10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm (Jón Jónsson):

Fjvn. vill sýna alla lipurð og sanngirni við hv. dm. og væntir þess, að þeir sýni það sama, og til þess að sýna vott á þessu vill hún taka aftur til 3. umr. tvær af þeim till., sem hún flytur. Það er 3. brtt. á þskj. 565, um lækkun á launum endurskoðunarmanna ríkisins, og 13. brtt. á sama þskj., um lækkun á styrknum til Kvennabrekkusafnaðarins. Þessar till. eru teknar aftur til 3. umr. Þá vil ég með örfáum orðum víkja að þeim aths., sem komið hafa fram við till. fjvn. Það er þá fyrst hæstv. forsrh. Honum þótti það vafasamur gróði, að binda styrkinn til Leikfélags Rvíkur því skilyrði, að menntamálaráð skyldi samþ. starfsskrá félagsins: Ég verð hinsvegar að halda því fram, að það sé fyllsta ástæða til þess að eitthvert eftirlit sé haft yfirleitt með þeirri starfsemi, sem styrkt er af ríkinu, og af því að þetta á að vera menningarstarfsemi, virðist þarna sérstaklega vel til fallið, að menntamálaráð sé látið samþ. starfsskrána. Ég skil ekki, að Leikfélaginu geti stafað nein hætta af slíku.

Þá er það hv. 2. þm. Árn. Hann hafði talsvert við það að athuga, að felldur yrði niður styrkurinn til Odds Oddssonar, til ritstarfa. Ég skal játa, að n. gerir þetta ekki að neinu kappsmáli, en virðist engin sérstök ástæða til að halda þessum styrk, síður en svo. Hv. þm. taldi það þessum manni til málsbóta, að hann hefði skrifað í tímarit um alþýðleg efni. Það vill nú svo til, að margir hafa skrifað um alþýðleg efni og mætti æra óstöðugan, ef það ætti að styrkja alla þá, sem það hafa gert. Því er ekki að neita, að þessi maður hefir skrifað nokkuð um alþýðlega hætti eystra um nokkurt árabil, og orkar tvímælis, hversu áreiðanlegur fróðleikur þetta er. Gamall maður að austan hefir t. d. skrifað opinberlega mjög ákveðna gagnrýni á skrif þessa manns. Hinsvegar er það vel farið, ef jafnágætur maður og Sigurður Nordal vill kaupa af þessum manni rit hans til þess að gefa þau út, því að það verður þessum manni, til góðs. N. leggur ekki mikið kapp á þetta, en telur brtt. réttmæta og eðlilega.

Þá er það hv. 2. landsk., sem hafði nokkuð mikið við það að athuga, að n. hefði lagt til að fella niður styrkina til ræktunarvega og varð sérstaklega tíðrætt um ræktunarveginn í Hornafirði og kvað ríkið hafa á næsta ári um 1000 kr. tekjur af jörðum þar. Það er nú svo, að þarna er um mikið land að ræða, en þó að ríkið hafi 1000 kr. upp úr því, þá er það ekki mikið. Fjvn. sér ekki neina sérstaka ástæðu til að taka þessa ræktunarvegastyrki upp, vegna þess að það er margt, sem kallar frekar að, og þessar framkvæmdir eru styrktar allríflega samkv. jarðræktarl. Ef ætti að styrkja menn til að leggja vegarspotta að öllum þeim blettum, sem þeir vildu rækta, þá yrði sá styrkur nokkuð mikill. Hv. þm. nefndi Flóaáveituna. Það er nú svo sérstakt um hana, að hún er orðin sérstakt óskabarn landsins, og það er fyrst á seinni tímum af þessum sérstöku vandræðum, að menn hafa ekki getað risið undir þessum framkvæmdum, nema með tilhlutun frá ríkisins hálfu.

