11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Baldvinsson:

Það fór eins og mig grunaði, að skjölin frá forstjóra síldarbræðsluverksmiðjunnar á Siglufirði væri ekki eins veigamikil og háttv. frsm. lét í veðri vaka í gær. Það er nú komið fram, að í þessari umsögn stjórnar síldarbræðslustöðvarinnar á Siglufirði er ekki nákvæmlega sagt frá, og allt orðalag bréfsins er heldur óákveðið og ber ekki vott um þá þekkingu á þessu máli, sem vænta mætti, að stjórn síldarbræðsluverksmiðju ríkisins hefði. Þetta plagg er, eins og hv. þm. Hafnf. komst að orði, nánast einhliða málflutningsskjal.

Um síldarsöltun á Austurlandi er það fyrst að segja, að sumarsöltun er þar ekki mikil, en þegar kemur fram á haustið og veturinn hefir verið saltað þar eins mikið og markaðurinn hefir þolað og meira en það. Það er sagt, að á síðasta hausti og vetri hafi á Austfjörðum verið saltaðar um 11 þús. tunnur af síld, og var það meira en hægt var að selja. Hinu verður ekki gengið fram hjá, sem sagt er af kunnugum mönnum, að á Austfjörðum skiptast á veiðitímabil og veiðileysistímabil. Þetta hafa sagt hér í hv. d. bæði fyrrv. þm. Seyðf., sem hér átti sæti, og hv. 2. þm. S.-M. Nú hefir undanfarið staðið yfir veiðileysistímabil, eins og kunnugt er, en ýmsir álíta, að það sé hjá liðið og nú sé að byrja nýtt veiðitímabil (IP: Maður vonar það). Þetta er rétt, segir hv. þm. Það er sagt, að síðastl. vetur væru þar allir firðir fullir af síld, og að þeir menn, sem einhverjar nettrássur áttu, hafi fengið þær fullar á einni nóttu. Þannig aflaðist á Austfjörðum meiri síld á síðastl. vetri en hægt var að selja. Mér er sagt, enda hefir það verið hirt í opinberum fréttum, að síldin stæði þar svo þétt á fjörðunum, að þar hefði mátt taka þúsundir tunna í lása. Þetta er eitt af því, sem gerir það líklegt, að reka mætti síldarverksmiðju á Seyðisfirði, einkum ef litið er til þess, hverja aðferð Norðmenn hafa um rekstur á slíkum verksmiðjum, en Norðmenn hafa eins og kunnugt er allra þjóða lengsta reynslu í þessum efnum og kunna manna bezt að veiða síld bæði til útflutnings í ís og einnig til verksmiðjuvinnslu. Þegar vetrarveiðin byrjar þar um áramót, taka þeir síldina í lása og láta svo í skip, sem flytja hana í ís til Englands, það sem skipin taka, en afganginn setja þeir svo í verksmiðjurnar. Þessar verksmiðjur standa oftast í fjarðarbotnunum, og þar er síldin tekin úr lásunum og látin ný í verksmiðjurnar. Úr nýrri síld geta verksmiðjurnar svo framleitt verðmætara mjöl og lýsi heldur en hægt er með þeirri aðferð, sem notuð er hér á landi, að játa síldina í þrær úr skipunum, þar sem hún er svo oft geymd nokkurn tíma áður en hún er unnin og myndast sýrur í lýsinu svo miklu munar á söluverði hjá okkur, móts við það, sem er hjá norsku verksmiðjunum.

Á Austfjörðum eru líkur til, að hægt verði að framleiða þessar vörur verðmætari heldur en hægt er á Siglufirði og á Vesturlandi. Þetta hefir ekki komið fram hér í umr., en þannig er þetta í Noregi, og þeir menn, sem selja okkur síldarmjöl, vita, að það er verri vara en norska síldarmjölið og það af þeim ástæðum að síldin, sem unnið er úr, er orðin gömul. Hv. 3. landsk., frsm. frv., lýsti því yfir, að hv. þm. S.-M. hefði gott vit á þessum málum. Ég skal ekki efast um það, en hvað gerir þessi hv. þm., ef ætti að taka mark á bréfi stjórnar síldarbræðslu ríkisins, sem hv. frsm. las upp úr? Ég vil benda á það, að þessi hv. þm. gengur alveg á móti því. Hann vill einmitt stofna síldarbræðslu á Austfjörðum, en stjórnarnefndin vill það ekki, en hann vill bara ekki staðbinda verksmiðjuna. Samt víkur hann að því, að heppilegast muni vera að reisa hana á Norðfirði í sambandi við fiskimjölsverksmiðju þar, en hreint ekki á Seyðisfirði. (Forseti: Mér þykir ætla að fara að togna úr þessari aths.) Já, hæstv. forseti, þetta er nokkuð stórt mál, og mér finnst ég verða að svara nokkurnveginn þeim andmælum, sem komið hafa fram gegn þessari till. En ef þessi meining hv. 2. þm. S.-M. er rétt, þá sé ég ekki annað en að aðalaths. í bréfi stjórnar síldarbræðslunnar á Siglufirði sé niður fallin, því í því bréfi er haft á móti bræðslustöð á Seyðisfirði vegna fjarlægðar, og megurðar á síldinni. En skyldi þetta ekki einnig gilda um aðra Austfirði? Seyðisfjörður er þó nyrztur af fjörðunum og þar af leiðandi næstur því góða veiðiplássi, sem síldar- verksmiðjustjórnin talar um. Það er satt, að það er löng leið frá Siglufirði til Seyðisfjarðar, og ég get gengið inn á, að það sé alveg sannað af stjórn verksmiðjunnar, að það sé styttra frá Siglufirði til Siglufjarðar heldur en Siglufirði til Seyðisfjarðar, en hitt vita allir, að það er ekki sjaldan, sem síldin er veidd alla leið austur hjá Langanesi og þá fara nú að verða áhöld um vegalengdina.

