11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. n. fór fram á það, að ég drægi þessa till. til 3. umr., vegna þess að n. væri að hugsa um þetta mál og athuga, hvað hún gæti gert fyrir það, en ég sé ekki annað en að n. hafi getað athugað þetta mál í næði, sérstaklega þar sem athygli hennar var vakin á því, að þetta mál mundi koma fram við 2. umr., og n. var þess vegna við því búin.

Ég sé því ekki ástæðu til að láta þessa till. bíða til 3. umr., því að ég vil gjarnan fá að sjá, hvernig d. tekur í þetta mál. Ef n. hefði viljað breyta því fyrirkomulagi, sem. ég hefi stungið upp á, þá var hægurinn hjá að koma með till. til breytinga. Þetta er nú einn stærsti liðurinn í fjárlagafrv., og þess vegna hefði mátt vænta þess, að n. hefði athugað það gaumgæfilega, en vildi ekki geyma það til síðustu stundar. En það getur verið síðasta stund fjárlaganna að bera fram till. við 3. umr. Þá er enginn tími til að laga það, sem kynni aflaga að fara í þessu mikilvæga máli. Því er ekki rétt að geyma þetta, og því síður þar sem sýnt er, að samþykkt verða stórkostleg fjárframlög til bændanna, sem líka er rétt að gera, en það er gert í lagaformi, sem á að gilda til margra ára.

Ég þarf ekki að lýsa þeirri þörf, sem er á þessu. Allir eru sammála um það, að hér þurfi að leggja fram fé til atvinnubóta, en hv. frsm. fjvn. mótmælti því, að þingið hefði ekkert gert í þessu skyni. En ég verð að segja það, að mér þykja fjárlögin ekki bera þess vitni, því að til verklegra framkvæmda er minna veitt í fjárlögunum en árin á undan kreppunni. Það er svo miklu minna, að það nemur mörgum hundruðum manna, sem færri fá vinnu hjá ríkissjóði en árin 1930 og 31. En það þýðir það, að líklega meira en helmingur af þeim mönnum, sem atvinnu höfðu af framkvæmdum ríkissjóðs, verða nú að leita annað eða hafa alls ekkert, og er það líklegast. Hv. frsm. benti á, að þingið vildi líta á nauðsyn ýmissa framkvæmda og hefði þegar gert það, og benti m. a. á afgreiðslu þessarar d. á virkjun Sogsins. Það er rétt, ég er sammála hv. frsm. um það, að kæmist þetta mál fram á þingi, og verði það framkvæmt, þá veitir það stórkostlega atvinnu. En það verður ekki séð ennþá, og það er einmitt flokkur hv. 3. landsk., sem alltaf er að krukka í málið og reyna að draga úr því, að málið komist fram, a. m. k. hefir fyrirstaðan verið mjög mikil hjá Framsóknarflokknum hingað til, en eftir orðum hv. frsm. má væntanlega líta svo á, að hann styrki það. (JónJ: Ég hefi engar brtt. flutt við frv.). En með atkv. sínu hefir hann sýnt það, að hann vill draga úr því. En ég ætla ekki að karpa um það við hv. þm., ég vona bara, að einlægur vilji framsóknarmanna styðji að framkvæmd laganna um virkjun Sogsins, eða því formi, sem búið er að samþ., en svo kemur til kasta meiri hl. bæjarstjórnar Rvíkur að standa ekki í vegi fyrir, að hægt verði að hefja framkvæmd verksins á þessu sumri: Ég get ekki orðið við tilmælum hv. frsm. um að taka aftur þessa till. Ég ætla að játa skeika að sköpuðu um hana og vil sjá, hvernig undirtektirnar verða undir þetta mál. Má vafalaust af því marka, hvernig tekið verður undir aðrar till. við 3. umr., ef þessi nær ekki fram að ganga nú.

Hv. frsm. hefir ekkert sagt um það, hvað það sé, sem hann vilji gera. Hann hefir aðeins lýst því yfir, að það verði eitthvað að gera, en hvað það er, hefi ég ekki fengið fram. Hér er aðeins tiltekin fjárhæð, en í þá átt, hvernig atvinnubótavinnunni eigi að haga eða hvað mikið fé eigi að leggja til þessa, hefir ekkert orð heyrzt frá hv. frsm.

