að beita sér fyrir málinu. Hann lætur þess getið, að kvenfélagið hafi hugsað sér að leggja ekki það fé, sem það hefir safnað og mun safna í þessu skyni, beint í byggingarkostnaðinn, heldur verja því til að kaupa nauðsynleg áhöld handa sjúkrahúsinu. Þó hefir nú félagið skýrt oddvitanum frá því, að það mundi taka til athugunar, hvort það mundi ekki vinna til að láta eitthvað af því fé, sem það er að safna, til byggingarinnar sjálfrar, ef á því stæði.

Til þess að sýna afstöðu sýslunefndarfundar Suður-Múlasýslu, sem nú hefir tekið þetta mál til meðferðar, vil ég leyfa mér að lesa upp símskeyti frá sýslumanninum. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á nýafstöðnum fundi sýslunefndar Suður-Múlasýslu var gerð svo hljóðandi ályktun í sjúkrahúsmálinu:

Nefndin samþykkir:

a) Að Suður-Múlasýsla styðji stofnun handlækningasjúkrahúss fyrir Austurland, þegar tímabært þykir að reisa það.

b) Að framlag sýslusjóðs til stofnkostnaðar verði 10000 kr. — tíu þúsund krónur —, er greiðist með 1000 kr. á ári úr sýslusjóði í 10 ár. Fyrsta greiðsla sé tekin af tekjum ársins 1933.

= Sýslumaður =.“

Hér er fengin trygging fyrir 10 þús. kr. framlagi til sjúkrahússins. En eins og rétt er hefir sýslunefndin viljað fara varlega og ekki reisa sér hurðarás um öxl. Þess vegna slær hún þann varnagla, að greiðslan skuli fara fram á 10 árum. Framlagið virðist geta komið að góðum notum fyrir því, því auðveldara ætti að vera að fá bráðabirgðalán upp í byggingarkostnaðinn, þegar tryggt er, að sýslusjóður greiðir upp í það 1000 kr. á ári. Fyrir sýslunefndina hefir hér ekki verið nema um tvær leiðir að ræða, annaðhvort að taka lán á ábyrgð sýslunnar til þess að greiða með framlagið til sjúkrahússins í eitt skipti fyrir öll, eða þá að leggja fram féð smátt og smátt. Það er ofurskiljanlegt, að hún valdi heldur síðari leiðina, og lætur stjórn sjúkrahússins um þessa lántöku ásamt öðrum lántökum, sem fram þurfa að fara vegna byggingarinnar.

Í áætluninni um kostnaðinn við að koma upp sjúkrahúsinu er gert ráð fyrir, að kaupverð gamla spítalahússins verði 18 þús. kr., og hefi ég vissu fyrir, að það fer ekki fram úr því. Óhætt er og að gera ráð fyrir, að auðfengin verði yfirfærsla á láni því, sem á húsinu hvílir. Þegar svo fengið er loforð sýslunefndar fyrir 10 þús. kr. framlagi og einstök félög hafa hafið fjársöfnun, er ekki annað hægt að segja en byrlega líti út um fjáröflun til byggingarinnar. Virðist því ekki nema sanngjörn ósk frá minni hálfu, f. h. þeirra, sem þarna eiga hlut að máli, þó ég fari hér fram á, að veittar verði í þessum fjárlögum 10 þús. kr. í þessu augnamiði, með fyrirheiti um framhaldandi fjárveitingu, allt að 1/3 kostnaðar. Ég get þá látið úttalað um þessa hlið málsins. Af þeim upplýsingum, sem ég hefi gefið, má sjá það, að í þessu tilfelli eru sízt minni möguleikar til fjáröflunar á móti ríkisstyrk fyrir hendi, heldur en í mörgum öðrum tilfellum þegar ríkissjóði hefir verið talið skylt að leggja fram fé til þess að hrinda fram þörfu máli.

Þá vil ég lítillega árétta það, sem ég hefi þegar sagt um þörfina fyrir sjúkrahúsbyggingu á Austurlandi. Ég hefi leitað mér upplýsinga um, hvað margir sjúklingar af Austurlandi hafa orðið að sækja hingað til Rvíkur til sjúkrahúsvistar á undanförnum árum. Leitaði ég til aðalsjúkrahúsanna hér, og fékk mjög skýr og góð svör frá Landsspítalanum, en ekki eins ábyggileg svör frá Landakotsspítalanum; þó það glögg, að nokkuð má á þeim byggja. Svörin eru miðuð við árið 1932. Til Landsspítalans sóttu það ár 44 sjúklingar úr Suður-Múlasýslu, 15 úr Norður-Múlasýslu, 2 af Seyðisfirði og 2 af Norðfirði. Til Landakotsspítala er sagt að leitað hafi 19 sjúklingar úr þessum héruðum sama ár. Þó er ekki alveg víst, að sú tala sé rétt; sennilega hafa þeir verið eitthvað fleiri, því ekki hefir verið gengið svo í gegn um plögg spítalans, að öruggt sé, að allir hafi verið taldir. Þegar tekið er tillit til þess, hvað miklum örðugleikum er bundið að koma sjúklingum frá Austurlandi til Rvíkur, þar sem ekki eru skipaferðir nema einu sinni í mánuði þegar bezt lætur, og stundum ekki nema á tveggja eða þriggja mánaða fresti, þá hljóta menn að sjá, að það er fyllilega tímabært að leita til ríkisins um hjálp til þess að bæta úr sjúkrahúsþörfinni á Austurlandi. Tala sjúklinganna, sem til Rvíkur hafa leitað á árinu 1932 þrátt fyrir alla erfiðleika, sýnir mjög ljóslega, að þörfin er mikil. Vitaskuld er rétt og sjálfsagt að taka tillit til þess, að þrátt fyrir það þó sjúkrahús væri á Austurlandi mundu alltaf einhverjir sjúklingar þaðan leita til sjúkrahúsanna hér í Rvík. En þó maður geri ráð fyrir, að helmingur þeirra sjúklinga, sem nú leitar til sjúkrahúsanna í Rvík, leiti þangað áfram, þó sjúkrahús komi á Austurlandi, þá er samt eftir hærri tala heldur en gert er ráð fyrir, að hið nýja sjúkrahús geti rúmað í einu. Auk þess veit maður, að margir sjúklingar á Austurlandi, sem sjúkravistar þurfa með, fara ekki á spítala eins og nú er vegna þess, hvað ferðir eru óhentugar hingað til Rvíkur og mikill kostnaðarauki við að komast hingað. Þeir reyna þá heldur að notast við sjúkraskýlin, sem eru við suma læknisbústaðina, þó þeir myndu fara á fullkomið sjúkrah., ef það væri til.

