17.05.1933
Efri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (3159)

197. mál, innflutningur á jarðeplum

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég ætla mér ekki að þreyta kapp um þetta mál. Samt verð ég að segja það, að mér finnst hv. 1. landsk. taka helzt til fullan munninn með því að segja, að það væri óverjandi af Alþingi að samþ. frv. eins og þetta.

Ég sé ekki, að með því sé annað gert en að stuðla að því að efla innlenda framleiðslu, og ef það er óverjandi á þessum tímum, þá verð ég að játa, að ég er ekki vel með á nótunum. Ef hér er um að ræða eitthvert ofbeldi gagnvart kaupstöðunum. eins og hv. þm. hélt fram, þá sé ég ekki betur en það væri hægurinn hjá að fá það leiðrétt með brtt.

Það er nú fyrst og fremst, að ekki er búizt við, að bannið gildi á öðrum tímum en þegar nægar birgðir eru í landinu sjálfu. Auk þess þarf bannið ekki að gilda um allt land samtímis, og þá aðeins á þeim stöðum, þar sem nægar birgðir væru af innlendum kartöflum. Og meðan svo er, dettur engum í hug, að okrað verði á vörunni, heldur að verðið verði svipað og á útlendum kartöflum, enda mætti, ef menn væru hræddir við óeðlilega hátt verð, setja ákvæði í frv. til þess að fyrirbyggja það, enda er alls ekki gert ráð fyrir innflutningsbanni nema þegar nóg er til af þessari vöru, og því getur alls ekki orðið um skort að ræða. En vitanlega mundu þessi lög hvetja bændur og aðra framleiðendur til þess að framleiða meira af kartöflum heldur en hingað til hefir verið gert. Það kemur vitanlega fyrir, að skemmdir koma fram í kartöflum, en ég hygg, að þau ráð séu nú fundin við kartöflusýkinni, sem duga til þess að fyrirbyggja hana. Það er að vísu rétt, að veðrátta er sumstaðar svo ótrygg, að uppskeran getur orðið misbrestasöm, en það á ekki við nema um fá héruð á landinu, því á flestum stöðum er uppskeran trygg. Þess vegna get ég ekki fallizt á rök hv. andmælenda frv., en um annað er ekki að gera en að láta arka að auðnu um þetta mál. Ef menn álíta, að þjóðarhagnum sé betur borgið með því að fella frv., þá gera þeir það. Ég tel, að það væri illa farið. Ég tel nauðsynlegt að hvetja menn til að framleiða sem mest af þeim vörum, sem þjóðin þarfnast og hægt er að framleiða í landinu sjálfu, því að nú á tímum ætti þjóðin að búa sem mest að sínu.

Ég get ekki fallizt á, að frv. verði vísað til allshn. Ég sé ekki betur en að málið sé svo greinilegt landbúnaðarmál, að það sé tæplega í samræmi við þingsköp að vísa því til annarar n. en landbn.