Hv. frsm. sagði í ræðu sinni í gær, að honum þætti líklegt, að ég ætlaðist ekki til, að þessi brtt. yrði samþ., hún væri svo gífurleg. Ég get sagt honum í fyllstu alvöru, að ég hefi skorið af þeirri fjárhæð, sem ég í fyrstu hugsaði að bera fram. Ég tel þetta alls ekki of mikið fé til atvinnubóta eftir því, sem nú lítur út fyrir að verða muni, og eftir því sem atvinnuleysið var 1932. Það er alls ekki hægt að fara fram á minni upphæð til uppbótar því, hvað atvinnuleysið var mikið þá. Þess vegna ætlast ég til, að ekki lægri fjárhæð en hér er um að ræða, gangi fram, En hitt er annað mál, hvað menn vilja sætta sig við nauðugir viljugir, vegna þess að meiri hl. þings vill ekki ganga lengra eins og var á síðasta Alþingi.

Ég minntist í gær á ræktunarveginn í Hornafirði og sýndi fram á, að ríkissjóður mundi bráðlega fá mikil afgjöld af þessu landi, sem tekið hefir verið til ræktunar. En hv. frsm. er hræddur um, að þetta sé svo slæmt fordæmi, að öll sjóþorp mundu koma á eftir. Það er mjög líklegt. Sama máli gegnir um Seyðisfjörð; þar er tekið mjög mikið land til ræktunar, og það er mjög mikil nauðsyn að gera þetta land arðvænlegt með því að leggja vegi um það, en það mun tæplega hægt nema með tilstyrk ríkissjóðs. Ég get ekki séð, hvers vegna hv. frsm. vill ekki leggja inn á þá braut að efla ræktun landsins, en það er það, sem verið er að gera með því landi, sem leggja á til kaupstaða og kauptúna. Það er verið að rækta það. Hv. þm. hefir vafalaust trú á því, að það muni efla hag kaupstaðabúanna, ef þeir geta fengið land til ræktunar. En þetta er einn liður í því að styðja þau kauptún, sem hér um ræðir, að leggja fram þessa litlu fjárhæð, til þess að gera ræktunina greiðari og afstöðu hennar betri.

Þá var hv. frsm. ákaflega hjartnæmur þegar hann var að tala um, að kommúnistafélag eitt á Akureyri fengi að njóta sjúkrastyrks. Hann sagði, að ég vildi loka þá fyrir utan landslögin, að það mætti ekki bjarga þeim, þó þeir væru dauðvona. Hann kom með þá firru, að ég vildi ekki láta þá ná undir berklavarnalögin. Það eru landslög, sem ég veit ekki annað en að nái til almennings og eiga ekkert skylt við einstaka styrki eða fjárframlög, sem veitt eru á einstök nöfn. Hann gæti með sama rétt bent á eitthvert leirskáldið og sagt, að það ætti að skipta styrk við Halldór Kiljan Laxness; ef það gengi ekki fram, þá segði hann, að það ætti að ganga af þessum manni dauðum eða svelta hann í hel. Hér er ekki um annað að ræða en að veita styrk félagi, sem hefir sjúkrasjóð, og það er einn liðurinn í Alþýðusambandi Íslands, og þessi styrkur er veittur eftir ákveðnum reglum. En hinsvegar verður að segja um þann styrk, sem safnað hefir verið af kommúnistum til þess að styrkja sjúka, að sá styrkur hefir stundum verið notaður, bæði hér á landi og annarsstaðar, í pólitísku augnamiði, beint til agitations-starfsemi fyrir flokkinn. Ég veit ekki nema slíkt verði notað eins að þessu sinni. Ég sé því ekki, þegar litið er til þess fordæmis, sem fyrir er um söfnun í ýmsa styrktarsjóði, að það sé ástæða til að styrkja þeirra sjúkrasjóði, þegar vitað er, hvernig fer um ýms samskot, sem þeir gangast fyrir undir því yfirskini, að það fé gangi til bágstaddra. Það má alveg eins taka upp styrk til Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins eins og til Kommúnistaflokksins, eða þá nýja Nazistaflokksins, svo hann gæti þá notað það í pólitísku augnamiði.

