09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (3075)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. flm. þessa frv. hefir nú tekið sér fyrir hendur að sýna fram á það, að allir hljóti að tapa á innflutningshöftunum, og ef það skyldi vera rétt, þá vantar mig bara skýringar á því, hvers vegna þeim skuli enn vera haldið uppi. Nei, sannleikurinn er sá, að ríkisstj. og bankarnir viðhalda höftunum án þess að frá þinginu hafi komið nokkur aðvörun um, að þar verði tekið í taumana.

Þessi lög frá 1921, sem hér er um að ræða, hafa verið skilin og framkvæmd á þann hátt, að takmarkaður hefir verið innflutningur á þeim vörum, sem almenningur getur komizt af án. (MJ: Ekki er það gert í anda heimildarlaganna frá 1921). En þá vil ég segja hv. þm., að við, sem nú erum í stj., tökum vitanlega meira tillit til þess, sem núv. Alþingi vill vera láta, heldur en þingið 1921.

Hv. 3. þm. Reykv. vitnaði í ræðu eftir Lloyd George um verndartolla og innilokunarpólitík Breta í sambandi við Ottawa-samningana, þar sem hann líkti veröldinni við vitlausraspítala. Ef sú samlíking hefir verið réttmæt, sem ég ætla mér ekkert að dæma um, er það þá ekki sönnun fyrir því, að það kunni að vera réttmætt og jafnvel nauðsynlegt að nota spennitreyjur á sjúklinginn.

Það þýðir í sjálfu sér lítið um það að tala, hvers við mundum helzt óska í þessum efnum, þegar þjóðir þær, sem við skiptum mest við, beita verndartollum og innflutningstakmörkunum hver gagnvart annari, til þess hver um sig að kaupa sem minnst af öðrum og fyrir sem lægst verð. Af sömu nauðsyn verðum við að grípa til áþekkra ráðstafana. Við eigum ekki annars úrkosta í þessum efnum en að dansa eftir duttlungum hinna stærri þjóða. Hér er alls ekki um það að ræða, hvort við viljum hafa frjálsa verzlun eða ekki, og um það getum við enga ákvörðun tekið hér á Alþingi, hvaða aðferðum hinar stærri þjóðir beita í verzlunarmálum. Hlutskipti okkar er að bíða átekta og haga okkur eftir stórveldunum á þeim sviðum.

Það mun ekki vera rétt hjá hv. þm., að innflutningshöft hjá öðrum þjóðum séu sett til verndar innlendum iðnaði. Það er ætið gert með háum tollum á erlendum iðnaðarvörum. Innflutningshöft eru sett til að tryggja það, að erlendur gjaldeyrir sé fyrst og fremst notaður fyrir brýnustu nauðsynjar og skuldbindingar gagnvart öðrum þjóðum. Hin eina orsök haftanna er sú, að erlendur gjaldeyrir nægir ekki til þess að kaupa allt, sem við viljum frá útlöndum. Þess vegna þarf stj. að gera þær ráðstafanir með innflutningshöftum, að nauðsynjavörur gangi fyrir hinum.

Það er að vísu rétt hjá hv. þm., að síðastl. ár var hagstæður verzlunarjöfnuður við útlönd. En hagstæður verzlunarjöfnuður þarf ekki ætíð að bera vott um velgengni á þjóðarbúinu. Og hvað segir svo hv. þm. um það, ef ofan á allt baslið og verzlunarörðugleikana síðastl. ár hefði bætzt óhagstæður verzlunarjöfnuður? Ein af þeim ráðstöfunum, sem aðrar þjóðir hafa gripið til, er sú að hanna um lengri tíma veitingu nýrra lána út úr landi sínu, til þess að varðveita sinn eiginn viðskiptajöfnuð. Það gerir okkur ókleift að fá lán erlendis, þó við vildum, og knýr okkur til þess að skammta þann gjaldeyri, sem við höfum yfir að ráða. Þá verður spurningin aðeins um það, hvort við eigum að láta nauðsynjavörukaupin sitja fyrir óþarfanum. Gjaldeyrisskömmtunin nægir því ekki ein út af fyrir sig; hún þarf að vera samfara innflutningshöftum. Ef ekki væru höft, gæti hver, sem vildi, keypt innlendar vörur til sölu erlendis og flutt inn fyrir það hvaða erlendar vörur, sem honum sýndist. Það er ekki tiltækilegt að afnema heimildina til að takmarka kaup á óþarfavarningi; þau innkaup verða eingöngu að miðast við þann gjaldeyri, sem afgangs er, þegar lokið hefir verið greiðslum fyrir nauðsynjavörur. Ennfremur er þess að gæta, að ef höftin yrðu afnumin, og þó að gjaldeyrisskömmtunin héldist, þá mundi afleiðingin verða sú, að skuldir fyrir vörulán, sem tekin yrðu erlendis til 6, 9 og upp í 12 mánaða, hlæðust á landsmenn. Þær skuldir mundu á sínum tíma liggja eins og farg á bönkunum, verða óbærilegar og koma óorði á þjóðina. Þetta er langmesta hættan, sem yfir vofir nú.

