11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

1. mál, fjárlög 1934

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég stend ekki upp til þess að mæla með brtt. mínum, því að þær eru engar. En ég vil ekki láta hjá líða að lýsa afstöðu minni til brtt. þeirrar, sem síðast var talað um, ef ske kynni, að gengið yrði til atkv. um hana nú þegar.

Það hefir komið skýrt fram í umr., að allir háttv. dm. séu á einu máli um það, að eitthvað þurfi að gera til þess að bjarga atvinnumöguleikum Austfirðinga. En leiðirnar eru misjafnar, sem menn vilja fara. Ég er t. d. á öndverðri skoðun við háttv. 3. landsk., sem vill frekar heimila 100 þús. kr. ábyrgð til smábátaútgerðar þar, eins og er í frv., heldur en fara þá leið, sem brtt. fer fram á. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að heppilegra muni verða að veita ábyrgð til þess að koma þar upp síldabræðsluverksmiðju, og það, sem mest mælir með því í mínum augum er það, að mennirnir, sem búa þarna, hafa sjálfir þá trú, að þetta muni bezta og hagkvæmasta ráðið þeim til bjargar.

Þá er annað atriði, sem ekki verður gengið fram hjá og það er það, að verði reist síldarbræðslustöð á Seyðisfirði eða annarsstaðar á Austfjörðum, þá er víst, að skipastóllinn rís upp af sjálfsdáðum manna. Menn munu fljótlega koma til með að hagnýta sér aðstöðu til þess að selja aflann. Mér virðist því ólíkt skynsamlegra að fara þessa leið heldur en hina.

Þá hefir dálítið verið um það deilt, hvort binda eigi ábyrgðarheimildina við Seyðisfjörð eða einhvern annan fjörð eystra, t. d. Norðfjörð, og reka þar síldarbræðslustöð í sambandi við fiskimjölsverksmiðju, sem þar er nú, og að því lýtur bréf forstjóra síldarbræðsluverksmiðju ríkisins á Siglufirði. En það bréf virðist mér ekki eins óhludrægt og það ætti að vera. Það gengur beinlínis fram hjá staðreyndum, sem við, sem ókunnugir erum þessum málum, rekum strax augun í. Þar segir m. a., að ekki muni rétt að reisa síldarbræðslustöð á Seyðisfirði, af því að síldveiði þaðan sé svo lítil, þannig hafi t. d. ekki verið saltað þar nema 1580 mál. Við þetta er það fyrst og fremst að athuga, að síldarsöltunin hefir að undanförnu verið bundin við söltunarleyfi, hve margar tunnur væri heimilt að salta. Ennfremur hefir söltunin líka miðazt við það, hve mikið hefir verið til af tunnum og salti.

Þá er vitanlegt, að mikið af þeirri síld, sem veidd er bæði þar og annarsstaðar, er ekki söltunarhæf og því sett í bræðslu. Það, sem saltað er af síld á hverjum stað, sýnir því alls ekki það rétta síldarmagn, sem þar er veitt.

Þá er minnzt á vegalengdina, og það, sem um hana var sagt, var hrein og bein hártogun. Að skipin muni þurfa að fara með síldina frá Siglufirði til Seyðisfjarðar, dettur engum í hug. Þau fara eðlilega af miðunum þar sem þau eru að veiðinni, og nú vill svo til, að þau mið, sem síldveiðiskip eru mjög mikið á, liggja nálægt miðja vegu milli Siglufjarðar og Seyðisfjarðar. Á ég þar við miðin kringum Langanes. Væri farið til Norðfjarðar, mundi dálítið lengra þangað frá Langanesi en til Siglufjarðar. Virðist því einsætt að halda sér við Seyðisfjörð hvað bræðslustöð þessa snertir. Hann er líka vanskiptari með atvinnumöguleika en Norðfjörður, og mun því réttara að styrkja hann.

Hvað snertir byggingu slíkra fyrirtækja sem síldarbræðslustöðvar, þá er það álit mitt, að ekki megi taka tillit til þess eins, hvað hægt sé að hrófa byggingunni upp fyrir minnsta peninga, heldur beri frekar að líta á það, hvað bezt muni verða í framtíðinni. Ég er t. d. ekki grunlaus um, að ef horfið yrði að því ráði að auka við fiskimjölsverksmiðjuna á Norðfirði, þá myndu þegar á næsta þingi koma kröfur um meiri og fleiri umbætur á henni, svo það yrði jafnvel eins dýrt að umbæta hana eins og að byggja nýja verksmiðju. Læt ég svo útrætt um þessa brtt. Ég hefi aðeins viljað láta koma í ljós aðstöðu mína í málinu, og hvernig ég muni greiða atkv.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 1. þm. Reykv., og þá sérstaklega því, sem hann sagði um styrki til fátækra námsmanna og afstöðu nm. til þess máls. Það er alls ekki álit nm., a. m. k. ekki allra, að ríkissjóður standi og falli með þessum styrkveitingum til fátækra námsmanna. En ég tel alveg óhæfilegt að nota þá aðferð við veitingu þessara námsstyrkja, sem notuð hefir verið síðan ég kom á þing. Það er alveg undir hælinn lagt, hverjir verði aðnjótandi þessa styrks, sem alþ. veitir. Þingmenn hafa ekki aðstöðu til að meta það í hverju tilfelli. Verður því niðurstaðan sú, að þeir fá styrkinn, sem bezta eiga „agitatorana“ fyrir sig á þingi, sem oft eru þeir mennirnir, sem eiga öflugasta aðstandendur, og því eru í minnstum vandræðum við námið. En hinir fátækari og umkomuminni verða út undan. Þetta handahóf ætti að vera fyrirbyggt, ef nefnd manna, eins og t. d. menntamálaráðið, hefði eingöngu úthlutun á fénu. Henni ætti að vera innan handar að fylgjast með hvernig mönnum gengi við námið og úthluta svo styrknum samkv. því. Það er því álit mitt, að það eigi að afnema með öllu, að þingið sé að veita einstökum námsmönnum styrk, heldur eigi að veita þeim mun ríflegri fúlgu handa menntamálaráðinu til úthlutunar. Það er því alls ekki fjárhæðin, sem ég er á móti, heldur principið.