27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (3256)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. d. er búin að gefa úrskurð í þessu máli. Það er búið að vísa frá frv. sama efnis og þessi till. Og ég er búinn að gefa sama svarið áður og ég gaf nú. Ég stend því ekki fjær því nú en nokkru sinni áður að afnema innflutningshöftin. Ég stend nákvæmlega á sama stigi og áður, því ég vil, að sá gjaldeyrir, sem kostur er á, sé notaður. Lengra kemst enginn fjmrh. í þessu efni. Hitt þarf hv. þm. ekki að segja mér, að óánægja er út af gjaldeyrisráðstöfununum. Það er óánægja hjá manni, sem ekki hefir nóg að borða, eða getur ekki keypt það, sem hann vill. Það er óánægja hjá kaupmönnum, sem ekki geta fengið allar þær vörur að selja, sem þeir gætu komið út. En menn verða oft að taka á sig ýmsar kvaðir vegna þess, að ekki er til nóg af öllu. Og þegar ekki er til nógur gjaldeyrir, þá er það skylda ríkisstj. að sjá svo um, að hann gangi til þess, sem brýnust nauðsyn ber til. Þetta er mjög einfalt mál. Og að menn fái að stofna skuldir erlendis eins og þeir hafa getu til, það er víðar en hér reynt að hindra með höftum. Flestar smærri þjóðir reyna að hindra þetta.

Viðvíkjandi þessu vil ég geta um umsögn eða aðvörun frá „The Department of Oversea Trade“. Það segir mjög ákveðið: Þið þurfið ekki að vera hræddir við afleiðingar af verzlunarhöftum, sem sett eru til að geta staðið í skilum, heldur við að stofna skuldir erlendis, sem þið getið ekki borgað.

Um hitt þarf ekki að spyrja, hvort óánægja sé með innflutningshöftin. Það er mjög skiljanlegt, því að það er alltaf óánægja þar, sem ekki er til nóg af öllu.