31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (3283)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. var að efast um, að línurit þau af skattstiganum, er ég var með hér áðan, væru í samræmi við veruleikann, og færði fram þrjú dæmi, sem hann hafði gert sér upp um útreikninga á sköttum og útsvörum í samanburði við tekjur. En allt ber að sama brunni, það sem fer fram yfir þetta takmark, er ekki nema heimskan einber. Það er ekki hægt að búast við, að menn sækist eftir að afla sér tekna fram yfir þá upphæð, þegar gjöld til hins opinbera nema meiru en viðaukanum. Þar með er ekki sagt, að allar tekjur þess manns, er nær því takmarki, að opinber gjöld komist upp í 100% af tekjunum, nemi öllum tekjum hans, því nokkuð verður eftir af hinum lægri tölum. Af línuritinu má sjá það í einstökum dæmum, að af flatarmáli skattstigans undir 100% verður nokkuð eftir af tekjunum, en þegar kemur yfir það takmark, fara tekjurnar allar í opinber gjöld. Þetta er óeðlilegt, því þó að nokkuð verði eftir af tekjum í hinum einstöku dæmum, þá verður að gera þá kröfu til skattstigans, að hann reki sig ekki upp undir, að hann fari a. m. k. aldrei yfir 100%, ef nokkur skynsemi á að vera í álögunum. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að tekjuskattur sé alltaf því eðlilegri sent hann fari meir stighækkandi. Það á að mjólka mjólkurkúna, en ekki að slátra henni, en það má líkja því við að slátra henni, að gera tekjuskattsstigann svo hraðhækkandi, að hann heimti meira en allar tekjurnar. Með skattstiga, sem krefur vissan hóp gjaldenda, sem þjóðfélagið munar um, um meira en allar tekjurnar, er verið að stofna til alvarlegra afleiðinga í þjóðfélaginu, tekjuskatti, sem er þessum mönnum eintóm byrði. Það er kannske ekki rétt að líkja honum við það að slátra kúnni, heldur kannske fremur að gelda hana, en það á ekkert skylt við að nytja hana. Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að þetta frv. væri borið fram til þess að styrkja sjálfsbjargarviðleitni stórra stétta í landinu, en þessi staðhæfing hæstv. ráðh. getur ekki staðizt. Það má að vísu halda því fram, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til viðreisnar bændastéttinni, stefni að því að auka sjálfsbjargarviðleitni hennar, en þó er það aðeins skoðun, sem framtíðin ein getur dæmt um, hvort rétt er eða ekki. Það er erfitt að segja það fyrirfram, hvort þær ráðstafanir verða til að efla eða uppræta sjálfsbjargarviðleitnina, en að tilraun til þess að ná því fé, sem þarf til ráðstafananna á einn tiltekinn hátt, sé stuðningur við sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar, það er fullkominn misskilningur. Hinn bezti stuðningur við sérhverja gagnlega tilhögun er sá, að afla nauðsynlegs fjár til hennar með sem minnstum sársauka og truflunum fyrir þjóðfélagið, og ég þori að segja, að nú er svo ástatt, að sú leið til öflunar ríkistekna er líklegust, sem minnstu tjóni og truflunum veldur, en dreifir hinni auknu skattabyrði sem hóflegast á alla skattstofna þjóðfélagsins.

Hæstv. ráðh. talaði um, að ekki væri beint hægt að taka útsvör af sama gjaldstofni og skatta, og færði það til, að nauðsyn gæti knúið til þess öðruhverju að leggja á útsvör, sem jafnvel færu fram yfir allar þær tekjur, sem gjaldendur hefðu. En þetta er í raun og veru það sama, sem verið er að gera með frv. hæstv. ráðh. Munurinn er aðeins sá, að með frv. er verið að lögleiða reglu, sem á að ná yfir vissan hóp gjaldenda, en í hinu tilfellinu, um útsvörin, er um undantekningarráðstöfun að ræða; hvorttveggja er vitanlega alltaf vandræðaráðstöfun. Eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, er það alltaf neyðarúrræði að þurfa að nota eignir til greiðslu opinberra gjalda, í staðinn fyrir að greiða þau með tekjum. Ég get ekki dulizt þess, að slíkur skattur kemur aðallega niður á þeim gjaldendum, sem eiga innstæður í bönkum eða handbært fé, ef á að leggja hann á hina, sem ekki eiga slíkar eignir, atvinnurekendur, sem eiga sitt í húsum, fasteignum og framleiðslutækjum, ef á að leggja á þá hærri skatt heldur en tekjurnar hrökkva fyrir, þá er ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að minnka eignirnar, framleiðslutækin, eða þá að mynda skuld til þess að borga skattinn. Hvorttveggja er neyðarúrræði; að selja eignir til skattgreiðslu er það versta, en að greiða skatta með því að safna skuldum gengur ekki til lengdar. Það er engin vafi á því, að hættulegasta sköttun fyrir atvinnulífið er sú, að of freklega sé farið í það að nota tekju- og eignarskattinn.

