31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (3289)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og árað hefir síðastl. ár, þá hugði ég, að skattur eins og sá, sem ég fer nú hér fram á, mundi ekki snerta neitt aðalatvinnuvegi okkar. Og ég veit, að einmitt þessi skattur mundi ekki spilla atvinnumöguleikum manna. Sá viðbótarskattur, 25%, sem lagður var á síðastl. ár, hefir engin áhrif haft í þá átt, sem sjá má m. a. af því, að nú er talsvert meira fjör í atvinnulífi okkar en á sama tíma í fyrra.

Ég vil taka undir það með hv. 4. landsk., að viðbótarskattur, sem settur er á til eins árs, getur ekki gilt sem fyrirmynd fyrir skattaálögum í framtíðinni. Til þess er ekki ætlazt með þennan skatt frekar en 25% viðbótina í fyrra. En sá viðaukaskattur var m. a. samþ. af ágætum mönnum úr Sjálfstfl. Þessir skattaukar geta ekki gilt frá ári til árs, án tillits til afkomu undanfarins árs, þar sem mikill mismunur er milli ára í atvinnurekstrinum. Útkoman gæti þá orðið sú, að þó skatturinn yrði aldrei hærri en 27%, yrði útkoman af nokkrum árum negativ, en ekki positiv - og er sá möguleiki raunar til eftir núgildandi tekju- og eignarskattslöggjöf. Skattalögum verður að breyta á þann veg, að þau tryggi þeim atvinnurekstri, sem stopull er, en til þjóðþrifa, betri afkomu en nú er. Þótt ég geti engu um það lofað, á hvern hátt þessu verður breytt í framtíðinni, skal ég lofa mínu fylgi slíkum ráðstöfunum. Það er brýn nauðsyn vegna öryggis atvinnurekstrar okkar, að tekjuskatti verði jafnað niður á tekjur margra ára, en ekki á árstekjur, eins og nú er. Okkar „perioda“ er ekki eitt ár, heldur mörg ár. Ég veit ekki, hvað ég á að taka til, en sennilega væri 3-4 ár hæfilegur tími.

Ástæðan til þess, að ég flyt frv. á hvoru þinginu eftir annað um viðbót á núgildandi sköttum, er auðvitað það erfiða ástand, sem við eigum, eins og allar aðrar þjóðir, nú að stríða við. En þegar útlitið batnar, er tími til kominn að gera aðrar ráðstafanir um þessi efni.