11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég hefði búizt við því, að 1. flm. till. um síldarbræðslustöð á Seyðisfirði mundi taka til máls, en fyrst svo er ekki, get ég talað strax. Ég sé þó ekki ástæðu til að karpa mikið við þá háttv. þm., sem gagnrýnt hafa till. n. síðan í gærkveldi.

Háttv. 2. landsk. taldi það hættulegt að fresta afgreiðslu till. um atvinnubótastyrk til 3. umr. Hann neitar því að taka till. aftur. Ég sé nú að vísu ekki, að þessu máli sé mikið betur komið fyrir því, þótt till. hans gangi til atkv. og verði felld. Ég sé ekki, að nokkur hagur sé að afgreiðslu þess máls, fyrr en séð verður, hvernig Alþingi snýst við samskonar frv., er fyrir þinginu liggja og fela í sér atvinnubætur. Svo er t. d. um Sogsvirkjunarfrv. o. fl., sem hafa mikla þýðingu í þessu sambandi, t. d. síldarbræðslustöð á Austurlandi. Ég verð því að halda því fast fram, að heppilegast sé í þetta sinn að taka þessa brtt. aftur. Ég tók það fram í gær, að fjvn. óskaði eftir að fá að athuga atvinnubótamálið til 3. umr. Það mun hún líka að sjálfsögðu gera, hvað sem nú kann að verða gert. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um till. til skiptingar styrksins til sjúkrasjóða á Akureyri. Háttv. 2. landsk. hrakti ekkert af því, sem ég hafði um það sagt. Ef réttmætt er að veita öðrum þeirra styrk, þá hlýtur að vera jafnréttmætt að veita þeim það báðum. Það var helzt að heyra á háttv. þm., að kommúnistum væri ekki trúandi til að nota styrkinn rétt, að þeir mundu hafa hann til pólitískra agitationa, en ekki til sjúkra. Ég hefi enga ástæðu til að taka undir slíkar getsakir, en læt að öðru leyti ráðast, hvernig háttv. d. úrskurðar þetta.

Þá eru það einkennisbúningar bréfberanna. Ég gat þess, að n. hefði óbundin atkv. um þetta. En ég benti á, að hér væri um árleg útgjöld að ræða, og þótt ekki væri áætlað, að það kostaði meira en 2000 á ári, þá mundi sú upphæð vaxa fljótt, ef ég þekki rétt. Ég sé heldur enga brýna nauðsyn til að byrja á þessu nú, einmitt þegar allt þarf að spara.

Þá skal ég víkja að till. um síldarstöðina á Seyðisfirði. Háttv. þm. sagði, að ég hefði verið að ógna deildinni með skjali, er ég hélt á, og að ég hefði talið, að í því feldist dauðadómur yfir þessu fyrirtæki. Þetta er nú alls ekki rétt. Ég var ekkert að ógna með því skjali. Ég gat þess aðeins, að mér hefði borizt bréf frá stjórn síldarbræðsluverksmiðjunnar á Siglufirði, sem ég hefði ekki enn haft tíma til að lesa. Vildi ég, að hv. d. gæfist tóm til að athuga það í næði, áður en málið væri afgreitt. Og ég sé ekki betur, þar sem máli þessu var slöngvað hér inn, mjög illa undirbúnu, en að rétt væri að fræðast betur um það. Ég fyrir mitt leyti játa það, að ég er eigi svo fróður um þessi mál, að ég vilji eigi leita ráða mér vitrari manna um þessi efni. Og ég hygg, að stjórn síldarbræðslunnar á Siglufirði muni vera kunnugust því, hvar beztir möguleikar muni vera fyrir hendi um framkvæmd þess máls. Og þar sem till. fæst eigi aftur tekin, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa bréfið upp, svo deildin geti borið um þau rök, sem þar eru flutt. Bréfið hljóðar þá svo:

SÍLDARVERKSMIÐJA RÍKISINS

STJÓRNIN

Reykjavík, 10. maí 1933.

