02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (3302)

117. mál, barnavernd

Guðrún Lárusdóttir:

Eins og menn muna, voru l. um barnavernd afgr. frá seinasta þingi, og ég vil nota þetta tækifæri til þess að láta það álit mitt í ljós, að þessi löggjöf hefir komið í góðar þarf­ir, því að sú barnaverndarnefnd, sem hef­ir verið kosin hér í Rvík, hefir innt af hendi gott og þarft starf og í mörgum til­fellum verið sérstaklega gott að leita til hennar með ýmis viðkvæm vandamál, sem risið hafa út af meðferð og aðbúð barna. Nú er komið fram frv. um breyt. á þessum l., sem þó er einungis heimild til handa barnaverndarnefnd til frekari aðgerða en hin eiginlegu l. tala um. Menn lesa auðvitað hvað þetta er. Ég vil geta þess, að þessi till. er borin fram eftir ein­dreginni ósk barnaverndarráðs og vegna þess, að því hafa borizt bréf hér og hvar af landinu, og sá barnaverndarráðið þann kost vænstan að taka þau til greina og hlutast til um, að svofelldar breyt. yrðu gerðar á l. Ég vil tiltaka 2. gr., þar sem talað er um heimild fyrir sveitar- og bæj­arstjórnir til að veita styrk án þess að talinn verði fátækrastyrkur. Þetta atriði brtt. er byggt á bréflegum óskum utan af landi, þar sem svo hefir verið ástatt, að fátæk barnaheimili hafa t. d. ekki getað veitt þann hita í hús sín, sem börnin þurfa með, en heimilin hinsvegar ekki viljað þiggja fátækrastyrk til þess að geta aflað börnum sínum þessarar þarfar, og viðkomandi hreppsn. hafa ekki séð sér fært að veita öðruvísi hjálp en í fátækrastyrks­formi, þrátt fyrir það, að knýjandi þörf er fyrir hendi vegna barnanna á heimil­unum. Út af þessu hefir barnaverndaráð­inu verið skrifað og hefir verið lögð fyrir það sú spurning, hvort ekki mætti smeygja inn í l. einhverju því ákvæði, sem heimilaði sveitarstj. að veita slíkan styrk án þess að talið sé sveitarstyrkur.

Ég skal ekki orðlengja um þetta að sinni. Álít aðeins, að þetta sé allt saman til bóta, sem farið er fram á, og vonast til, að d. taki þetta til vinsamlegrar at­hugunar og greiðrar afgreiðslu.