Þar sem ég hefi átt tal við erlenda fjármálamenn, í Englandi og víðar, hafa þeir látið í ljós, að ef slíkar vangreiðslur og kröfur hlæðust upp, mundi það öðru fremur spilla lánstrausti hverrar þjóðar. Ef grunur kemur upp um slíkt, eru birtar skýrslur um skuldakröfur á hendur þeirrar þjóðar, sem hlut á að máli. En á meðan við fylgdum föstum reglum og stæðum í skilum í skiptum við aðrar þjóðir, þá mundum við komast hjá slíku eftirliti. Eitt dæmi þessa hefi ég séð í „The Boardment of Oversea Trade“, viðvíkjandi ríki, sem ekki hafði getað staðið í skilum um sínar skuldbindingar.

Það er rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að það er ekki ætíð vottur um aukna velmegun, þó að skuldir minnki út á við, ef vörubirgðir þverra í landinu. En þegar vandræði eru fyrir höndum með gjaldeyri fyrir nauðsynjavöru, hvað er þá eðlilegra en að gripið sé til hins geymda gjaldeyris í landinu? Vörur, sem safnast saman ár frá ári, eru ekki annað en geymdur gjaldeyrir, sem sjálfsagt er að nota á þessum tímum. Og er það gleðilegt, að kaupmanna- og verzlunarstéttin, sem mest hefir orðið fyrir barðinu á innflutningshöftunum, nýtur þeirra hlunninda af að selja þennan geymda gjaldeyri.

Það er vitanlega ókostur við hverja verzlun, að vörubirgðir safnist saman, og útheimtir það meiri álagningu á nýjar vörur, sem inn eru fluttar. En innflutningshöftunum fylgir aftur á móti sá kostur, að minni hætta er á söfnun vörubirgða. Og þar sem hér er mestmegnis um nauðsynjavörur að ræða, er óþarfi að sýna almenningi eins mikla vorkunnsemi, þó hann þurfi að kaupa nokkuð af gömlum vörum.

Hv. 3. þm. Reykv. virtist harma það, að viðskiptahöftin hömluðu fólki frá að fylgjast með tízkunni. En ég lít svo á, að það muni margt verra hljótast af kreppunni heldur en það, þó að áhrif frá erlendri tízku réni hér á landi.

Hv. 3. þm. Reykv. gerði ráð fyrir, að hætta gæti af því stafað, ef bati væri í vændum á viðskiptasviðinu. Ég geri ekki sérstaklega ráð fyrir þeirri hættu, þó að verzlunin batni eitthvað meira frá því, sem enn er orðið, áður en höftin verða afnumin. Því að menn mundu ekki verja fé sínu í annað en góðar og nytsamar framkvæmdir. Og ef innflutninghöftin örva hugi manna og getu til slíkra athafna, þá hafa þau náð tilgangi sínum, og mætti líta á það sem merki þess, að kreppunni sé að létta.

Þegar fram kemur verzlunarhalli gagnvart útlöndum, þá er aðalorsökin sú, að kaupgetan hefir verið of mikil, menn hafa fengið meiri peninga í hendur en verðið fyrir útfluttu vörurnar svaraði til. Það er fölsk kaupgeta. Með þeim gjaldeyri, sem kemur inn í landið fyrir útfluttar vörur, þarf að borga skuldir og ýmsar ósýnilegar greiðslur, auk þess sem notað er til innkaupa á erlendum vörum. Og það eru engin önnur ráð til að sporna við því, að of mikill gjaldeyrir sé notaður til vörukaupa, heldur en að fastsetja þann gjaldeyri, sem einstaklingar eiga og hafa ráð á. Ríkisvaldið og bankarnir hafa engin önnur ráð en innflutningshöft og gjaldeyrisskömmtun til þess að halda viðskiptajafnvægi við útlönd. Það eru þeirra vopn og verjur undir þessum erfiðu kringumstæðum. Ég skal fúslega viðurkenna, að ýmsir agnúar séu því samfara, að beita þarf þessum aðferðum. En það er ekki hægt að sýna fram á það, eins og hv. þm. hélt fram, að allir aðilar: ríkið, bankarnir, sveitarfélögin og almenningur, tapi á þessum ráðstöfunum. Þeir tapa ekki á höftunum, heldur á því ástandi, sem nú er ríkjandi, og afleiðingar erfiðleikanna eru þannig, að það verður að grípa til haftanna. Höftin eru neyðarvörn, og það gerir enginn að gamni sínu að beita þeim.

Hv. þm. gerði ráð fyrir, að innflutningshöftin hefðu bætt verzlunarjöfnuð þjóðarinnar um eina millj. kr. síðastl. ár, en taldi, að það skipti litlu máli og að útkoman yrði sú sama, þó að höftin yrðu afnumin. Ef breytingin verður ekki önnur en sú, sem hv. þm. heldur fram, að innflutningur aukist aðeins á öðrum vörutegundum en nauðsynjavörum, án þess að vörukaupin aukist yfirleitt, þá er ekki neinna umbóta að vænta. Þá segi ég, að betra sé að hafa höftin, sem leyfa nauðsynjavörum inn í landið, en takmarka kaup á óþarfa vörum. Það eru nú um 30 ríki í Evrópu, sem hafa innleitt hjá sér innflutningstakmarkanir og gjaldeyrisskömmtun. Við Íslendingar erum því engin undantekning í þessu efni. Enda er það ekkert undarlegt, þó að sú þjóð, sem hefir mest viðskipti við útlönd miðað við mannfjölda, hafi gripið til slíkra ráðstafana.