N. er, eftir frásögn hv. frsm., á móti ýmsum af þeim till., sem einstakir þm. flytja. Ég ætla að leggja liðsyrði till., sem hv. 1. landsk. flytur, sem fer fram á styrk til Ingólfs Þorsteinssonar. Það er piltur, sem ég hefi þekkt í mörg ár, og er hann mjög líklegur til að verða dugandi maður, ef hann getur haldið áfram sínu starfi.

Þá var það hv. 6. landsk., sem var að tala fyrir till. sínum, sem fara í þá átt að minnka þann styrk, sem þeim er veittur Halldóri Kiljan Laxness og Þórbergi Þórðarsyni. En ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. d. fari að hrófla við þessum styrkjum, úr því að hv. n. hefir látið þá standa. Ég má segja, að í Nd. var það fellt með miklum atkvæðamun að hrófla nokkuð við Halldóri, og þykir mér því ólíklegt, að þessi hv. d. fari nokkuð að hreyfa við þeim. Hinsvegar flutti sami hv. þm. till. um styrk til byggingar fávitahælis, sem n. hefir óbundin atkv. um. Hún skýrði frá, að þetta ætti að fara til barnahælis, sem nú er austur í Grímsnesi. Ég get vel trúað, að til gagns verði að koma slíku hæli upp. Vil ég að gefnu tilefni geta þess, að ég hefi komið nokkrum sinnum á þetta hæli, og mér hefir sýnzt vel um allt gengið. Stúlkan, sem veitir hælinu forstöðu, virðist hafa gott lag á börnunum, en hvernig henni mundi farast úr hendi að sjá um fávita, það veit ég ekki, en börnin voru mjög hænd að henni, og það verða börn ekki nema þau mæti góðu einu. Því mun ég ekki leggjast á móti þessum styrk.

Þá hefir n. væntanlega óbundin atkv. um till. okkar hv. 2. þm. Eyf. Þann mann, sem á að njóta þess styrks, sem farið er fram á í till., tel ég einna mesta verðleika hafa til þess að komast inn í fjárlögin og njóta styrks í elli sinni. Að öðru leyti þarf ég ekki að endurtaka það, sem ég sagði í gær.

Mér skildist á hv. frsm., að hann leggjast á móti till. minni um einkennisbúninga. Þykir mér það of mikill nánasarháttur hjá n. að vilja ekki fallast á þessa litlu og sjálfsögðu kröfu bréfberanna, að þeir fái einkennisbúning, eins og alstaðar er orðið í öllum heiminum, að bréfberar hafi einkennisbúning, ég held alþjóðlegan búning, a. m. k. að forminu til, og það álít ég, að við eigum að taka upp hér líka. Vil því vænta, að n. hafi ekki fastbundið það að leggjast á móti þessari till. (JónJ: N. hefir óbundin atkv. um till.). Það var gott að heyra það, vona ég þá, að till. gangi fram. En ég vil aðeins vekja athygli hv. dm. á því, að þeir skulu ekki láta það fæla sig frá till., þó nefndar séu háar tölur í sambandi við hana, því að í raun og veru er upphæðin ekki nema 1800 kr.

Þá hafa þeir hv. 2. þm. S.-M. og hv. frsm. báðir talað allfast á móti till. okkar þremenninganna um ábyrgð fyrir láni til síldarbræðslustöðvar á Seyðisfirði. Ég veit, að hv. 1. landsk. mun svara þeim, en mér þykir þó rétt að láta þá eitthvað til mín heyra. Ég hugsa, að innihald þessa skjals sé ekki eins ógurlegt eins og vænta mátti af tilburðum háttv. frsm., er hann var að veifa því að okkur. Það mun nú sýna sig þegar það verður lesið upp. En ekki skyldi mig undra, þótt mikið ósamræmi yrði milli þeirrar skoðunar, sem þar er haldið fram, og till. háttv. 2. þm. S.-M., þótt þetta tvennt muni þó vera af sama toga spunnið. Ég gæti trúað, að það gengi beint gegn till. háttv. þm. En þetta heyrist nú þegar plaggið er lesið og það er borið saman við rök háttv. 2. þm. S.-M. Ég hugsa, að till. plaggsins séu staðbundnar og hreint ekki eins meinleysislegar og till. háttv. 2. þm. S.-M.