Loks hafði hv. þm. við 41. till. n. að athuga, um styrk til sjúkrasjóðs verkamannafélags Akureyrar. Hann hefir víst nokkra menn með sér í því að þykja það einkennileg till. frá fjvn. um það, að félag, sem sagt er að vera kommúnistískt og sem er miklu eldra en hitt félagið, skuli vera nokkurs aðnjótandi frá því opinbera. Ég lít svo á, þó að ég sé ekki sérstaklega vinveittur kommúnistunum, að það sé ekki fært að neita þeim t. d. að komast undir berklavarnalögin, og þess vegna sé ekki sanngjarnt að neita þeim um hliðstæða sjúkrastyrki. Ég vil helzt sýna öllum þegnum þjóðfélagsins fulla sanngirni og held, að svo bezt komi sanngirni fram frá þegnunum gagnvart ríkinu, að ríkið sýni þeim fulla sanngirni. Ég man ekki eftir, að fleiri aths. hafi komið fram við till. n. og ég vonast til, að brtt. n. verði yfirleitt samþ. Ég skal þá fara nokkrum orðum um þær till., sem komið hafa fram frá einstökum þm. Ég skal játa, að n. er í mörgum tilfellum í vanda með þessar till., sérstaklega skal ég geta þess, að hún hefir samúð með þeim till., sem ganga út á framkvæmdir, sem eru brýnar og nauðsynlegar fyrir héruðin og landið og sem þarf að gera hvort eð er innan stundar. Má þar til nefna þessa sjúkrahússtyrki undir II. og III. Ég skal geta þess, að n. hefir líka nokkra samúð með XXIX. liðnum, sem er um styrk til fávitahælis. Með sumum till. hefir n. þegar samúð, sumum er hún beint á móti, aðrar leggur hún lítið kapp á. Ég skal þá rekja þessar till. eins og þær liggja fyrir.

Fyrsta till. á þskj. 609 er um risnufé ráðh. Hv. 6. landsk., sem er flm. till., sagði, að þegar svo væri ástatt í landinu, að sumir menn vissu ekki, hvað þeir ættu að leggja sér til munns, þá væri hart að veita stórfé til veizluhalda. Það er nú svo, að það er komin á þessi tízka, að það þykir óhjákvæmilegt, að stj. með veizlufagnaði taki á móti ýmsum þeim gestum, sem til landsins koma. Þessháttar veizlur eru vitanlega dýrar, og ég held, að þeir, sem hafa komizt í það að halda uppi risnu fyrir landsins hönd, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir hafi stórskaðazt á því, og þess vegna sé varla fært að samþ. þessa till. — Þá hefi ég minnzt á II. og III. brtt., sem eru um styrki til sjúkrahúsa. N. hefir samúð með þessum till. og hefir óbundin atkv. um þær, en mun þó frekar styðja þær. IV. brtt., sem er um styrk til öldubrjóts austur af Siglufjarðareyri, hefir verið tekin aftur til 3. umr. Þá kemur V. liðurinn, um undirbúningsnám í hagfræði. Því er ekki að neita, að mjög æskilegt væri að fjölga námsgreinum við háskólann, en vegna þess hve illa lætur í ári, sér n. sér ómögulega fært að mæla með því, enda vitum við ekki annað en að til sé allmikið af hagfræðingum hér á landi, og er kunnugt um allmarga menn, sem eru að stunda það nám erlendis. N. telur þetta því ekki brýna nauðsyn. — VI. liðurinn er um styrk til sendikennara í frakknesku. Það má segja, að gott væri að geta þetta, en ég verð að segja, að þetta liggur fjær okkar þörfum en flestir aðrir hlutir. Það hefir verið vitnað til þess, að það væri kominn styrkur í fjárl. til þýzks sendikennara. Þar er nokkuð ólíku saman að jafna. Viðskipti okkar við Þýzkaland eru miklu meiri en við Frakkland og Þjóðverjar standa okkur miklu nær að skyldleika.

Þá koma hér margir liðir, sem ég tek undir eitt. Það eru nefnilega styrkirnir frá VII. og allt til XII. liðs. Það er nokkuð sama um þessa liði að segja, að það væri kannske æskilegt að geta styrkt þessa menn, en þó getur það orkað tvímælis, hvort skynsamlegt sé að teygja allt of marga menn út á þær námsbrautir, sem gefa lítið í aðra hönd eins og oft vill verða. Út af því sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að menntamálaráðið hefði tekið upp þá stefnu að útiloka sumar námsgreinar frá styrk, — mér skildist hann eiga við verzlunarfræði —, þá spurði ég form. menntamálaráðs, hvort nokkuð væri til í þessu, og taldi hann það tilhæfulaust með öllu, að menntamálaráðið hefði tekið nokkra slíka ákvörðun. Um þessar till. stendur fjvn. eins og múrveggur og er á móti þeim eins og sakir standa. Ef till. hennar verða samþ., að taka út yfirleitt alla þessa persónustyrki, skuldbindur hún sig til þess að koma með till. um hækkun á heildarupphæðinni og telur, að með því móti sé öllu betur borgið.