Með bréfi dags. 3. þ. m. hefir Fjárveitinganefnd Ed. Alþingis óskað umsagnar vorrar um erindi hr. alþingismanns Haralds Guðmundssonar, þar sem hann fer fram á, að ríkissjóður ábyrgist lán til stofnunar síldarverksmiðju á Seyðisfirði, 9/10 stofnkostnaðar, allt að kr. 320000 —350000.

Þó það sé álit vort, að stundum gæti verið hagnaður að því, ef til væri á Seyðisfirði síldarbræðsla, sem brætt gæti og gert að einhverju leyti verðmæta þá síld, sem þar er hægt að veita, þá ber samt að taka tillit til allra staðhátta og þeirra kringumstæðna, sem nú ríkja.

Eins og hinni háttvirtu fjárveitinganefnd er kunnugt, hefir rekstur síldarverksmiðjanna átt við mjög mikla erfiðleika að stríða nú þrjú síðustu árin vegna verðfalls á verksmiðjuafurðunum, og er útlit fyrir áframhaldandi lágt verð.

Um skilyrði fyrir síldarverksmiðju á Seyðisfirði er það að segja, að síldveiði fyrir Austurlandi hefir oft verið mjög stopul. Þannig voru t. d. síðastliðið sumar ekki saltaðar og verkaðar nema 1518 tunnur á Austurlandi, sbr. skýrslu Fiskifélags Íslands dags. 17. september í 9. tölublaði Ægis. Sú eina síldveiðiaðferð, sem reynzt hefir nægilega ódýr til þess að veiða með síld til bræðslu, er síldveiði með herpinót, enda er bræðslusíldveiði til verksmiðjanna hér á landi stunduð eingöngu með þessu veiðarfæri.

Á Austurlandi munu ekki vera til nema 3 til 4 skip, sem hentug geta talizt til þess að stunda veiðar með herpinót. Lagneta- og lásaveiði hefir t. d. við Eyjafjörð reynzt of dýr til þess að veiða með til bræðsluverksmiðjanna, enda afli í lása og lagnet varla svo uppgripsmikil, að hægt sé að fá nægjanlegt hráefni handa verksmiðju til lengdar með þeim veiðiaðferðum, jafnvel þótt ódýrar væru. Enn er vert að athuga, að sú síld, sem veiðzt hefir á Austfjörðum í lása og lagnet að haustinu og vetrinum til, er talsvert magrari en sumarveidda síldin fyrir Norðurlandi, svo að verðmæti hennar til bræðslu verður af þeirri ástæðu nokkru minna en norðurlandssíldarinnar. Aftur á móti er þetta minna fitumagn síldarinnar ásamt stærð hennar til ávinnings, þegar um útflutning á ísaðri síld er að ræða.

Verð á beztu norðanlands veiddri bræðslusíld er nú komið niður í kr. 3.00 eða minna fyrir málið. En þrátt fyrir þetta lága verð á hráefninu hafa síldarverksmiðjurnar þó tæplega getað borið sig. Verð á austfjarða-síld yrði — vegna minna fitumagns síldarinnar — að vera ennþá lægra, og er þá meir en vafasamt, hvort það gæti svarað kostnaði að flytja lásasíld milli fjarða til þess að koma henni í bræðslu, en á sama firðinum mundi varla veiðast nægilega mikið af lásasíld eða lagnetasíld til þess að síldarverksmiðja gæti þrifizt, ef byggja ætti nær eingöngu á þeirri veiði.

Í umræddu erindi er því haldið fram, að skip, sem ekki geta losnað við bræðslusíld á Siglufirði eða Eyjafirði, án þess að bíða eftir afgreiðslu dögum saman, mundu njóta góðs af síldarverksmiðju á Seyðisfirði.

Við það er að athuga, að vegalengdin frá Siglufirði til Seyðisfjarðar er 386 sjómílur fram og til baka, eða 50—60 st. sigling á línubát, ef veður er hið ákjósanlegasta. Útilokað verður að teljast, að mótorbátar hlaðnir af síld geti farið þessa löngu leið, og línubátar ekki nema í blíðskapar veðri.