Þá talaði hæstv. ráðh. um tilfærslu eigna í þjóðfélaginu, eða tilfærslu verðmæta, sem orðið hefði og skapað ranglæti, sem þyrfti að leiðrétta. Því miður hefir ekki farið fram nein rannsókn á efnahag hinna ýmsu stétta í þjóðfélaginu, sem gæti verið rök fyrir þessari staðhæfingu. Það hefir farið fram rannsókn á efnahag einnar stéttar, bændastéttarinnar, og útkoman hefir verið sú, að ástæða hefir þótt til sérstakra ráðstafana til þess að skapa heilbrigðara fjármálaástand í þeirri stétt. En hver yrði útkoman, ef samskonar rannsókn færi fram á efnahag sumra annara stétta í landinu? Ég er alveg óviss um, að útkoman yrði betri. Það getur verið, að mér sé það nokkuð ljósara en mörgum mönnum öðrum, hve þröngur efnahagur ýmsra stétta í kaupstöðunum er, og miða ég þá aðallega við Rvík. Það kemur sérstaklega vel í ljós við innheimtu opinberra gjalda, og ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að þær upplýsingar, sem maður fær gegnum þá innheimtustarfsemi, gefa ekki vonir um glæsilegri útkomu af rannsókn á efnahag bæjarbúa en bændastéttarinnar, ef eignir þeirra eru virtar eftir svipuðum reglum og eignir bænda. Það er vitanlega hægt að blása út glæsilegan efnahag með því að virða langt yfir sannvirði verðmæti, sem ekkert gefa af sér, svo sem fatnað, húsmuni og þvílíkt, og ef reiknað er með því, að þessar eignir gefi af sér einhverjar afskaplegar tekjur, en það var ekki gert, þegar metnar voru eignir bænda. En þetta hefir stundum verið gert, þegar metnar hafa verið ástæður kaupstaðabúa, en slíkt mat má ekki leggja til grundvallar fyrir skattkröfum. Með því er vegið fastast að fátækustu stéttum bæjanna, þegar svo langt er gengið af hálfu þess opinbera um kröfur í skattstofna bæjarfélaganna, að fyrirsjáanlegt er, að til almennra vandræða horfir fyrir bæjarfélögin að fá nauðsynlegar tekjur. Ég er sannfærður um, að blóðtaka sú, sem þetta frv. boðar, veldur afskaplegum erfiðleikum. Það er ekki gott að sjá, hve lengi þessi lög verður hægt að framkvæma, en það er alveg víst, að þau stofna til kapphlaups milli bæjarstjórnanna og skattheimtumanna ríkisins, og endirinn verður sá, að fjöldi gjaldenda kemst í vandræði. Það er viðurkennt, að nú eru krepputímar, og það er sjálfsagt, að allir taki á sig þær byrðar, sem þeir geta, en því má ekki gleyma, að eina eðlilega kreppuráðstöfunin er sú, að ætla engum á slíkum tímum neina sérstaka þyngingu á þeirri byrði, sem hið opinbera leggur á sína borgara. Ég vil aðeins minna á það, að eftir lögum þeim, sem nú gilda, er hér í Rvík þegar tekið til venjulegra bæjarþarfa af venjulegum eignatekjum að segja má allt það, sem fer fram yfir 24 þús. kr. hjá einum gjaldanda, og líti maður á, hvað eftir verður hjá honum af tekjum yfir 10 þús. kr., þá kemur í ljós, að það verður aldrei meira en 2 til 3 þús., hve háar sem tekjur hans eru. Hér við bætist það, sem ríkið tekur. Þetta gerist ekki án þess að einhversstaðar komi skörð, ef svo á að fara að bæta við, þar sem allt er tekið og meira til.

Það er ekki nema eðlilegt, að fjmrh., sem hugsar um sitt embætti, leggi áherzlu á að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem hann þarf, en ég er dálítið undrandi yfir því, að þessi hæstv. ráðh. hefir ekki svo vart hafi orðið leitað samkomulags við sína stuðningsflokka um það, á hvern hátt aflað verði þess fjár, sem ríkissjóður þarf að fá. Hann hefir engin boð gert um það, hve mikið hann muni þurfa að fá, og ekki mér vitanlega leitað samkomulags um þetta. Í þess stað hefir hæstv. ráðh. borið fram eitt og eitt frv. í skattamálum, og hann hefir kvartað undan því, að þau fengju ekki góðar viðtökur. En þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt. Þessi frv. hafa yfirleitt hjá Sjálfstfl. mætt skilningi, en hann vill ekki nema hóflega hækkun á hverjum stað. Við höfum boðið upp á 50% hækkun á skemmtanaskattinum og að sá skattauki færi allur í ríkissjóðinn, og annað þvíumlíkt. Mér hefði fundizt eðlilegt, að hæstv. ráðh. liti á það sem sitt aðalverk að gera upp hinar nauðsynlegustu þarfir ríkissjóðs og síðan leita samkomulags við sína stuðningsflokka um fullnægingu þeirra þarfa. Mér er óhætt að segja það um Sjálfstfl., að hann er ekki í þeim hug að neita um nauðsynleg fjárframlög til ríkissjóðs síðan séð var fyrir um lausn stjórnarskrármálsins, og ég vil skjóta því til hæstv. ráðh., þó seint sé, hvort honum sýndist ekki réttast að gera fyrst rökstudda grein fyrir því, hvaða gjaldabyrði er nauðsynlegt að leggja á landsmenn, til þess að ríkissjóður safni ekki skuldum, og hvort ekki muni vera hægt að ná því fé án þess að fara út í öfgar á einstökum sviðum.