28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (3192)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki að svo komnu fara mörgum orðum um þetta frv., sem mér finnst í alla staði fjarstæða ein og öfgar. En ég get þó ekki stillt mig um að láta í ljós undrun mína á framkomu þeirra hæstv. forsrh. og hv. þm. Seyðf. Þeir hafa stundum á undanförnum þingum rætt þetta mál. Og þá hefir hæstv. forsrh. staðið sem klettur á móti því og fært skýr rök fyrir því, hvers vegna ekki er hægt að hækka tekju- og eignarskattinn eins og hv. þm. Seyðf. vildi. Það eru skrítin umskipti, sem nú hafa orðið á þessu. Nú gefur á að líta, frv. kemur fram frá hæstv. ráðh., en hv. þm. Seyðf. sér sér ekki fært að fylgja þessu óskabarni sínu. - Af skýrslum hæstv. ráðh. er ljóst, að brýn nauðsyn ber til þess, að ríkissjóði sé aflað fjár. Tekjuhallinn er 21/2 millj. króna. Auðsætt er og, að nú þarf að gera ráðstafanir gegn kreppunni og afleiðingum hennar. Það mun kosta of fjár, og tilgangurinn með þessum umr. er einmitt að finna leið til þess að afla ríkissjóði fjár, hvar þær byrðar baki minnst tjón, og gæta þess, að þær verði ekki einungis á pappírnum, heldur að það verði ríkissjóði raunverulegar tekjur. Ég held, að ekki sé neitt óheppilegra til en að láta þetta lenda á tekju- og eignarskatti. Kreppan er í algleymingi og bæjarfélögin eru féþurfar. Þeim er vísað á eina leið: Tekju- og eignarskatt.

Hæstv. ráðh. sagði, að ríkið gæti ekki látið bæjarfélögunum eftir þessa tekjulind. En ég held einmitt, að ríkissjóður geti vel staðið sig við það, að láta bæjarfél. hafa þetta sitt eina lamb í friði, því að ríkissjóði eru allir aðrir vegir færir, en fyrir bæjarfélögin er þetta eina úrræðið. Hækkanir á gjöldum eru auðvitað alltaf frekar óvinsælar, en þessi mun þó óvinsælust og jafnframt fjarstæðust, sérstaklega þegar svo langt er gengið sem hér. Ég vil náttúrlega ekki segja, að það sé fallegur lestur, en máski dregur svolítið úr sviðanum við að lesa upp skýrslur, eins og hæstv. ráðh. gerði hér. En þess er að gæta, að þetta eru einungis lægstu tölurnar, skattstofninn. Svo taka við viðbætur og aðrir hliðstæðir skattar, þar til upphæðin er orðin þreföld ef ekki fjórföld á við hann. Ég veit ekki, hvort rétt er hermt, að fram kæmi sú reginfjarstæða, ef maður hefði 100 þús. kr. tekjur (sem reyndar er tæpast til hér á slíkum tíma), að þá þurfi hann að greiða í tekju- og eignarskatt, viðbót við hann, útsvör og aukaútsvör 102 þús. krónur, eða 2000 kr. meira en hann fær í tekjur. Ekki gengur víst vel að lifa á 2000 krónum minna en ekki neitt. Ég hefi heyrt, að nú séu menn að jafna niður á Reykjavík 21/2 millj. kr., tvöfaldri eða þrefaldri upphæð á við óbreyttan tekju- og eignarskatt. Þau verða mörg árangurslausu lögtökin, áður en allir þessir skattar koma til skila.

Eitt atriði vil ég benda á: það eru viss takmörk fyrir því, hvað hátt skattar mega fara, áður en tekjurnar fara að hverfa. Ég á þar ekki aðeins við það, sem hæstv. ráðh. kvað markleysu eina, að menn misstu áhugann fyrir að afla sér þeirra. Nei, það eru tekjurnar, sem ríkissjóður væntir sér góðs af, sem hverfa. Menn reyna að finna fleiri og fleiri ráð til þess að deila og skipta tekjunum niður, til þess að sleppa við að greiða af þeim skatta. Þetta fer að verða vorkunn, er ríkið gengur svo fast á, að þetta er eina leiðin til þess að forðast að verða vanskilamaður í framtíðinni. Til þessa liggja margar leiðir, og það er hróplega rangt af löggjafarvaldinu að hvetja menn til þess óbeinlínis eins og með þessu frv. Hæstv. ráðh. sagði, að frv., þó að það yrði að lögum, gæti ekki dregið úr framtaki manna. Hann viðurkenndi þessa mótbáru, en hélt því fram, að hún gilti ekki í þessu tilfelli, af því að skatturinn væri miðaður við næsta ár á undan. Þetta er alveg rétt, ef ekki hefði æfagömul reynslan sýnt, að verkanir af þessu má fastlega búast við að haldi áfram. Hæstv. ráðh. minntist einmitt um leið á aukna erfiðleika og útgjöld, sem ráðstafanir gegn kreppunni hefðu í för með sér, svo að búast má við, að þessi skattalöggjöf haldi áfram að verka; og ekki er gott að senda út skipun eða tilkynningu um, að þessu sé ekki ætlað lengra líf. Hæstv. ráðh. talaði um, að þarna væri hann á hnotskóg eftir tekjum, sem ósnortnar væru af greipum kreppunnar. Það getur svo sem verið, að þær séu einhversstaðar til, en ekki er gróðavegur fyrir ríkissjóð að láta við það sitja. Margir hafa orðið að sætta sig við lægri laun vegna kreppunnar og margir hafa misst atvinnu sína. Það væri þá helzt um starfsmenn ríkisins að ræða. En þeir eru svo lágt launaðir, að ekki fengjust miklir skattar af þeirra fé, þótt samanlagt væri. Kreppan hefir reyndar gert vart við sig þar. Hún kemur fram glöggt í lækkun dýrtíðaruppbótar. En það mál er nú þar að auki alveg stoppað í Ed., og veit enginn, hvernig því muni reiða af. Þá get ég nefnt menn, sem eru á föstum launum. En þeirra laun eru það, sem skýrast koma fram við framtal, og þykir sá skattstofn líka einna þægilegastur, en þeir hafa þegar greitt fullt svo mikið sem hinir, með áætluðu launin. Ég endurtek enn, að þetta sé óheppilegasta leiðin, sem hægt er að velja ríkissjóði til tekjuauka. Ég er frekar fylgjandi hækkun á hverjum skattstofn sem er, öðrum en þessum. Það er mín fasta skoðun, að þegar safna þarf fé í ríkissjóð á erfiðum tímum sem þessum, þá beri að dreifa sem frekast er hægt þunganum af þessum auknu byrðum, svo að hver og einn beri sem jafnast. Nú eru ekki til stórupphæðir hér á landi, engar stórtekjur einstaklinga. Ef hinsvegar væri lagður á sérstakur kreppuviðauki, þá þyrfti ekki nema 5-10% til þess að þessar ákveðnu tekjur væru tryggðar. Og ég er alveg sannfærður um, að þetta mundi gera miklu minni skaða en hækka og þar með spilla þeim skattstofni, sem er eina bjargráð bæjarfélaganna. Dreifing sú, sem er fólgin í skattakerfinu eins og það er nú, er talin heppilegasta fyrirkomulag í þeim efnum, og er ég því fast fylgjandi, að ekki verði hróflað svona stórkostlega við henni.