28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (3194)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði seinast, vil ég aðeins segja það, að að sjálfsögðu athugar fjhn. þetta mál gaumgæfilega, eins og önnur mál, sem til n. er vísað, og þótt meiri hl. n. tæki að sér flutning málsins eftir beiðni hæstv. forsrh., hafa nm. engu að síður óbundnar hendur um einstök atriði málsins. Hinsvegar mundi þó meiri hl. n. auðvitað ekki hafa tekið að sér að flytja þetta frv., ef hann hefði ekki talið það í alla staði forsvaranlegt, eftir atvikum, að samþ. frv.

Ég mun ekki fara mikið inn á að svara þeim aths., sem fram hafa komið á fundinum gegn málinu. Bæði er það, að hæstv. forsrh. svaraði rækilega þeim aths., sem fram höfðu komið, þegar hann talaði, enda býst ég við, að hæstv. ráðh. tali aftur og svari þá þeim aths., sem síðan hafa komið fram. Þó mun ég víkja að nokkrum atriðum, sem fram hafa komið í ræðum manna, og vík þá fyrst að hv. þm. Seyðf., sem hafði sitthvað að athuga við flutning þessa máls. Þó gat hann þess, að þetta væri eina frv., sem frá stj. hefði komið vegna kreppumálanna, sem hann gæti stutt, enda þótt frv. gengi skemmra en hann óskaði eftir. Má vera, að hv. þm. Seyðf. þyki frv. ganga skemmra en ætti að vera, en ég er þó ekki viss um, hve mikill hugur fylgir þar máli hjá hv. þm., en ef svo er, er hægurinn fyrir hv. þm. að bera fram brtt. við frv. í þessa átt. Þá þótti hv. þm. það og galli á frv., að ekki væri ákveðið í því, hvernig tekjunum, sem það hefði í för með sér, skyldi verja, og skildist mér á hv. þm., að hann teldi sjálfsagt, að tekjunum yrði varið til atvinnubóta. Þegar þessi hv. þm. talar um atvinnubætur, á hann sjálfsagt eingöngu við atvinnubætur til handa verkamönnum í bæjum, en ég hafði hugsað mér, að það væru atvinnubætur líka, ef hægt væri að gera atvinnurekstur bændanna arðvænlegri en hann er nú, og verði frv. samþ., verður tekjuaukanum, sem af því leiðir, varið til þess að mæta útgjöldunum af þeim ráðstöfunum sem nauðsynlegt er að gera vegna hins erfiða ástands í þjóðfélaginu, og þó einkum vegna erfiðleika þeirra manna, sem verst eru settir. Liggja að vísu ekki fyrir beinar skýrslur um það, hver stétt þjóðfélagsins á erfiðasta aðstöðu, en ég hygg þó, að færa megi að því glögg rök, að meginhluti bændastéttarinnar er sá hluti þjóðarinnar, sem lægstar tekjur hefir allra manna í landinu. Hv. þm. sagði, að þessi viðbótarskattur mundi aðallega koma niður á mönnum í kaupstöðum, og þess vegna fannst honum sjálfsagt að verja fénu til atvinnubóta þar. En þessa kenningu álít ég töluvert hæpna. Fyrst og fremst er þjóðfélagið ein heild, og það kemur niður á því öllu, ef fjöldi bænda flosnaði upp af jörðum sínum. Og í öðru lagi er það þjóðarheildin (sveitirnar líka), sem hefir veitt fjölda manna í kaupstöðum þá góðu aðstöðu, að skatturinn kemur meira niður á þeim; svo er t. d. um allan þann fjölda embættismanna, sem ríkið borgar laun, o. s. frv. En í þessu frv. er gert ráð fyrir þeirri sjálfsögðu tilhögun, að tekjurnar af því renni í ríkissjóð, en að úr ríkissjóði verði greitt það, sem brýnust nauðsyn er á, til þess að létta undir með þeim, sem standa höllum fæti með afkomu sína.