Eins og kunnugt er, eru tvær bræðslustöðvar á Vestfjörðum. Þangað kemur síldin fyrst. Þá er hún mögur, svo að það ætti ekki að vera verulegur gæðamunur á henni og Austfjarðasíld. Þetta er að vísu órannsakað, en þarna eru þó reknar síldarbræðsluverksmiðjur með góðum árangri. Norðmenn hafa margar verksmiðjur, sem taka vetrarsíld, og það hefir verið dálítið athugaður samanburður á norskri vetrarsíld og Austfjarðasíldinni síðastl. vetur og það hefir komið í ljós af skeytum, sem Fiskifélagi Ísl. hafa borizt um sölu Austfjarðasíldarinnar, að hún hefir reynzt sæmilega á erlendum markaði og ekki lakari en síld frá Noregi. En ef hún reynist eins góð, þá er hún líka hæf til verksmiðjuvinnslu. Þarna er um að ræða síld, sem eftir marga ára skeið er nú aftur að heimsækja Austfirði, eftir von hv. 2. þm. S.-M. Það er ekki um að ræða nema tvo staði fyrir síldarbræðsluverksmiðju, Seyðisfjörð eða Norðfjörð, en ég held, að meiri veiði sé á Seyðisfirði og því réttara að binda sig við þann stað. Svo veit ég annað, og það er það, að ef frv. kemur til Nd. þannig, að búið er að setja Norðfjörð í staðinn fyrir Seyðisfjörð, þá kemur hv. 1. þm. S.-M. vafalaust fram með það, að Mjóifjörður sé eini staðurinn, þar sem síldarbræðslustöð eigi að standa. Sá hv. þm. gat einmitt um það í útvarpsfrétt í vetur, að síldin væri einna mest á Mjóafirði. Ég álít, að það sé mjög óheppilegt fyrir málið, að slíkur reipdráttur verði um það, sem byggist á hreppapólitík, er aðeins vinnur því tjón. Þess vegna verður Alþingi að skera úr í þessu efni, en ekki að leiða hjá sér slíkt deiluefni, er unnið gæti málinu stórtjón, og að öllu athuguðu hygg ég, að réttast verði að byggja verksmiðjuna á Seyðisfirði.

Þá er kostnaðarhliðin. Það má vera, að eitthvað ódýrara yrði að reisa bræðslustöðina á Norðfirði heldur en á Seyðisfirði, en ég hygg þó, að þótt hún yrði byggð á Norðfirði, þá mundi þurfa að kaupa vélar til hennar fyrir a. m. k. eitthvað á þriðja hundrað þús. kr., til þess að geta brætt síld á Norðfirði. Það er búið að rannsaka þetta mál á Seyðisfirði og ég efast um, að eins góð aðstaða sé á Norðfirði og er þar, bæði með geymslu á hráefni og öðrum vörum til verksmiðjunnar. Ég efast því stórlega um, þegar öll kurl koma til grafar, að verksmiðjan verði helmingi ódýrari á Norðfirði en á Seyðisfirði, og þó því hafi verið slegið hér fram, þá efast ég um, að því sé mikið treystandi, enda fullyrti hv. 2. þm. S.-M. ekkert um það, heldur gizkaði aðeins á um það, eins og stjórn síldarbræðsluverksmiðjunnar í bréfi sínu.

Hv. þm. sagði, að sér dytti ekki í hug að vilja útiloka Seyðisfjörð, en það er þó það, sem hann er að reyna að gera. Það er ekki minnst á nema þessa tvo staði, Seyðisfjörð og Norðfjörð, og úr því þm. er að reyna að spilla fyrir Seyðisfirði, þá væri miklu hreinlegra af honum að koma bara með till. um að byggja verksmiðjuna á Norðfirði. En hvað sem því líður, þá held ég mér við það, að Seyðisfjörður sé rétti staðurinn.