02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (3308)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég átti við það, að þegar búið er að draga skatta undanfarinna ára frá tekjum manns, þá má ekki miða hundraðstöluna við það, sem þá er eftir. Ef það er gert, þá kemur fram tvöfaldur frádráttur. Því verður að miða við brúttótekjur. Ég neita því, að frv. geti valdið því, að menn tapi á því að auka tekjur sínar. Öll dæmi um þetta sýna, að því meiri sem tekjurnar verða, því meiri verður og afgangurinn, þegar skattur hefir verið greiddur.