Hv. þm. N.-Ísf. vék að því, að frv. tæki tekjustofnana frá sveitar- og bæjarfélögum, en ég held, að hv. þm. hafi gert of mikið úr þessu, því að eftir gildandi 1. um tekju- og eignarskatt á aukaútsvar til bæjar- og sveitarfélaga að dragast frá tekjunum, áður en tekjuskatturinn er lagður á. Ég sé því ekki betur en að sveitar- og bæjarfélög hafi forgangsréttinn að gjaldþoli landsmanna, en ríkissjóður kemur næst á eftir. - Þá vék hv. þm. N.-Ísf. að því, að svo gæti farið, að peningarnir væru ekki til í skattgreiðslurnar, þótt skattskýrslurnar sýndu háar tekjur, vegna afborgana atvinnurekenda á skuldum sínum. Skal ég viðurkenna, að nokkuð getur verið til í þessu, og býst ég við því, að ef slík l. ættu að gilda um lengri tíma, væri nauðsynlegt að setja ákvæði um það, að taka skyldi meðaltal af tekjum fleiri ára við ákvörðun skattsins. Hinsvegar er vitanlegt, að margir menn í landinu hafa tekjur sínar í beinum launum, og þar verða peningarnir þó alltaf til, enda vita menn, að hverju þeir hafa að ganga í þessum efnum.

Þá talaði hv. þm. N.-Ísf. um það, að hér á þessu þingi væri ráðgert að verja 12 millj. kr. til annars aðalatvinnuvegar landsmanna, og spurði hv. þm. í því sambandi, hvort eigi væri meiningin, að sjávarútvegurinn borgaði þessa upphæð. Skal ég ekki fara mikið inn á þetta, en vil þó benda á, að gert er ráð fyrir, að sá atvinnuvegur, sem ráðgert er að styðja, endurgreiði að miklu leyti sjálfur þá bráðabirgðahjálp, sem honum yrði veitt, en sumpart greiðist hún úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, ríkissjóði, sem allir landsmenn leggja sinn skerf í, bændur eins og aðrir. Hér er því alls ekki um neitt slíkt að ræða, að einn atvinnuvegurinn borgi algerlega fyrir annan, og skal ég svo ekki fara frekar út í það.

Þá talaði hv. þm. N.-Ísf. um það, að slík l. mundu draga úr hvöt manna til að afla sér meiri tekna. Má auðvitað segja þetta um öll skattalög jafnt, en ég get ekki annað séð, jafnvel þótt frv. verði samþ. óbreytt, en að álitleg upphæð verði eftir handa þeim, sem mest koma til með að borga, svo að það mundi borga sig fyrir menn að hafa sömu viðleitni sem hingað til til þess að afla sér tekna. - Í sama streng tók hv. 3. þm. Reykv., sem taldi frv. öfgakennt. Ummæli hans hnigu í sömu átt og ummæli hv. þm. N.-Ísf. Og við þessu er ekki annað að segja en ég þegar hefi sagt, að ekki verður annað séð en að hægt sé að ná fullum árangri af því að afla sér hárra tekna eftir sem áður. Hv. 3. þm. Reykv. talaði einnig um það, að með frv. væri tekinn gjaldstofninn frá sveitar- og bæjarfélögum, og sagði hv. þm. í því sambandi, að ekki væri hægt að bera niður á óheppilegri stað til að afla tekna. Hefi ég áður svarað þessu og bent á það, að ríkissjóður kemur fyrst í annari röð, en að sveitar- og bæjarsjóðir hafa forgangsréttinn að skattleggja með beinum sköttum. Það er og víst, að mikill meiri hl. af þjóðfélagsborgurum þessa lands hefir miklu minni tekjur en svo, að þeir komi til greina við ákvörðun þessa skattauka, og þegar mikill meiri hl. þjóðarinnar verður að komast af með minni tekjur en þessi l. tækju til, ætti að vera forsvaranlegt að fara fram á skerf frá hinum, sem hærri tekjur hafa. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um það, að ef frv. væri samþ. óbreytt, gæti svo farið, að maður, sem hefði 100 þús. kr. tekjur, yrði að greiða 102 þús. kr. í útsvar og tekju- og eignarskatt samanlagt. Get ég ekki skilið, að þetta geti átt sér stað, nema ef niðurjöfnunarn. leggur hærra aukaútsvar á manninn en tekjum hans nemur, og ef svo færi, mundi ríkissjóður reyndar ekkert fá, því að aukaútsvarið er dregið frá tekjunum áður en tekjuskatturinn, er reiknaður út, eins og ég hefi tekið fram áður. Þetta dæmi er því hrein fjarstæða, nema með því eina móti, að eignirnar væru margar milljónir og þetta yrði mest eignarskattur, en þó mundi maðurinn samt vel þola þetta eitt ár.

