10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

1. mál, fjárlög 1934

Pétur Magnússon:

Ég á hér 3 brtt., eina með hv. 1. þm. Reykv., og hefir hann þegar minnzt á hana. Það er 10. brtt. á þskj. 609. — Ég fer bara örfáum orðum um þær brtt., sem ég flyt einn. Fyrsta till. er við 18. gr. II. b 31. og gengur út á það að hækka eftirlaun frú Eriku Gíslason, ekkju Odds Gíslasonar, bæjarfógeta á Ísafirði. Oddur bæjarfógeti dó á síðastl. ári eignalaus, að því er ég ætla, og verður ekkjan því eingöngu að lifa á þessum litlu launum, sem hún fær frá ríkinu. Hún er orðin fullorðin kona og getur ekki nema að litlu leyti unnið fyrir sér sjálf, og það hefir farið svo fyrir henni — þrátt fyrir ýtrasta sparnað, að henni hefir ekki tekizt að komast af á þeim litlu launum. Nú er hún flutt til Danmerkur, þar sem hún er fædd og uppalin; undi sér hér ekki eftir lát manns síns, og það væri heldur leiðinlegt, ef þessi íslenzka embættismannsekkja þyrfti að leita fátækrastyrks í Danmörku vegna þess, hve eftirlaunin væru skorin við nögl. Hér er einungis farið fram á, að þetta sé hækkað um 200 kr., og hún álítur, að hún myndi komast af með þeirri hækkun. Vænti ég, að hv. dm. vildu líta með velvild á þessa hækkun, sem skiptir engu fyrir ríkissjóð, en getur orðið til þess, að þessi fátæka kona geti framfleytt lífinu.

Þá er hin brtt., við 18. gr. II. g., að á eftir 7. lið komi nýr liður: Til Sigurðar Sigurðssonar skálds — 1000 kr. Sigurður Sigurðsson er svo þjóðkunnur maður, að ég þarf ekki að fara að lýsa honum hér. Hann er kunnur sem skáld, og þótt ljóðmæli hans séu ekki mikil fyrirferðar, — en bókmenntir má yfirleitt ekki meta eftir vigt —, þá hygg ég, að flestir séu sammála um, að mörg þeirra séu frábærlega listræn og beri vott um fágaðan og næman smekk. Þegar af þessum ástæðum, hvað hann hefir lagt fram til ísl. bókmennta, er hann alls góðs maklegur og á skilið að fá einhverja viðurkenningu ekki síður en margir aðrir, og raunar fremur en margir aðrir, sem þá viðurkenningu hafa hlotið og hljóta árum saman. En þetta er ekki hans eini verðleiki. Hann var frumkvöðull að einni merkustu framkvæmd, sem gerð hefir verið á síðari árum hér á landi. Hann var frumkvöðull að og aðalmaður í stofnun björgunarfélags Vestmannaeyinga. Þeir, sem þekktu til þeirrar vinnu, sem Sigurður lagði á sig á þeim tíma, er verið var að stofna félagið, vita vel, að hann lagði fram óeigingjarnt starf og fórnaði bæði tíma og fé til að koma því í framkvæmd. Og fyrstu skipakaup félagsins — kaupin á gamla Þór — voru gerð fyrir hans milligöngu og atbeina. Hitt vita hv. dm., að björgunarfélag Vestmannaeyja var fyrsti vísirinn að þeim landhelgisvörnum, er við höfum nú fengið. Það mál hefði dregizt lengur, að við tækjum landhelgisgæzluna í okkar eigin hendur, ef björgunarfélag Vestmannaeyinga hefði ekki rutt veginn. Um hitt er varla ágreiningur, að það sé bæði metnaðar- og nauðsynjamál fyrir þetta land að hafa sjálft á hendi landhelgisvarnir sínar. Sigurður Sigurðsson er ekki gamall maður, en farinn að heilsu og kröftum. Hann veiktist alvarlega fyrir tveimur árum og hefir ekki borið sitt barr síðan, og heilsu hans er þannig farið, að útilokað er, að hann geti unnið fyrir sér, nema að örlitlu leyti. Sigurður var um skeið fjárhagslega mjög vel stæður. Hann var ákaflega duglegur í sínu starfi og græddist fé. Þó fór svo, þegar heilsuleysið dundi yfir, að efnin gengu til þurrðar, og þótt hann sé ekki efnalaus með öllu, þá þrjóta þau jafnt og þétt, ef ekki kemur hjálp. Ég vil segja, að það væri ekki vanvirðulaust fyrir Alþ. og þjóðina yfirleitt, ef þessi maður ætti að komast á vonar völ. Sigurður Sigurðsson er svo merkur maður fyrir bókmenntastarf og hið mikla starf við stofnun björgunarfélags Vestmannaeyja, að hann á fullkomlega skilið að njóta þeirrar viðurkenningar, sem hér er farið fram á. Ég hefi reynt að stilla þessu svo í hóf, að fjárhagsins vegna ætti ekki að vera fráfælandi að samþykkja till. þegar litið er á, hve margir ómerkir menn hafa notið miklu meiri styrks en hér er farið fram á, og vil ég því vona, að hv. dm. taki þessu vel.