28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (3200)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Ég býst við, að mál þetta verði athugað í n. þeirri, sem ég á sæti í, og get ég því verið stuttorður að þessu sinni. En út af ummælum hæstv. forsrh. um það, hversu þungt skattur þessi komi niður á mönnum, þá vil ég geta þess, að útreikningur hans mun hafa verið byggður á álagningar„skala“ hér í Reykjavík, en það er annar mælikvarði en lagður er til grundvallar við niðurjöfnun útsvara úti á landi. Annars mun það vera óvanalegt, að ekki komi nema 3500 kr. til skatts af 8 þús. kr. brúttótekjum, eins og hæstv. ráðh. gat sem dæmis.

Það er vitanlegt, að útsvörin eru yfirleitt hærri t. d. á Ísafirði en hér í Rvík, en þar myndu gjöldin með skattaukanum verða nokkuð hærri en hér. Samkv. frv. þessu myndi skatturinn nema af :

4000 kr. skattsk. tekjum 50 kr.

6000 - - „ - 72 -

8000 - - „ - 245 -

10000 - - „ - 408 -

12000 - - „ - 550 -

14000 - - „ - 922 -

15000 - - „ - 960 -

30000 - - „ - 2560 -

Það væri nú í sjálfu sér ekkert um það að sakast, þó að skattaukning þessi væri sett á undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, ef ekki væru fyrir jafngífurlegir skattar og nú þegar eru, skattar, sem með öllu ætla að sliga skattþegnana. Ég veit t. d. dæmi þess, að maður á Ísafirði, sem hafði 10 þús. kr. árstekjur, varð að greiða 2000-3000 kr. útsvar, og aðrir gjaldþegnar álíka. Auk þess er bæði þar og annarsstaðar lagt svo skiptir tugum þús. í fyrirtæki, sem nær árlega eru rekin með tapi. Á þetta ber að sjálfsögðu að líta, þegar talað er um álagningu hinna beinu skatta. Það verður að hafa hugfast það ástand, sem ríkir á hverjum tíma; annars geta skattarnir orðið óþolandi. Ég er t. d. hræddur um, að hækkun sú á tekjuskattinum, sem hér er farið fram á að lögleiða, sérstaklega á hærri skattstiganum, dragi úr framtaki manna, því að til þess að ná t. d. 10 þús. kr. hreinum tekjum, ef skattaukinn verður samþ., verða menn að hætta miklu hærri upphæð en áður til þess að afla teknanna.

Það gladdi mig, að hæstv. forsrh. og hv. frsm. staðfestu það, sem ég hélt fram um meðaltalsregluna 1926, því að það er sýnilegt, að verði hún ekki upp tekin, getur farið svo, að sum hin stærri atvinnufyrirtæki stöðvist hreint og beint vegna skattálagningar. Ég er alls ekki sammála hæstv. forsrh. um það, að ekki megi færa saman ríkisreksturinn meira en gert hefir verið, og um leið gjöldin til ríkisrekstrarins. Það er vitanlega þakkarvert, að stj. tókst að færa gjöldin niður um 2 millj. kr. árið sem leið. En betur má ef duga skal. Við súpum enn seiðið af sukkinu, sem var í tíð fyrrv. stj. Ennþá eru starfandi ýmsar ríkisstofnanir, sem öllum að skaðlausu mega missa sig, stofnanir með hálaunaða starfsmenn og fjölda hálfóþarfra starfsmanna, sem engan eða lítinn undirbúning hafa fengið til þess að gegna opinberum stöðum, en hafa þó 2-3 falt hærri laun en embættismenn í ábyrgðarmiklum embættum. Eins og nú standa sakir mun ég ekki fara að ræða þetta frekar að þessu sinni, en vænti þess, að hv. fjhn. taki þessa hluti til alvarlegrar athugunar og komi fram með till. til sparnaðar á þessum sviðum.

Hæstv. ráðh. sagði, að bændastéttin ætti allra stétta örðugast um afkomu í þessu landi, eins og nú stæðu sakir. Það má vei vera, að svo hafi verið síðastl. ár. En það er víst, að árið 1931 átti sjávarútvegurinn sízt hægara um vik en landbúnaðurinn nú, og þó að smábátaútgerðin hafi getað staðið undir greiðslum sínum 1932, þá er þó víst, að stórútgerðin hefir tapað jafnvel svo millj. króna skiptir. Hvar taka eigi tekjurnar til þarfa ríkisins, er auðleyst gáta; þær verður vitanlega að taka af framleiðslu landsmanna bæði til lands og sjávar, og fari svo, að framleiðsla annars aðalatvinnuvegarins breytist, þá verður hinn að hlaupa undir bagga, a. m. k. meðan mögulegt er.

Ég ætla ekki að fara að ræða það nú, sem öllum hugsandi mönnum er þegar orðið ljóst, að landbúnaðurinn verður að breyta um framleiðsluhætti. Það var t. d. stórútgerðinni ekki til svo lítilla hagsmuna, að síðastl. ár var tekið. það ráð að stöðva togarana í 1-2 mán. af saltfiskiveiðitímanum. Hefði sá kostur ekki verið upp tekinn og togararnir gerðir út á saltfiskveiðar í 4-5 mán., eins og venja hafði verið, myndum við hafa fengið 10-15 kr. lækkun á hvert skpd. fiskjar. Það verður alltaf þrautaráðið til þess að halda verðlaginu sæmilega uppi, að takmarka framleiðsluna.