Þann tíma sumars, sem söltun fer fram, leggja allir bátar kapp á að salta eins mikið og hægt er. Sækja þá síldarskipin, að öllum jafnaði, síldina vestur á bóginn, en þar eru álitin hin tryggustu síldarmið, enda er sú síld, sem veidd er fyrir vestan Siglufjörð, álitin bezt allrar síldar til söltunar, en þar næst síld, sem veidd er út af Siglufirði og inni á Eyjafirði. Aftur á móti er talið, að eftir að komið er austur fyrir Gjögur, sem er austan til við Eyjafjörð, breytist mjög til hins verra um gæði síldarinnar til söltunar. Og þar sem telja má síldveiði til söltunar sem aðaltekjulind flestra síldveiðiskipa, er naumast sennilegt, að ráðamenn skipanna fengjust til þess að yfirgefa venjuleg síldarmið, þótt þeir kynnu að geta selt síld til bræðslu á Seyðisfirði.

Um Langanes-síldarmiðin er það að segja, að þau hafa reynzt miklu ótryggari en síldveiðarsvæðið frá Hornbjargi til Rauðu-Núps. Einnig er Langanes-síld venjulegast smærri og horaðri en síldin á svæðinu fyrir vestan Gjögur.

Af framangreindu er augljóst, að svo æskilegt sem það virðist, að komið yrði á fót síldarverksmiðju á Seyðisfirði, þá eru þó annmarkar á því og ábyrgð ríkisins ekki áhættulaus.

Að lokum viljum vér vekja athygli hinnar háttvirtu þingnefndar á því, að ef stofna ætti til síldarverksmiðju á Austurlandi, þá virðist liggja nærri að athuga, hvort ekki mætti takast á ódýrari hátt að fullkomna fiskimjölsverksmiðju þá, sem nú er á Norðfirði, þannig að hún gæti einnig unnið úr síld. — Fylgiskjölin endursendast hér með.

Virðingarfyllst.

Þormóður Eyjólfsson. G. Hlíðdal.

Til fjárveitinganefndar efri deildar Alþingis.

Eins og sjá má af þessu bréfi, lítur stjórn síldarbræðslustöðvarinnar á Siglufirði svo á, að vafasamt sé, hvort heppilegt muni vera að reisa síldarbræðslustöð á Austfjörðum. Hún telur, að síldveiði fyrir Austfjörðum sé svo stopul og síldin, sem þar veiðist, svo mögur, að ólíklegt sé, að það geti orðið arðsamt að setja þar á stofn slíka verksmiðju. Þetta er þeim mun skiljanlegra þegar það er athugað, að síldarbræðsluverksmiðjan á Siglufirði aðeins berst í bökkum með að bera sig, þó að hún sé á einum þeim bezta stað, sem slík verksmiðja getur verið. Ég verð því að telja það hæpið bjargráð fyrir Austfirðinga að láta þá fá þessa verksmiðju. Það munu allir vera á einu máli um það, að eitthvað þurfi að gera til hjálpar atvinnumöguleikum á Austfjörðum, og að sjálfsögðu vilja allir gera það, sem heppilegast er og helzt má verða til bjargráða. Ég vil t. d. spyrja, hvort ekki muni fullt eins hagkvæmt að stækka fiskimjölsverksmiðjuna á Norðfirði, eins og bent hefir verið á, eins og að fara að byggja stóra bræðslustöð á Seyðisfirði, þar sem vitanlegt er, að framleiðslan yrði mjög lítil.

