10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

1. mál, fjárlög 1934

Jakob Möller:

Ég á aðeins fáar till. og smáar, svo ég vona, að hv. dm. hlusti með þolinmæði á það, sem ég hefi um þær að segja.

Það er nú mikið talað um kreppu á þessum dögum og það að vonum, og um þá erfiðleika, sem landsmenn eiga við að búa, atvinnurekendur og aðrir, en það er sjaldan talað um flokk manna í því sambandi, sem vissulega verður fyrir hörðum búsifjum af kreppunni, og það eru íslenzkir námsmenn, sem ráðast í að fara til annara landa til þess að afla sér þekkingar og fróðleiks með það fyrir augum jafnframt að geta unnið þjóðinni gagn að loknu námi.

Þessar till., sem ég flyt, eru flestar viðvíkjandi slíkum námsmönnum. Það mætti raunar ætla, að það þætti ekki blása byrlega fyrir slíkum till., þar sem fjvn. hefir lagt til að fella niður úr frv. nokkra slíka styrki. Þó er það bót í máli, að n. hefir gefið fyrirheit um að bæta nokkuð úr þessu með því að bera fram till. við 3. umr. um aukinn styrk til náms erlendis til umráða fyrir menntamálaráð. En ég vil vekja athygli n. á því, að a. m. k. um suma þessa menn er svo ástatt, að þeir koma ekki til með að njóta styrks samkv. ráðstöfun menntamálaráðs, nema þá að alveg sérstaklega sé lagt fyrir um það. Menntamálaráð mun yfirleitt ekki veita námsstyrki nema til byrjunarnáms. En ég er þess fullviss, að n. er það ljóst, að það er mjög illa farið, ef námsmenn, sem hafa byrjað á námi og fengið styrk aðeins fyrstu árin, verða að hætta við hálf lokið nám, og það fé og fyrirhöfn og þau ár af æfi þeirra verða meira eða minna ónýt fyrir það, að þeir þurfa að hverfa frá námi áður en því er lokið.

Það er tæplega fullnægjandi, þó n. komi með till. um að auka það fé, sem menntamálaráðið hefir til umráða, ef ekki er jafnframt séð fyrir því, að því fé verði varið til slíkra styrkja, sem að gagni koma, að ekki verði bætt við fleiri mönnum, sem eiga fyrir sér að lenda í þrotum á miðri leið.

Ennfremur er þess að gæta, og snertir það einn mann, sem ég flyt hér till. um, að menntamálaráð hefir valið námsgreinar, sem styrk megi veita til, og útilokað gersamlega sumar námsgreinar, þannig að það telur þær ekki styrkhæfar, og það jafnvel þó mönnum almennt sé ekki ljóst, af hverju það stafar. Þannig er ástatt um einn stúdent, sem ég flyt till. um undir IX.a, að honum var neitað um styrk, af því að menntamálaráð áleit, að það hæfði ekki að veita styrk til þess náms, sem þar um ræðir. Þingið hefir veitt þessum námsmanni styrk tvisvar sinnum, og ég hygg, að þetta muni vera í þriðja sinn, sem þessi till. er flutt, og tel ég því fullvíst, að d. samþ. nú eins og áður að veita þessa upphæð, sem farið er fram á, því ég sé ekki, að jafnvel þó að horfið sé að því ráði að hækka almennan námsstyrk til umráða fyrir menntamálaráð, verði bætt úr þessari þörf með því.

Ég skal svo með fáum orðum gera grein fyrir þeim till., sem ég flyt á þskj. 609. Fyrsta till. er undir V., við 14. gr., til undirbúningskennslu í hagfræði við háskólann samkv. till. háskólaráðs. Hv. dm. minnast þess máske, að á sumarþinginu 1931 flutti menntmn. þál. þess efnis; hún er á þskj. 203, og ég vil biðja hv. þm. að kynna sér hana, ef þeim getur unnizt tími til þess áður en atkvgr. fer fram. Þar eru mikil rök færð fyrir því, hver hagur gæti orðið að því að stofna til undirbúningskennslu í ýmsum fræðum, sem íslenzkir stúdentar geta ekki lært hér heima, heldur verða að fara til annara landa til að fá fullkomna þekkingu í. Með slíkri undirbúningskennslu mundi sparast mjög mikið fé, bæði fyrir ríkissjóð til námsstyrkja og einstaka menn til að stunda nám við erlenda háskóla. En það hefir ekkert orðið úr framkvæmdum í þessu efni. Það mun hafa verið gert ráð fyrir, að stj. tæki málið til undirbúnings, en mér er ekki kunnugt um, að neitt hafi orðið úr því. Ég tek eina námsgrein út úr og fer fram á í þessari till., að veittur verði sá styrkur, sem ráðgerður er í þessari grg., sem fylgdi till.

Við háskóla erlendis mun það tíðkast, að lögfræðinemar fái meiri eða minni kennslu í hagfræði, og þykir það ekki fullnægjandi menntun, sem þeir fá annars. Þar að auki má benda á það, að margir íslenzkir stúdentar, sem fara utan til að halda áfram námi, leggja einmitt fyrir sig hagfræði. Það mundi því, með því að koma upp þessari kennslu, sparast það fé, sem færi til náms þessara stúdenta í öðrum löndum þau árin, sem hægt væri að spara með þessari kennslu. Ég veit ekki, hve mikill sá styrkur er, sem veittur er árlega í þessu skyni. En það er áreiðanlegt, að það er eins mikil upphæð og sjálfsagt meiri en hér er farið fram á, sem er aðeins 3600 kr. á ári. Það er auðséð, að ríkissjóður muni a. m. k. ekki missa neins. Það mun ekki verða umframeyðsla af ríkissjóði, þegar fram liða stundir, og beinn sparnaður augsýnilegur fyrir þjóðarbúið að geta veitt þessa kennslu innanlands í staðinn fyrir að sækja hana til annara landa, því þeir, sem stunda nám erlendis, verða að verja af eigin fé eins mikilli upphæð á hverju ári eins og þeir kunna að fá í styrk, auk þess sem sumir fá engan styrk og verða að sjá fyrir sér að öllu leyti sjálfir.

