06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (3096)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Magnús Jónsson:

Mér urðu það dálítil vonbrigði, að meiri hl. skuli leggja til, að þetta frv. verði fellt; - reyndar dálítið meiri vonbrigði eftir að ég hefi heyrt ræðu hv. frsm. meiri hl., því að mér virtist eftir hans ræðu, að það hefði kannske mátt finna leið úr þessu máli, þannig að hægt hefði verið að ná samkomulagi um að bæta úr þessum vandræðum, sem eru að verða af innflutningshöftunum, bæði fyrir ríkissjóð, landsmenn í heild sinni, en sérstaklega þá, sem stunda þá atvinnu, sem þessar hömlur skerða.

Það má segja almennt um þetta mál, að það er eins og formælendur haftanna telji bæði sjálfum sér og öðrum trú um það, að innflutningshöft séu eiginlega það eina, sem geti minnkað innflutning verulega. Mér finnst þeir aldrei taka það með í reikninginn, hvað árferðið hefir geysimikil áhrif á innflutning frá ári til árs. Það þarf ekki annað en líta í verzlunarskýrslur til þess að sjá þetta, og ég veit ekki, hvort menn almennt vara sig á, hve nákvæmlega má rekja árferðið eftir innflutningi. Ef maður ætlar að rannsaka árferði og hefir ekkert annað en verzlunarskýrslur, þá getur maður farið ákaflega nærri um það. Munurinn er hvorki meiri né minni en það, að frá árinu 1927, sem er síðara erfiðleikaár, og til 1929, sem aftur á móti er annað góðæri í röðinni, þá munar á innflutningnum 24 millj. kr. Fyrrnefnda árið var hann 53 millj., en hið síðara 77 millj.

Þessar sveiflur koma því alveg af sjálfu sér eftir árferði, þegar engin höft eru og allt er frjálst. Þegar þess vegna er verið að sýna fram á, að það megi hefta innflutning um eina milljón, þá eru þær aðgerðir sannast að segja svo ákaflega smávægilegar móts við það, sem árferðið sjálft veldur, að þær hafa enga þýðingu.

Ég gerði fyrir ári síðan, um það bil sem höftin komu, skrá eftir verzlunarskýrslum í samræmi við það, sem áður var gert hér á þingi, yfir vörur, sem inn eru fluttar. Ef þeim er skipt í framleiðsluvörur og neyzluvörur, þá lætur nærri, að þær skiptist til helminga. Neyzluvörur eru í góðæri að vísu nokkuð fyrir neðan helming, og geta í einstaka ári komizt niður í 2/5. Nú er innflutningshöftunum alveg tvímælalaust ekki ætlað að lama innflutning framleiðsluvara. Má þá draga þennan helming alveg frá. Af neyzluvörunum dregst helmingur frá, sem ekki kemur til mála að hefta, svo sem nauðsynlegar matvörur. Rannsóknin, sem gerð var að ég held 1923 eða '24, og rannsóknin, sem ég gerði í fyrra um það, hvaða vörur væru alveg óþarfar og mætti banna, svo að landslýður lifði þó jafngóðu lífi, hún leiddi í ljós, að það er mjög nærri 1% af öllum innflutningi. En þar fylgir sá böggull skammrifi, að þetta eru nákvæmlega þær vörur, sem ríkissjóður græðir mest á, og þess vegna er hlíft við innflutningshöftum, svo sem tóbak til dæmis.

Það eru þess vegna alveg augljósir örðugleikar á því að láta höftin gera gagn. Og ég er alveg undrandi á því, að þótt gripið sé til þessa í snöggum vandræðum, þá skuli þingið ekki vera fúst á að afnema höftin, þegar sýnt er, að þeirra er engin nauðsyn, en ríkissjóður verður fyrir mjög miklum skakkaföllum af þeim.