Þá vék hv. 3. þm. Reykv. að því sama og komið hefir fram hjá fleirum, sem talað hafa á móti þessu frv., að draga mundi úr hvöt manna til að afla sér tekna, ef frv. væri samþ. eða aðrar ráðstafanir gerðar, sem miða í svipaða átt. Skil ég ekki vel í þessu. Eftir frv. hvílir hæsta viðbót á 14000 kr. skattskyldum tekjum og þar yfir, svo að maður, sem hefir 14000 kr. skattskyldar tekjur, á að greiða í skatt 1844 kr., og hefir þannig 12156 kr. í afgang, og afgangurinn verður þannig því meiri, sem tekjurnar eru hærri. Og þótt menn eigi að láta þennan hluta af tekjum sínum af höndum við ríkissjóð, skil ég ekki, að menn hafi ekki eftir sem áður sömu hvötina til að afla sér mikilla tekna. Ég segi fyrir mig, að ég vil heldur hafa 40 þús. kr. tekjur, enda þótt ég þurfi að greiða 20 þús. af þeim í opinber gjöld, heldur en 20 þús. tekjur, þótt ég þyrfti ekki að greiða nema 5 þús. af þeim og hafi ekki eftir nema 15 þús. kr. Ætla ég og, að flestir líti eins á þetta og ég. Eins og ég áður sagði, hefir og fjöldinn allur af landsmönnum miklu minni tekjur en svo, að þeir komi til greina við þennan viðbótarskatt. Er ég reiðubúinn til þess hvenær sem er að færa fram óyggjandi sannanir fyrir því, að meiri hl. bænda, sem þó leggja meira að sér en nokkur önnur stétt þjóðfélagsins, hefir minni tekjur en lágmarksákvæði frv. ná til.

Hv. þm. vék að því, að það væri ekki þakklátt verk fyrir stj. að finna leiðir til fjáröflunar í ríkissjóð. Þetta er alveg satt; það er aldrei þakklátt verk. Ef stungið er upp á að hækka eitthvað tolla á neyzluvörum, þörfum eða óþörfum, þá er talað um það, að verið sé að minnzt er á að leggja tekju- og eignarskattpína áður skattpíndan almenning. Ef skatt á hærri tekjur og eignir, þá er aftur á móti viðkvæðið, að með þessu verði dregið úr hvöt manna til að sjá sér farborða og afla tekna og eigna. Það er sem sé algerlega ómögulegt að benda á þá leið til fjáröflunar fyrir ríkissjóð, sem mæti ekki hinni mestu mótspyrnu frá einhverri stétt þjóðfélagsins. Einhverjum finnst alltof nærri sér höggið. Ég hygg nú, að sanngjarnasta leiðin sé sú, að sem flestum finnist nokkuð nærri sér höggið, en engum sé þó íþyngt svo, að hann geti ekki undir risið.

Hv. þm. Vestm. talaði um það, að þó að svo væri ákveðið í þessu frv., að það skyldi aðeins gilda til bráðabirgða, eitt ár, þá þýddi það ekki neitt, af því að frv. myndi ganga aftur, eins og hefði sýnt sig um ýms tekjufrv., sem áður hefðu legið fyrir þinginu. Náttúrlega færði hann ekkert þessu til sönnunar. Ég skal játa, að reynslan ein verður úr því að skera, hvort á næsta þingi verður farið fram á samskonar viðauka við tekju- og eignarskatt. Og þó að ég að vísu geti ekki heldur fært fram neinar sannanir fyrir því gagnstæða, þá er ég fyrir mitt leyti fullviss um það, að þetta tímaákvæði í frv. er meint í fullri alvöru, - enda hygg ég að flestir hv. þm. geri sér það ljóst, - og að frv. í þessari mynd verði ekki borið fram á næsta þingi, nema alveg óvenjulegir og ófyrirséðir atburðir komi fyrir.

Að lokum skal ég geta þess, eins og ég hefi tekið fram áður, að þótt meiri hl. fjhn. hafi borið þetta frv. fram f. h. hæstv. forsrh., þá er það alveg sjálfsagt mál, að n. mun nú eftir þessa umr. taka frv. til athugunar. Og það getur náttúrlega vel komið fyrir, að n. annaðhvort öll eða a. m. k. sá meiri hl. hennar, sem frv. ber fram, komi með ýmsar brtt. við það. Ég er þess vegna ekkert við þessa umr. að halda því fram, að þetta frv. skuli endilega samþ. og afgr. sem l. óbreytt. Hinsvegar til ég meginstefnu frv. réttmæta.