Annars skal ég játa, að það sem gerði mig veikari í trúnni á þetta fyrirtæki var það, að háttv. 2. þm. S.-M., sem er allra háttv. þdm. kunnugastur þessum síldarútvegsmálum, hélt hér í deildinni ræðu í gær, sem alveg fór í sömu átt og bréf það, er ég las upp. Var þó með öllu útilokað, að hann og forstjóri síldarverksmiðjunnar á Siglufirði, er bréfið ritaði, hefðu getað borið sig saman. (JBald: Það er bezt að vera ekki að sverja neitt). Það lítur því óneitanlega dálítið einkennilega út, þegar þeir menn, sem kunnugastir eru þessum málum yfirleitt og mesta sérþekkingu hafa á þeim, eru allt annarar skoðunar en formælendur þessa verksmiðjumáls. Ég verð því að segja það, að svo fremi sem á að pína okkur til þess að greiða atkv. um brtt. þessa nú, þá greiði ég fyrst atkv. með brtt. háttv. 2. þm. S.-M., og svo á móti aðaltill.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að háttv. 1. þm. Reykv. Hann talaði fyrst um það, hversu mikið gagn mætti af því leiða að senda mann til Englands, til þess að kynna sér meðferð og verkun síldar. Það má vel vera rétt hjá háttv. þm., að eitthvert gagn mætti af slíku verða. En ég held, að það væri bezt, að Fiskifélagið eða síldveiðimenn beittu sér fyrir því og veldu manninn. En hvað snertir mann þann, er háttv. þm. ber fyrir brjósti til þessara hluta, þá skal ég geta þess, að ég hefi heyrt ýmsa menn segja það, að þeir hefðu enga trú á honum til þessara hluta, segja, að hann hafi aldrei fengizt við þessi mál, og telja því hégóma einn þessa málaleitun hans til þingsins. Mér virðist því engin ástæða til þess að samþ. þessa till.

Þá sagði háttv. þm., að ég hefði lagt áherzlu á það í ræðu minni í gær, að menntamálaráðið hefði ekki úrskurðað neina sérstaka fræðigrein óstyrkhæfa. Þetta var alveg rétt hjá mér. Ég hefi síðan átt tal við form. menntamálaráðs og hefir hann staðfest þetta. Hann taldi slíkt fjarstæðu eina, enda þótt það hefði ekki fé til þess að veita öllum styrk, sem stunduðu hinar ýmsu fræðigreinar. Þegar styrkur væri veittur, væri fyrst tekið tillit til þess, hversu mikil þörf væri fyrir menn með þessu námi, og í öðru lagi hversu hæfur hann væri til þess að nema þá fræðigrein, er hann legði stund á. Hann sagði því, að það mætti á engan hátt skiljast svo, að menntamálaráðið hefði úrskurðað eina fræðigrein frekar en aðra óstyrkhæfa, þó að það gæti ekki af því takmarkaða fé, sem það hefði til umráða, veitt styrk til þess að lesa allar mögulegar fræðigreinar.

Þá hafði hann það eftir mér, háttv. þm., að ég hefði talið það álitamál, hvort rétt væri af þinginu að tæla allt of marga námsmenn út á þessa braut. Það er alveg rétt hjá háttv. þm. Ég sagði þetta, og ég er þeirrar skoðunar enn. Ég tel þó að sjálfsögðu ekki nema gott, að námsmenn okkar fari utan og kynni sér þau fræði, sem okkur mega að gagni verða, og við höfum þörf fyrir að fá sem fullkomnasta menn í. En hitt tel ég ekki heppilegt, að allir starfsmöguleikar séu yfirfylltir hjá okkur. — Þá sagði hv. þm., að með þessum styrkjum, sem farið er fram á í brtt. fjvn. að. fella niður, væri ekki verið að teygja neina námsmenn út á menntabrautina, því að það væri búið að teygja þá út á hana. Þetta má vel vera rétt. En ég sé ekki, hversu æskilegt það kann að vera fyrir þá að halda áfram. Hann taldi það smáupphæðir, háttv. þm., sem hér væri um að ræða. Það má vel vera, að svo sé í hans augum. En þó er það svo, að upphæðin hleypur á tugum þúsunda, og sé nú litið á fjárlagafrv. og það litla fé, sem þingið hefir þar úr að miðla til sinna mörgu aðkallandi þarfa, þá er vart hægt að kalla tugi þúsunda smámuni eina.