10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

1. mál, fjárlög 1934

Páll Hermannsson:

Nafn mitt er tengt við 3 brtt. við fjárl. að þessu sinni. Tvær þessara till. flyt ég með öðrum þm., og hafa þeir nú gert grein fyrir þeim, svo að ég þykist þar ekki þurfa neinu við að bæta. Verður það því aðeins ein brtt., sem ég þarf að minnast á, XXVIII. á þskj. 609, sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. S.-M. Þessi till. fer fram á það, að veittar verði 1200 kr. til fiskiræktarfélags Fljótsdalshéraðs, og samsvarar það 1/3 rekstrarkostnaðar, eða til vara 1000 kr.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir verið varið talsverðu fé til fiskiræktar þarna eystra. Má fyrst benda á það, að búið er að verja 12000 kr. til þess að gera Lagarfoss laxgengan. Var allverulegur hluti af þeirri upphæð veittur úr ríkissjóði, en hitt fékkst með framlögum einstaklinga og félaga eystra. Ennfremur get ég upplýst það, að á síðasta ári voru byggðar 2 klakstöðvar þarna eystra. Samkv. reikningum, sem ég hefi í höndum yfir kostnaðinn við þessar byggingar, hefir hann orðið rúml. 5½ þús. kr., og hefir verið greiddur með 3000 kr. láni, sem tekið var í þessu skyni, en að öðru leyti með framlögum frá sýslum, hreppum og búnaðarfélagsskap eystra. Er sjáanlegt, að hér hlýtur á eftir að fylgja, að kostnaðurinn, sem lagt hefir verið i, verði látinn koma að liði, og það verður ekki gert með öðru en að starfrækja klakhúsin í þeirri von, að slíkt verði til hagsbóta þeim, sem þarna búa. Hefi ég einnig í höndum áætlun yfir væntanlegan rekstrarkostnað þessara klakstöðva, sem gerir ráð fyrir, að hann verði 3000 kr. á yfirstandandi ári, en ég játa, að ég býst við, að sú áætlun sé of lág, og við það hefi ég einmitt miðað aðaltill. mína.

Hv. 1. landsk. lét svo um mælt í sambandi við till. þá, sem hann flytur ásamt mér og hv. 2. landsk., um það, að stj. heimilist að ábyrgjast allt að 350 þús. kr. lán til þess að reisa síldarbræðsluverksmiðju á Seyðisfirði, að með þeirri ráðstöfun væri bætt úr frekustu þörf flestra manna við sjávarsíðuna á Austurlandi.

Játa ég það, að lax- og silungsklakið muni ekki hafa eins mikla þýðingu fyrir Fljótsdalshérað og síldarbræðsluverksmiðjan hefir fyrir sjávarsíðuna, en ég hefi þó ekki komið auga á nokkra eina ráðstöfun, sem gæti komið að meira liði en fiskiræktin, ef hún gæti lánazt. Fiskiræktarfélagið nær yfir 7 hreppa, sem telja yfir 100 jarðir, er eiga lönd að þeim rennandi vötnum, sem gert er ráð fyrir, að fengju veiði, þar sem hún var ekki áður, eða a. m. k. aukna að miklum mun. Auk þess er gert ráð fyrir, að í sambandi við klakið færist veiði yfir í stöðuvötn, sem eru í landareign þeirra jarða, sem ekki eiga lönd að þeim rennandi vötnum, svo að það yrðu þannig enn fleiri jarðir, sem nytu góðs af klakinu. Held ég, að engin ein ráðstöfun gerði meira gagn en einmitt þessi, að skapa mörgum heimilum veiðiskap. Hefi ég reynt það sjálfur, hve mikil breyting það er fyrir heimili að hafa þótt ekki sé nema litla silungsveiði frá því að hafa enga. Alþingi hefir stuðlað að fiskiræktinni þarna austur frá með framlögum til laxastigans í Lagarfljóti, og þar sem Alþingi hefir styrkt önnur fiskiræktarfélög, leyfi ég mér að vænta þess, að hv. d. líti einnig á þessa till. með velvild og skilningi.