Hv. frsm. meiri hl. gekk út frá því, að ríkissjóður skaðaðist um 200-300 þús. kr. fyrir innflutningshöftin, og kvaðst hafa það eftir okkur. Út frá því ályktaði hann, að heftur væri innflutningur fyrir 1 milljón. Þetta er ekki fjarri því, sem ég hefi haldið fram, en sagan er ekki öll sögð með þessu. Segjum, að ríkissjóður tapi t. d. 300 þús. kr., þá getur vel verið, að aðrar vörur verði fluttar inn, sem gefa miklu minna í toll. Það er ekki víst, að þótt hindruð séu vörukaup fyrir milljón krónur, þá séu þær milljón kr. kyrrar eftir í landinu. Það getur verið, að svo og svo mikill partur leiti bara í annan farveg. Segjum, að svo og svo mikið af postulínsvörum sé bannað, þá er keypt svo og svo mikið af leirvörum í staðinn. Ef loðskinn eru bönnuð, þá kaupa menn dýr tau í staðinn, sem leyfð eru. Segjum, að hindrað sé að flytja inn svo og svo mikið af gullhringum og gullskrauti, þá kaupa menn í staðinn til gjafa þá hluti, sem leyfðir eru, svo sem dýrar klukkur o. þ. h. Meira og minna af þeim peningum, sem er verið að reyna að halda í landinu, leitar bara að öðrum farvegum, svo framarlega að kaupgeta er til í landinu. Breytingin verður þá sú, að í stað hátollavaranna koma lægra tollaðar vörur, sem er skaði fyrir ríkissjóð. Út af fyrir sig getur maður sagt, að fyrir ríkissjóð séu óþörfustu vörurnar beztar, svo sem gullskraut og glingur, því að þar er hlutfallið milli gjaldeyrisins, sem lagður er fram, og tollsins hagstæðast fyrir ríkissjóð.

Fyrir þessa röskun verður ríkissjóður að kría inn sínar tekjur af vörum, sem krefjast miklu meiri erlends gjaldeyris í hlutfalli við ríkistekjurnar. Að þessu leyti verka höftin beinlínis á móti tilgangi sínum.

Annars er þetta mál útrætt. Það koma ekki fram nein ný rök. Því er bara haldið fram, að yfir höfuð sé hætta á vöruflóði inn í landið, hvernig sem sýnt er fram á, að engar líkur séu til þess.

En hv. frsm. meiri hl. benti á eina leið til samkomulags, að mér skildist; og mér þykir skaði að hafa ekki haft tækifæri til að ræða um þessa leið, áður en frv. þurfti að koma til úrslitaatkvgr. Þetta er sama aðferðin og viðhöfð var þegar fyrri innflutningshöftin voru afnumin, tollur á þarfar vörur, til þess að draga úr innflutningnum. Innflutnings- höftin og verðtollurinn voru einskonar lagssystkin um tíma, og í skjóli verðtollsins vesluðust höftin út af. Ég væri fús að ræða við þá þm., sem vildu slaka á höftum, en hindra innflutning ýmissa vara með háum tollum. Ég álít ekki alveg forsvaranlegt að beita talsvert mikið hátollastefnu, en miklu skárra en höftin. En það er auðvitað, að tollurinn má ekki vera svo gífurlega hár, að hann freisti manna allt of mikið til smyglunar. Það má náttúrlega leita að takmörkunum, og það getur verið, að hægt sé að fara eitthvað upp fyrir þann hæsta verðtoll, sem nú er.

Ég hefði nú þess vegna viljað óska þess, að þetta frv. fengi afgreiðslu til 3. umr., eða yrði tekið af dagskrá. Það virðist ekki vonlaust, að hægt sé að ná samkomulagi við meiri hl. n. um þann grundvöll, að létta af höftunum, en gera ráðstafanir, sem tryggi okkur gegn innflutningsflóði því, sem menn óttast, en vinni jafnframt ríkissjóði verulegt gagn.