Þessar till. mínar geta því í raun og veru færzt beinlínis undir þær ráðstafanir, sem kallaðar eru kreppuráðstafanir, til þess að spara greiðslur frá landsmönnum, bæði af opinberu fé og einstakra manna til annara landa og auk þess til þess að afla nauðsynlegrar menntunar mönnum, sem stunda nám hér heima, menntunar, sem er nauðsynleg og hagkvæm í lífinu fyrir alla menn.

Þá er næst önnur till. undir IX. a til Jóns Gissurarsonar til framhaldsnáms í verzlunarfræði við þýzkan háskóla.

Hann hefir haft styrk á undanförnum árum, sem samþ. hefir verið í þessari d., og ég efast ekki um, að d. samþ. hann aftur.

Þá er annar styrkur undir sama tölulið, staflið b, til Agnars Norðfjörðs. Hann stundar einmitt hagfræði við háskólann í Kaupmannahöfn og hefir haft styrk byrjunarárin 4, en hefir svo misst hann. Hann er bláfátækur, og er ekki annað sýnt en að hann verði að hætta við nám, ef hann fær ekki þennan litla styrk. Hann hefir náttúrlega einnig eytt af eigin fé, faðir hans er fátækur maður, en hann hefir fengið eitthvert lán til að standa straum af námskostnaði sínum og jafnframt lagt hart að sér og hefir ekki lifað við nein sældarkjör, það er mér vel kunnugt um. Það er því áreiðanlega vel gert af þinginu að sjá honum farborða það sem hann á eftir til þess að ljúka námi.

Undir rómv. tölul. XV. er styrkur til hraðritunarskóla Helga Tryggvasonar. Það þarf ekki að lýsa fyrir hv. þm. þeirri nauðsyn, sem er á því að halda uppi þeirri kennslu, sem þar um ræðir. Við vitum, að ávaxta af þeirri kennslu er notið mikið hér á þingi á síðari árum, þar sem mikið er notuð hraðritun við þingskriftir. Ég efast ekki um, að hv. þm. geri sér ljóst hver framför er í þeirri breyt., sem á því hefir orðið. Ég álít, að ekki þurfi að fara um það fleiri orðum.

Þá er undir rómv. lið XIX. styrkur til Péturs A. Jónssonar söngvara. Hv. þm. vita, hvernig ástatt er um þennan góða listamann. Hann hefir erlendis komið fram þjóð sinni til mikils sóma. Hann hefir nú orðið að hverfa úr því landi, þar sem hann hefir unnið, því að útlendir menn eiga þar nú mjög erfitt uppdráttar. En hann hefir nú ekkert við að vera, annað en að láta menn njóta sinnar listagáfu, sem hann að vísu fær tækifæri til, en það gefur lítið í aðra hönd til framfærslu fjölskyldunnar.

Þá er undir rómv. lið X1I. farið fram á að veita styrk ungum og efnilegum málara, Eggert Laxdal, sem flestir hv. þdm. kannast við. En þó er svo ástatt með hann, að hann lætur lítið á sér bera, en nýtur samt mikils álits meðal þeirra manna, sem sérstaklega hafa vit á þeim hlutum. Hann hefir sent umsókn til þingsins um styrk til utanferðar til að geta fullkomnað sig í list sinni. Hann hefir aldrei fengið styrk áður af opinberu fé, en má hinsvegar telja hann þess fullkomlega maklegan ekki síður en aðra, sem styrks hafa notið. Mér vitanlega hefir hann aldrei sótt um styrk áður, en það stafar meira af því, að maðurinn er ekki gjarn á að hafa sig mjög í frammi, heldur en af því, að hann hafi ekki fullkomna þörf fyrir styrk.

Ég er svo viðriðinn 2 eða 3 till., sem þegar hefir verið talað fyrir, nema þeirri fyrstu undir rómv. lið X., um námsstyrk til Ágústs Einarssonar, til læknanáms í dýralæknisfræði í Þýzkalandi. Þetta er bláfátækur maður, sem aðeins hefir fengið styrk frá ættmennum sínum og kunningjum. Nú er þrotin leið fyrir honum, svo að hann mun vart geta lokið námi nema að fá styrk. En líkur eru til, að hann fái atvinnu hér heima strax þegar lokið er námi. Stendur það í sambandi við lög, sem samþ. voru hér í d. um dýralækna, svo að þörf er fyrir hann strax og hann hefir lokið námi sínu. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta, en vænti þess, að hv. fjvn. taki till. til velviljaðrar athugunar. Og sérstaklega vænti ég þess, að hún láti eitthvað frá sér heyra viðvíkjandi 1. till. undir rómv. lið V. Ég tel hana mikilsverða, því að þar er um að ræða framtíðarmál fyrir Háskóla Íslands og íslenzka fræðslu. Það er um þessa námsgrein að segja, að hún er kennd með ýmsu móti, og fer eftir háttum hverrar þjóðar fyrir sig, svo að engin þjóð getur haft fullt gagn af kennslu í þeirri fræðigrein, nema að byggja á innlendum þjóðarhögum. Hinsvegar er það nauðsyn fyrir íslenzku þjóðina og íslenzka háskólastarfsemi, að einmitt kennsla í þessari grein komi sem fyrst upp við háskólann.