28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (3199)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að ummæli mín og hv. frsm. fjhn. um þetta mál má ekki skilja svo, að við myndum ekki fylgja hækkun á tekju- og eignarskatti, þegar um það væri að ræða að byggja þá upp til langframa. Ástæðan fyrir því, að við viljum binda þessa hækkun við eitt ár, er sú, að grundvöllur sá, sem skatturinn er byggður á, er ekki með öllu gallalaus. Þegar jafnmikill munur er á afkomu atvinnuveganna frá ári til árs eins og hér hjá okkur, þá verður til langframa að leggja til grundvallar fyrir skattinum meira en afkomu eins árs. Á slíkum grundvelli verður engin skattalöggjöf byggð, sem standa á til langframa. Væru atvinnuvegir okkar öruggir og afkoma þeirra nokkurnveginn viss, væri öðru máli að gegna. Þessi aðferð, að byggja nauðsynlegan skattauka á þeim grundvelli, sem áður hefir verið lagður, hefir allmjög verið notuð í nágrannalöndunum nú á síðustu tímum. Þannig hefir t. d. í Danmörku verið bætt 50% á allan tekju- og eignarskatt. Ennfremur mætti nefna fleiri þjóðir, þar sem þessi aðferð hefir verið notuð til bráðabirgða. Það væri að sjálfsögðu æskilegast, ef hægt væri að tryggja ríkinu fasta tekjustofna, sem lítið breyttust frá ári til árs, en slíkt er ekki unnt að gera, a. m. k. ekki á þessu þingi. Hér eru árlega framlengdir stórir tekjustofnar, eins og t. d. gert er í Noregi með allmarga tekjustofna ríkisins. Með því fyrirkomulagi er leiðin til þess að breyta þeim alltaf opin, og er það út af fyrir sig kostur.