09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (3085)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Tryggvi Þórhallsson:

Það er út af þeim orðum, sem hv. 4. þm. Reykv. lét falla hér áðan, að ég vil segja nokkur orð. Hv. þm. tók það fram, að vegna þeirra ráðstafana, sem nú eru gerðar viðvíkjandi gjaldeyrinum, eigi atvinnuvegirnir við mjög mikla erfiðleika að stríða. Ég er hv. þm. sammála um þetta, en vil einungis benda á það, að þau harðindi, sem atvinnuvegirnir eru beittir að þessu leyti, stafa ekki af innflutningshöftunum, sem hv. 3. þm. Reykv. vill leggja niður, heldur stafa þau frá hinu, að skv. heimildarlögum eru framleiðendur nú sviptir umráðarétti eftir gjaldeyrinum, og jafnframt af því, að gengisnefndin ákveður verðið á gjaldeyrinum, þannig að það er lítt mögulegt og í mörgum tilfellum ómögulegt að reka atvinnuvegina þannig, að þeir beri sig. Hv. þm. beindi svo þeirri fyrirspurn til þeirrar n., sem um þetta ætti að fjalla, gengisnefndarinnar, hvað hún segði um þetta og hvers vegna hún hefði þetta svo. Þegar slík fyrirspurn kemur fram hér á Alþingi, og það vill nú svo til, að nokkrir í þessari n. eiga hér sæti, þar á meðal ég, þá vil ég láta það koma fram, að einmitt þessari skoðun, sem hv. þm. hélt fram, hefir verið haldið fram í gengisnefndinni af mér, fulltrúa annars aðalatvinnuvegarins, að þetta væri óforsvaranleg ráðstöfun, að svipta framleiðendurna umráðarétti yfir gjaldeyrinum. Þessi skoðun hefir ekki eingöngu komið fram hjá fulltrúa annars atvinnuvegarins, heldur hjá fulltrúum beggja atvinnuveganna í n. Þrátt fyrir þessar kröfur, hefir ekki fengizt breyt. - Þetta vildi ég upplýsa út af þessari fyrirspurn, að þessu hefir verið haldið fram í gengisnefndinni af fulltrúum atvinnuveganna, en hefir ekki fengið áheyrn.