Þá er næst till. frá hv. 6. landsk. um að hækka styrkinn til Bjargar C. Þorlákson. N. tók þarna upp nokkurn styrk og finnst hún hafa goldið Torfalögin og hefir óbundin atkv. um þessa till. — Þá er till. um hækkun á sundlaugastyrknum. N. finnst séð allvel fyrir þessu með 5 þús. kr. framlagi og leggur eindregið á móti þessari till. Þá er styrkurinn til hraðritunarkennslu, tvær till. N. leggur kannske ekki fast á móti þessum till., en frekar mun hún þó vera á móti þeim. Það er ekki að sjá, að neinn verulegur skortur sé á hraðriturum hér á landi, og virðist því ekki brýn þörf að veita þennan styrk. — Þá er styrkur til að koma upp skíðamannaskýli sunnan Vífilfells. N. sér ekki ástæðu til að leggja fram þetta fé: Á Akureyri hafa íþróttafélögin sjálf komið sér upp slíku skýli allmyndarlegu og vel útbúnu, og virðist að íþróttafélögunum hér í bænum ætti ekki frekar að vera ofvaxið að koma sér upp slíku skýli.

Þá er styrkurinn til Alþýðubókasafns Rvíkur. N. hefir óbundin atkv. um þá till. Það má segja, að þetta sé mjög góð og merkileg stofnun. Hinsvegar hafa Reykvíkingar betri aðgang að þessu safni en aðrir, og í þessu sambandi finnst mér ómakleg þau ummæli hv. 1. landsk., sem er flm. að þessari brtt., að ýmsir líti svo á, að Rvík ætti ekki tilkall til ríkissjóðs, heldur ætti hún bara að borga skatta. Ég vil segja, að í þessu sambandi er mjög skotið fram hjá markinu. Ég veit ekki, hvaða staðir á landinu hafa betri aðstöðu til menntamála en Rvík. Hér er og hefir verið stærsta bókasafn landsins, Landsbókasafnið, sem aðrir landsbúar hafa ekki getað haft not af nema þá einstöku vísindamenn, sem sitja hér tíma og tíma við vísindaiðkanir, Reykvíkingar hafa betri aðstöðu en aðrir landsbúar til þess að nota landsins beztu skóla, og eftir till. þingsins held ég, að ekki sé hægt að segja, að Reykvíkingar eigi ekki tilkall til jafnréttis eins og hverjir aðrir landsbúar. Um till. hefir n. óbundin atkv. — Þá er næst styrkur til Íslandsdeildar Norræna félagsins. Í stjfrv. lá fyrir till. um þetta, en fjvn. Nd. lagði eindregið á móti þessari till., og var þar samþ. með talsverðum meiri hl. að styrkja ekki félagið. N. hér sér ekki ástæðu til að bæta þessum lið á útgjaldahlið fjárl. og telur, að þetta sé ekki það aðkallandi, að það megi ekki bíða eins og annað.

N. leggur á móti aðaltill. næstu, um 1500 kr. til Péturs Á. Jónssonar, en hefir óbundin atkv. um varatill. Um XX. brtt. hefir n. óbundin atkv. Loks er það XXI. brtt., styrkur til utanfarar málara. N. finnst þessir málarar vera að verða hálfgerð plága hér á landi, þeir koma í hrúgum inn í fjárl., og leggur þess vegna á móti þessum lið. Um XXII. brtt. hefir n. óbundin atkv.

Þá er það stærsta till., frá hv. 2. landsk. Því er ekki að neita, að sú till. hefir margt og mikið til síns máls, en hinsvegar virðist n., að hún sé svo rífleg, að það muni ekki vera tilgangurinn með flutningi hennar, að hún nái samþykki í þetta sinn, enda vill n. fara fram á það, að hún verði tekin aftur til 3. umr. N. hefir lýst því yfir við hv. flm., að hún myndi taka þessa till. til athugunar til 3. umr., því að hún er svo sérstaks eðlis. Hv. þm. sagði, að þingið hefði sýnt þessu máli litla rækt. Held ég, að það sé ekki rétt. Þingið hefir sýnt viðleitni á því að stuðla að framkvæmdum ýmsum, er gerðar væru á heppilegum tímum, sbr. Sogsvirkjun og heimildir í 22. gr. Er það og það bezta, sem hægt er að gera, að mínu áliti, að stuðla að aukinni framleiðslu. Hér hefir verið gengið að ábyrgðarheimild um Sogsvirkjun, sem skapa myndi Reykvíkingum mikið hagræði, ef til framkvæmda kæmi. Er því ekki hægt að segja, að þingið hafi sýnt þessu máli neitt tómlæti. Hv. fjvn. og hæstv. fjmrh. hafa lofað því að athuga til 3. umr. um styrk til atvinnubóta nánar, og vil ég því fara fram á það við hv. flm., að hann taki till. aftur.

