27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (3233)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það er ósamræmi á milli brtt. okkar og ákvæða fjárl. að því leyti, að í fjárl. er tilskilið meira framlag frá sveitar- og bæjarfélögum heldur en í till. okkar. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, gengur til Ed., og afgreiðslu fjárl. er enn ekki lokið, svo að nægur tími er til að leiðrétta þetta, þó að ekki verði gengið frá því nú. Við mundum geta fallizt á að breyta til, ef hæstv. ráðh. vill beita aðstöðu sinni til þess að þetta verði gert.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé viðurkennd regla að líta alls ekkert á það, hvaðan skattarnir séu teknir. Þetta er mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh. Hann veit, að þetta er ákaflega algengt hjá okkur, a. m. k. að taka full tillit til þessara hluta, þó að ekki sé einskorðað við hvern einstakan skatt, að honum skuli varið til hjálpar á ákveðnum stað. Hér er ekki um venjulegt skattafrv. að ræða. Þetta er aðeins frv. til bráðabirgða, til þess að bæta úr brýnustu vandræðunum, en ekki frambúðartekjustofn. Þess vegna er það alveg eðlilegt og sjálfsagt, að því fé, sem tekið er til sérstaks nútímaástands, sé einmitt varið til þess að ráða bót á þeim vandræðum. Enda er það svo í frv. hæstv. ráðh., að það er beinlínis tekið fram, að þessu fé eigi að verja til kreppuráðstafana. Það er ekkert óeðlilegra, að það gangi til þessara hluta heldur en að því sé ætlað að bera uppi kostnaðinn af kreppuráðstöfunum vegna bændanna. Það er því mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh., að það sé nokkurt ósamræmi með þessari afgreiðslu eins og við gerum ráð fyrir. Ég vil því halda fast við till. mína og vænti þess, að hv. d. geti fallizt á það, sem þar er farið fram á.