06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (3099)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Magnús Jónsson:

Hv. þm. V.-Húnv. virtist halda, að hann stæði mig að ósamræmi, þar sem hann sagði, að ég hafi sagt, að það gæti farið saman, að lánstraust manna versnaði og að skuldir við útlönd minnkuðu. Ég veit, að hv. þm. er svo skynsamur maður, að hann sér sjálfur, þegar hann bara athugar sig betur, að þetta tvennt stendur í beinu sambandi hvað við annað. Ef menn missa lánstraustið erlendis, þá hljóta skuldir þeirra að minnka þar. Þeir verða að ganga á birgðir sínar, og á pappírnum minnka skuldirnar. Það er því aðeins um að ræða tilfærslu á skuldunum.

Þá var annað atriði, sem hann gat ekki skilið, að innflutningshöftin gætu orðið til þess að auka framfærsluþörf þess opinbera. Hvernig slíkt má verða, hefði hann getað séð í nál. minni hl. Vegna innflutningshaftanna eykst atvinnuleysið. Ég þekki mörg dæmi þess, að fátækir fjölskyldufeður hafa börn sín í búðum eða starfandi við verzlanir. Hefir þegar verið sagt upp fjölda slíkra unglinga vegna haftanna, og verður án efa gert meira að því, ef höftunum verður ekki. létt af. Getur því svo farið, að margar fjölskyldur komist á vonarvöl af þessum ástæðum. Það hefir oft verið á það minnzt, hversu verzlanirnar væru margar hér í Rvík, en hins hefir sjaldnar verið getið, hversu mörgum þær veita atvinnu.

Þá minntist hv. þm. á það, sem talið hefir verið aðalástæðan fyrir því, að ekki væri rétt að afnema innflutningshöftin. Það er hættan á vöruflóði, þegar þeim væri létt af. Ég skal viðurkenna, að þessi hætta er dálítil, en því meiri er hún, sem höftin eru látin standa lengur. Dæmið, sem hv. þm. tók upp á þessa hættu af tóbakseinkasölunni, held ég, að ekki sé rétt. Hún var afnumin 1925, en þá var góðæri, svo þeirra hluta vegna var meira keypt en ella hefði orðið. Að svo geti orðið nú, eru engar líkur fyrir. Annars er það þannig með þessi innflutningshöft, eins og verið sé að stífla læk; vatnið verður einhversstaðar að hafa smáframrás meðan það helzt í læknum. Sé lækurinn stíflaður, þá brýzt vatnið bara fram í öðrum farvegi. Það eina, sem getur stöðvað lækinn, er að þurrka hann upp. Alveg eins er um innflutninginn; það eina, sem getur dregið úr honum, er kaupgetuleysi landsmanna. Eftir því sem kaupgetan þverr, þverr innflutningurinn.

Mér þykir leitt, að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa getað verið við þessa umr., því að við hann hefði ég viljað ræða um samkomulag í þessu máli.