09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (3086)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Fors., og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. 3. þm. Reykv. kvartar um, að ég hafi ekki sannað, að innflutningshöftin hafi bætt okkar greiðslujöfnuð við útlönd. Ég tel þetta frv., sem hann flytur hér, sönnun fyrir því. Hann mundi varla flytja þetta frv., ef ekki væru miklar innflutningskröfur, sem er ófullnægt nú. Það er kunnugt, að það er geysimikið, sem innflutnings- og gjaldeyrisnefnd verður að neita um innflutning á. Hitt er ekki alveg óhugsandi, að það kynni að vera eitthvað til í því, sem hann segir, að ef höftin væru felld niður, myndu innkaupin ekki verða meiri að krónutali, heldur eingöngu tilfærsla á því, sem keypt væri. Ef þessi fullyrðing hans væri rétt, þá yrði tilfærslan sú, að meira yrði flutt inn af óþörfum vörur og minna af nauðsynjavörum.

Það er sannarlega ástæða í þessu sambandi til að minnast á þá hluti, sem hv. þm. Str. og hv. 4. þm. Reykv. hafa dregið inn í þessar umr., hvaða verð eigi að vera á okkar gjaldeyri. Ég ræddi þetta ekki vegna þess, að flm. frv. barðist ekki gegn sjálfum gjaldeyrisskömmtununum. Þessar ráðstafanir eru gerðar til þess að geta staðið í skilum við útlönd og geta ráðið, hvaða verð er sett á hinn erlenda gjaldeyri. Þeirri aðstöðu, að geta ráðið þessu, fylgir sú skylda, að hafa sanngjarnt verð á þeim erlenda gjaldeyri. -Ég óska ekki að fara frekar út í þetta geysimikla viðfangsefni að þessu sinni.