Um þörfina á sjúkrahúsi á Austurlandi verður því ekki deilt. Og þó segja megi, að nú séu örðugir tímar, þá hygg ég, að undan þeirri þörf verði ekki með nokkru móti komizt. Með till. minni finnst mér svo hóflega af stað farið, að ég vænti þess fyllilega, að hv. þdm. verði við þeirri ósk minni að samþ. hana.

Ég á hér nokkrar aðrar brtt. á sama þskj. Undir lið XI. og XII. á ég till. um að veita tveimur námsmönnum styrk til náms erlendis. Um þann fyrri, Árna Þ. V. Snævarr, er það að segja, að hann hefir stundað nám í Þýzkalandi frá því 1930. Það liggja hér fyrir mjög lofsamleg ummæli um hann frá þeim mönnum, sem kennt hafa honum í Þýzkalandi. Mæla þeir fastlega með því, að honum sé veittur kostur á að ljúka námi og telja hann mjög efnilegan námsmann.

Að því er hinn manninn snertir, Finn Guðmundsson, þá hygg ég, að það sé engin ástæða til þess fyrir mig að lýsa hér þeim stoðum, sem undir það renna, að þessum pilti sé hjálpað til að ljúka námi. Ég geri ráð fyrir, að það séu margir innan þessarar hv. d., sem þekkja ástæður hans og hæfileika betur en ég, og sem ég teldi ekki síður skylt að mæla með þessum styrk. Við förum hér að vísu fram á óvenjulega háa upphæð þegar um er að ræða námsstyrk, 2500 kr., en það er með vilja gert, því af einum og öðrum ástæðum finnst mér standa alveg sérstaklega á um þennan pilt. Þykir mér svo ekki þurfa að mæla frekar fyrir þessari till. Ég geri ráð fyrir, að svo framarlega sem hér verður samþ. nokkur utanfararstyrkur, þá fái þessi piltur hann einnig.

Ég flyt hér eina brtt. ásamt hv. 2. þm. N.-M., en ég sé ekki ástæðu til að mæla sérstaklega fyrir henni, því ég býst við, að hann geri það á sínum tíma.

Þá á ég brtt. undir lið XXXIII. ásamt hv. 1. þm. Reykv., um að veita Jóni Þorleifssyni málara allt að 10 þús. kr. lán til að standast kostnað af byggingu vinnustofu, og á það að endurgreiðast á 4 árum með málverkum hans, sem þar til kvaddir menn eiga að meta í hvert sinn. Inn í 22. gr. fjárl. er þegar komin samskonar heimild fyrir ríkisstj. til að veita öðrum málurum slíkt lán. Tel ég það í alla staði vel við eigandi, að ríkið hlaupi þannig undir bagga með listamönnum, að þeir endurgreiði hjálpina með vinnu sinni. Ég hygg, að um báða þessa menn megi segja það og þá engu síður um þennan skjólstæðing minn, að vinna þeirra sé þess virði, að ríkið eignist og geymi ýmislegt af henni og láti þá þannig öðlast möguleika til þess að stunda þessa list, sem þeir hafa helgað líf sitt. Ég tel því mjög vel viðeigandi, að ríkið fari þessa leið að styrkja þessa menn, því eins og nú er ástatt, er kaupgeta almennings mjög lítil, og væri því ekki óviðeigandi kreppuráðstöfun, að ríkið gæfi þessum mönnum kost á, að það keypti af þeim verk þeirra.

Ég hefi þá mælt fyrir mínum brtt. og læt því hér staðar numið.

Ég ætla ekki að fara neitt inn á brtt. n. eða einstakra manna, læt nægja að sýna afstöðu mína við atkvgr. En þó ég kannist við, að það sé þörf á að spara, þá held ég, að þessar brtt., sem ég hefi mælt fyrir, séu þess eðlis, að af sparnaði þeirra geti leitt meira tjón fyrir þjóðina í heild sinni.