N. mælir með XXIV. brtt. frá hv. 2. þm. Árn.

Þá er XXV. brtt., styrkur til Eggerts Magnússonar til dýralækninga. Slíkar till. hafa átt hér erfitt uppdráttar, eins og yfirleitt allir styrkir til ólærðra manna, þar sem engin trygging er fyrir því, að slíkar till. myndu ekki koma úr öllum áttum, ef tillit væri tekið til sumra. Leggur því n. á móti þessari till.

Um XXVI. brtt. áskilur n. sér óbundin atkv.

Á XXVII. brtt. leggur n. ekkert kapp, hvorki til né frá. Álítur hún það verk Búnaðarfélags Ísl. að beita sér fyrir því máli, er hún fjallar um.

Um XXVIII. brtt. hefir n. óbundin atkv. Þá er XXIX. brtt., byggingarstyrkur til fávitahælis. Er hér auðvitað full þörf á styrk. Þarna hefir einstök kona og svo Prestafélag Ísl. boðizt til að leysa úr brýnustu vandræðunum, með því að útvega stofnuninni húsnæði fyrir 25 fávita. Er þetta nokkur úrlausn í bili. Sagt er, að 200 manns hér á landi séu fávitar, en auðvitað er misjöfn þörf þeirra á hælisvist. Sumir halda því fram, að þetta bráðabirgðahæli myndi seinka komu stærra hælis, og verða menn að líta á það, hver eftir sínu skaplyndi.

Þá er XXX. brtt. Fyrri liðurinn er um styrk til ekkju einnar, 1200 kr. fyrir 1000 kr. N. lítur svo á, að það, sem hér er farið fram á, hafi ekki verið vani, og leggur hún því á móti till. Síðari liðurinn er um styrk til Sigurðar Sigurðssonar skálds, 1000 kr. N. dregur ekki í efa, að þessi maður sé vel hagmæltur, en vill þó ekki bæta á rithöfundastyrki. Er henni heldur ekki kunnugt um nein stórvirki, er liggi eftir þennan mann.

Þá er XXXI. brtt., um að taka Friðfinn Guðjónsson leikara upp á eftirlaunaskrá. Um það áskilur n. sér óbundin atkv.

XXXIII. brtt. fjallar um að veita Jóni Þorleifssyni listmálara allt að 10 þús. kr. lán til þess að koma sér upp vinnustofu. Gerast nú margir málararnir hér á landi. N. leggur ekki á móti þessu að svo stöddu, en mælir með því, að till. verði tekin aftur til 3. umr.

Þá hafa 2 síðustu till., frá hv. 2. þm. Eyf., verið teknar aftur.

Hv. 2. þm. Árn. flytur brtt. á þskj. 634. N. heldur þó fast við sína till. Telur hún, að vel sé gert við Suðurlandshéruðin með því að veita 12 þús. kr. vöruflutningastyrk. Telur því n. ástæðulaust að verða við þessari hækkun.

Um till. frá hv. 2. landsk. á þskj. 628 áskilur n. sér óbundin atkv. Þó má geta þess, að n.mönnum finnst ástæðulaust að verja fé til kaupa á þessum einkennisbúningum, sem síðasta till. fer fram á, að keyptir verði.

Þá eru nokkrar brtt. á þskj. 624. Sú fyrsta er frá hv. 2. þm. Eyf. um styrk til Halldórs Kr. Jónssonar til dýralækninga. Leggur n. á móti þeirri till. og gerir ráð fyrir, að hann verði að sæta sömu örlögum og hinn dýralæknirinn, sem ég minntist á áðan.

Næsta till. á sama þskj. er frá hv. 6. landsk., og er n. henni meðmælt.

Síðast er sértill. frá 3 hv. dm. um ábyrgð til síldarbræðslustöðvar á Seyðisfirði. Virðist n. þetta orka tvímælis, en þó vill hún athuga málið nánar. Hefir n. fengið í hendur ýtarlegt skjal frá Síldarbræðslustöð ríkisins, sem ætti að vera málið vel kunnugt. Hefi ég ekki getað kynnt mér þetta skjal, sem er nýkomið, og leyfi ég mér því að óska, að till. verði tekin aftur til 3. umr. E. t. v. gæti þá orðið samkomulag um þann ágreining, sem risið hefir hér í d. út af því, hve stór verksmiðja þessi ætti að verða og hvar hún skyldi sett.