27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (3234)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Ég þarf ekki að endurtaka hér andmæli mín gegn þessu frv. Ég hefi frá upphafi talið það hina mestu fjarstæðu, þar sem talað er um að hækka svo mikið tekju- og eignarskattinn ofan á þau gífurlegu útsvör, sem bæirnir verða að leggja á íbúa sína, og það stendur mér næst að minnast á Reykjavík.

Þau andmæli, sem borin hafa verið fram við fyrri umr. þessa frv., hafa verið borin fram áður heldur en niðurjöfnunarskrá Rvíkur kom út. Nú er niðurjöfnunarskráin komin út, og hún hefir sýnt, að þeir útreikningar, sem þá voru gerðir, hafa sízt verið á þann hátt, að meira hafi verið úr þessu gert en raun gefur vitni um, og menn munu sjá þar, að útsvörin hafa hækkað gífurlega frá því í fyrra, og meira heldur en lagt var til grundvallar í ræðu hv. 4. þm. Reykv.

Ég vil segja það, að ég er hræddur um, að hæstv. fjmrh. verði ekki sami styrkur að þessum skatti eins og ætlazt er til, því að reynslan mun sýna, að það mun verða erfitt kapphlaup milli bæja og ríkis, þegar verið er að reita síðustu skildingana út úr skattþegnunum. Ég vil segja það um brtt. á þskj. 601, að út af fyrir sig er það rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er svo yfirleitt með tekjur ríkisins, að þær eru innheimtar án tillits til þess, til hvers þær eiga að fara. Þó getur nú farið að verða ástæða til þess að líta á það, hvort ekki sé rétt að láta þær koma niður þar, sem þær eru teknar. Ef gengið er svo nærri einstökum flokkum gjaldþegna, að gjaldþoli þeirra er hætta búin, þá getur þess verið þörf.

Það er mjög líklegt, að Reykjavík verði að grípa til kostnaðarsamra ráðstafana út af atvinnuleysinu, og það er hersýnilegt, að eftir því, sem tekju- og eignarskatturinn til ríkisins er hækkaður, eftir því eru möguleikar Rvíkur til slíkra ráðstafana skertir. Það er tvímælalaust, að þessi till. dregur dálítið úr þessum skatti, og þess vegna get ég fylgt henni, enda þótt ég muni greiða atkv. á móti frv. þrátt fyrir það, að hún yrði samþ. Um ósamræmið, sem yrði á milli frv. og fjárl., ef þessi till. yrði samþ. og frv. afgr. þannig, þá er ekkert við því að segja annað en það, að það stafar af því, að málið verður afgr. með nokkuð miklu flaustri síðustu daga þingsins. En hvorugt málið er að fullu afgr. enn, og fjárl. standa til mikilla breyt., svo það er ekki nokkur hætta að samþ. þessa brtt. hv. þm. Seyðf., því að það má breyta ákvæðum fjárl. í þessa átt. Ég vii þess vegna breyta þeim 1., er ég tel ranglátari, fyrst hvorugt þeirra er endanlega afgr. frá þessu þingi.