06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (3038)

94. mál, vigt á síld

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Hv. flm. mæltist til þess, að n. tæki till. sínar aftur, og get ég svarað þessu fljótlega, og svara því á þá leið, að n. mun ekki sjá sér fært að taka brtt. aftur, enda lít ég svo á, að ef brtt. n. verða felldar, sé skylt og nauðsynlegt að fella frv. Kemur ekki til mála að samþ. frv. óbreytt.

Út af þeim ummælum hv. flm., að sama ástæða sé til að lögbjóða vog á skipsfjöl eins og á landi, vil ég aðeins benda á það, sem ég þó veit, að hv. flm. er fullkunnugt, að vog nýtur sín ekki á kvikum sjó vegna hreyfinga skipsins eftir öldufallinu, og það er sérstaklega vegna þessarar staðreyndar, að n. leggur til, að veitt verði undanþága frá að vega bræðslusíld, ef afhending síldarinnar fer fram á skipsfjöl eða þar, sem nothæf vog er ekki tiltæk, svo sem í bátum, og þar sem ekki heldur er æskilegt, að vog sé notuð. - Þessi deila, sem staðið hefir um mælingu eða vigtun síldar, er ekki mikilsvert atriði, og hvorttveggja má auðvitað svíkja, vog og mæliker. Ef mælingin er svikin, má líka svíkja vigtunina, og ströng ákvæði um það, að vega skuli síldina, fyrirbyggja það ekki, að hrekkvíslega megi að mælingu eða vigtun vinna. En með því að hér er um svo smávægilegt mál að ræða, vil ég ekki gefa tilefni til, að miklum tíma verði eytt í umræður um það eða afgreiðslu þess, og skal ég því ekki fara lengra út í þetta. Ef till. n. verður felld, mun ég greiða atkv. gegn frv., af því að ég álít, að það muni fremur verða til ógagns en gagns, ef það verður lögfest óbreytt eins og það liggur fyrir. - Ummæli hv. flm. út af afskiptum mínum af máli þessu á síðasta þingi ætla ég ekki að svara í þessu sambandi, en vil aðeins minna á það, að þá var líka talið, að nauðsynlegt væri að heimila undanþágur frá að vega síldina, og var þó aðiljum þá ókunnugt það, sem nú fyrst er kunnugt orðið í seinni tíð, að farið er að nota fljótandi bræðslustöðvar úti á rúmsjó. En einmitt vegna þess er óforsvaranlegt að lögbjóða fortakslaust, að alla síld skuli vega, eins þá, sem afhent er á skipsfjöl, og þess vegna er það líka fyrst og fremst praktiskt atriði að hafa þessa undanþágu, sem n. leggur til með brtt. sinni.