11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

1. mál, fjárlög 1934

Jakob Möller:

Ég gleymdi í gær að minnast á eina brtt. háttv. fjvn., sem ég hafði þó ætlað mér að drepa á. Það er 34. brtt. á þskj. 565, og er utanfararstyrkur til Eiríks Bjarnasonar til að kynna sér meðferð og verkun síldar við Bretlandseyjar fyrir hin ýmsu neyzlulönd, gegn því skilyrði, að hann leiðbeini síldveiðimönnum um verkun síldar við heimkomu. Háttv. fjvn. vill fella þennan styrk niður, og hygg ég, að það sé ekki vel ráðið af henni. Mér er kunnugt um það, að helzta lífsvonin fyrir íslenzka síldarútgerð er sú, að geta verkað íslenzka síld fyrir þýzkan markað. En einmitt sú verkunaraðferð, sem nothæf er fyrir þann markað, verður lærð í Skotlandi. Fáir íslenzkir menn kunna þá verkun. Er því vel farið, að íslenzkur maður kynni sér hana og leiðbeini svo síldveiðimönnum hér heima, þeim er vildu salta fyrir þýzkan markað. Maður sá, sem hér um ræðir, er uppalinn í síldveiðaplássi. Má því gera ráð fyrir, að hann sé vel að sér í þeim málum, er að síldarverkun lúta. Er því líklegt, að hann sé hæfur til þessarar ferðar og náms. En persónulega þekki ég hann ekkert.

Þá vil ég víkja nokkuð að því, sem háttv. frsm. fjvn. sagði um brtt. mínar á þskj. 609. Gegn fyrstu till. minni, undirbúningskennslu í hagfræðinámi hér við háskólann, færði háttv. frsm. það fram sem aðalástæðu, að hér væri gnægð hagfræðinga. Það er nú svo. En málið er nú í raun og veru ekki afgreitt með því. Hér er um það að ræða að stofna til kennslu við háskólann í íslenzkri hagfræði. Þeir, sem nema hagfræði við erlenda háskóla, verða að eyða miklum tíma í það að lesa og læra hina sérstöku hagfræði, sem einungis gildir fyrir það land, sem þeir nema í og er bundin við hætti þess. En hér er um það að ræða að skapa íslenzkt hagfræðinám, sem kemur þeim hagfræðingum, er starfa á Íslandi, að fullum notum. Og þótt segja mætti, að nú sé til nægjanlega mikið af hagfræðingum, þá þarf þó að halda þeim við, enda nema nú margir hagfræði erlendis. Vegna framtíðarinnar borgar sig því að gera þetta. Ég hefi verið spurður að því, hvers vegna ég hafi tekið þessa till. eina út úr þáltill frá 1931. Til þess liggur sú eðlilega ástæða, að af þeim námsgreinum, sem þar eru taldar upp, hefir þessi sérstöðu. Hinar aðrar námsgr., sem þar eru taldar upp, má læra til fullnustu við erlenda háskóla. En þessa er ekki hægt að læra, svo að algerðu gagni komi fyrir okkar þjóð, nema íslenzk kennsla sé í því fagi. Það er því nauðsynjamál að koma á fót kennslu í íslenzkri hagfræði. Auk þess er það vöntun, að lögfræðinemendur geta ekki fengið þá kennslu í hagfræði, sem sjálfsögð þykir annarsstaðar og þeir eiga nú engan kost að nema.

Viðvíkjandi námsstyrkjunum var ekki margt, sem ég þyrfti að athuga. Háttv. frsm. sagði reyndar, að það væri tilhæfulaust, sem ég hefði sagt viðvíkjandi því, að menntamálaráð hefði haft eina námsgrein út undan við úthlutun námsstyrkja. Á þetta lagði háttv. frsm. svo mikla áherzlu, að það var eins og hann hefði staðið mig að vísvitandi röngum málflutningi. En svo kom þó appendix við þetta! Háttv. frsm. sagði, að formaður menntamálaráðs hefði tjáð sér, að allar námsgreinar hefðu verið styrktar —, ef þær þættu þess verðar. En það var nú einmitt þetta, sem ég sagði, að menntamálaráði hefði ekki fundizt þessi námsgrein þess verð að vera styrkt, því nú stendur einmitt svo á, að menntamálaráðið hefir engan styrk veitt til náms í þeirri grein, sem brtt. mín fjallar um. Ályktun mín af því var sú, að þessi námsgrein væri ein af þeim, sem menntamálaráð hefði útilokað og ekki talið verða styrks. Verið getur, að það hafi ekki gert það formlega, en það hefir gert það í framkvæmd. Ég vil taka það fram, vegna þess að það sést ekki á till., að hér er um að ræða styrk til lokanáms, þar sem viðkomandi maður lýkur prófi á næsta ári. Það er því ekki rétt, sem háttv. frsm. sagði, að með þessu væri verið að teygja menn til náms erlendis, sem kostar mikið. Það er búið að gera það. Spurningin nú er eingöngu sú, hvort gera skuli mikið nám ónýtt, með því að svipta viðkomandi mann möguleikum til að ljúka því. Það er svo með námsstyrki þá, sem bornir eru fram á þskj. 609, að þeir eru allir, að einum máske undanteknum, sem mér er ekki vel kunnugt um, ætlaðir til lokanáms. Það er beint tekið fram um alla nema þennan eina og svo styrkinn til Jóns Gissurarsonar, sem ég hefi nú skýrt frá, að er til lokanáms. Þeir eru því allir fyrir löngu komnir á brautina og sumir með aðstoð Alþ., beint eða fyrir aðstoð menntamálaráðs. Þessir menn eru svo efnum búnir, að þeir geta ekki lokið námi af eigin rammleik, nema þá með því að svelta sig. Og þess eru því miður sorgleg dæmi um námsmenn, sem hafa verið að berjast við að ljúka námi, að þeir hafa beðið tjón á heilsu sinni og sumir beinlínis fallið fyrir skort. Ég vil því vona, að þeim mönnum, er hafa eytt tíma og fé í fleiri ár til náms, verði nú hjálpað til að ná leiðarenda, á þann hátt að þeir þurfi ekki að leggja harðara að sér en kraftar þeirra þola. Ég vil brýna það fyrir háttv. þdm., að það er stór samvizkusök að neita um þetta smáræði, er engu munar fyrir afkomu ríkissjóðs — hreint engu. Nú hefir háttv. fjvn. haft það á orði og enn lofað því, að verði þessir styrkir felldir niður nú, þá muni hún koma með hækkunartill. til 3. umr., sem varið verði til námsstyrkja, eftir úthlutun menntamálaráðs. En þá vil ég benda á, að það þarf að vera skýrt fram tekið, að þeirri upphæð verði varið til lokanáms þeirra manna, sem hér ræðir um, svo sú upphæð verði ekki veitt til byrjunarnáms. En annars er gersamlega ástæðulaust að fella þessa styrki niður. Ríkissjóður fer áreiðanlega ekki á hausinn fyrir það eitt, að Alþingi samþykki þá.