09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (3088)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Flm. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins benda á eitt, út af því, sem hæstv. forsrh. sagði nú og sem eiginlega sýnir, hvað við erum sammála. Hann vildi þó láta falla varleg orð um það, að það væri ekki fjarstæða, að breytingin yrði sú, að það yrði tilfærsla, ekki flutt inn eins mikið af þarfavörum, en eitthvað minna af óþörfum vörum. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að það er ekki úr háum söðli að detta í þessu efni eins og nú er ástatt: ótakmarkaður innflutningur á vini og tóbaki, sem ég held, að séu með meiri óþarfavörum, sem til eru. Það myndi frekar mega orða það þannig, að vörurnar dreifðust á milli þeirra, sem eiga sína afkomu m. a. undir því að geta rekið sín fyrirtæki, og erfiðara yrði að hækka verðið óeðlilega, ef viðskiptin væru frjáls. Hitt er annað mál, að gjaldeyrisráðstafanir mundu sjálfsagt eftir sem áður hefta stórkostlega frjálst innflutningsmagn í heild sinni.

Ég vil benda á það, að ef innflutningsnefndin ætti að starfa áfram, þá væri hún eðlilegast skipuð ráði, sem t. d. kaupmannastéttin veldi að öllu leyti. Gjaldeyrisnefndin segði svo þessari n. fyrir, hvað mikið mætti flytja inn, og finnst mér rétt, að innflytjendurnir miðluðu því á milli sín, hvaða vörur væru fluttar inn fyrir þá upphæð, sem þeim væri skömmtuð.