03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Baldvinsson:

Þegar hv. 5. landsk. bar hér fram frv. um viðbótartekjuskatt, sem verja átti í sérstökum tilgangi, þá lýsti ég yfir, að vafasamt væri, hvort ég gæti fylgt því frv. gegnum þingið, sérstaklega eins og þá stóð á, og gerði ég þá grein fyrir, hvernig á því stóð. Í sjálfu sér er það í mínum augum réttlát aðferð til þess að ná tekjum í ríkissjóð, að hafa háan tekju- og eignarskatt, svo að því leyti er ég samþykkur þeirri stefnu, sem fram kemur í frv. hæstv. stj. á þskj. 829. En það gildir sama um þetta frv. eins og bæði frv. hv. 5. landsk. um 8000 kr. hámarkslaun og frv. hans um viðbótartekjuskatt, að ég er ákaflega ófús að veita stj., sem ég er í fullkominni andstöðu við, tækifæri til að nota þannig einstaka tekjustofna um stutt tímabil einungis til þeirra hluta, sem ég tel til hinnar mestu óþurftar.

Nú ætla ég að rifja dálítið upp, hvernig hefir verið tekið í till. okkar jafnaðarmanna viðvíkjandi framlögum til atvinnubóta, bæði á þessu þingi og síðasta þingi.

Ég heyrði í útvarpsumr. um daginn, að hæstv. fjmrh. sagði berum orðum, að við Alþflm. hefðum aldrei komið fram með neinar till. um bein framlög úr ríkissjóði til atvinnubóta án skuldbindinga bæjarfélaga, og ef slíkar till. kæmu fram síðar, þá væri það af því hann hefði á það bent. Ég vil taka það fram, að við höfum borið fram slíkar till., ekki á þessu þingi að vísu, en á síðasta þingi. Við bárum þær ekki fram nú vegna þess, hvað þær fengu herfilegar undirtektir hjá hæstv. ráðh. og flokki hans. Við fluttum í fyrra brtt. við fjárl. um að auka framlög til tiltekinna vega, og það var beinlínis tekið fram, að það ætti að vera til að draga út atvinnuleysinu. Þar var því um að ræða bein framlög frá ríkinu til atvinnubóta. Það var farið fram á að auka verklegar framkvæmdir ríkisins, og það skiptir engu máli, hvort þær eru kallaðar atvinnubætur eða ekki, þegar hvorutveggja er ætlað sama hlutverk. Þess vegna var það rangt hjá hæstv. fjmrh., þegar hann af miklum móði fullyrti í útvarpið um daginn, að Alþfl. hefði ekki komið fram með neinar till. um bein framlög úr ríkissjóði til atvinnubóta. En till. okkar í þá átt var þannig tekið, að bæði flokkur hæstv. ráðh. og Sjálfstfl. snerust á móti þeim og steindrápu þær í báðum deildum.

Nú hefir hæstv. ráðh. og hans flokkur að lokum gengið inn á að heimila í fjárl. 300 þús. kr. til atvinnubóta, gegn tvöföldu framlagi frá sveitar- og bæjarfélögum. En á sama tíma er samþ. inn í fjárl. heimild til 400 þús. kr. fjárveitingar til bænda landsins til uppbótar á kjötverði. Og í lögum, sem nú er væntanlega búið að afgr., er ákveðið, að árin 1933 og 1934 skuli ríkissjóður greiða vexti af lánum bænda, sem hv. 3. landsk. gerði ráð fyrir, að mundu nema um 120 þús. kr. á ári, eða 240 þús. kr. bæði árin. Þá er í frv. um kreppulánasjóð ætlazt til, að ríkið leggi fram handa bændastéttinni 9 millj. kr. í skuldabréfum ríkissjóðs og 2½ millj. kr. í peningum, sem greiðist á næstu 10 árum. Þannig skilst mér, að með ráðstöfunum þessa þings sé samanlagt ætlað til stuðnings bændastéttinni 13 millj. kr. Aftur er þannig tekið undir beiðni verkamannastéttarinnar, að til hennar er gert ráð fyrir að láta af mörkum einar 300 þús. kr. til atvinnubóta. Í upphaflegu till. okkar jafnaðarmanna var farið fram á eina millj., og hefði það fremur verið ofurlítið í áttina að svara til þeirrar hjálpar, sem bændum er ætluð. Auk þess, sem ég taldi upp af framlögum til bænda, greiðir ríkissjóður ekki minna en 600 þús. kr. samkv. jarðræktarlögunum og er það beinn atvinnuleysisstyrkur handa bændum. Svo er Búnaðarfélaginu veittur styrkur sérstaklega og margvísleg önnur hlunnindi, og styrkveitingar handa bændastéttinni eru í lögum. Ég er alls ekki að sjá eftir neinu af þessu. Ég vil aðeins rifja þetta upp til þess að sýna, hvað þingið misskiptir fjármunum þjóðarinnar milli stéttanna og hversu dauflega Framsfl. tekur í að veita styrk handa verkalýðnum, þegar hann er nauðulega staddur, á sama tíma sem ekkert er sparað af því, sem hægt er að leggja fram handa bændastétt landsins. Það er rangt að misskipta þannig fé landsmanna milli stéttanna í landinu.

Nú er það ekkert efamál, að bæirnir verða mjög illa staddir á komandi vetri. Langvarandi atvinnuleysi hefir komið svo mörgum verkamönnum á vonarvöl, að þeir mega helzt engan dag missa atvinnu, ef skorturinn á ekki að heimsækja þá. Því verður óhjákvæmileg nauðsyn, að bæirnir leggi fram stórar fjárfúlgur til atvinnubóta hver fyrir sína íbúa. Hvernig það fé á að fást, er náttúrlega enn ekki útkljáð, en einhvernveginn verða bæirnir að fá það, annaðhvort að láni eða með álögum á bæjarbúa, ef fé er ekki fyrir hendi á annan hátt; það er augljóst mál það, sem bæirnir hafa til að leggja á, eru vitanlega tekjur bæjarbúa, auk þeirra gjalda af fasteignum, sem nú eru í lögum og sem eru fastbundin. Að öðru geta þeir ekki gengið til að afla fjár til framkvæmda.

Nú hefir hæstv. fjmrh. látið bera fram þetta frv. um nokkuð aukinn tekjuskatt, sem mun gefa ríkissjóði nokkuð miklar tekjur, kannske 600-700 þús. kr. Og ég er sammála hæstv. ráðh. og ósammála hv. 1. landsk. um það, að þessu fé megi ná, og að mótbárur hv. 1. landsk. séu ekki nein rök á móti frv. Ég álít, að ríkissjóður geti náð þessu fé og í raun og veru sé þetta ekki ósanngjörn álagning. En það er annað, sem kemur til greina, að hæstv. ráðh. ætlast til þess, að þetta álag innheimtist á árinu 1933, og þar í kemur mismunurinn í stefnu okkar jafnaðarmanna og hæstv. fjmrh. Við getum hvenær sem er verið með því að umleggja skattana og samþ. háan tekju -og eignarskatt í stað tollanna. En nú hefir stj. borið fram frv. um að hækka óbeinu skattana að miklum mun, og auk þess ætlar hún þetta ár að grípa upp úr bæjunum allmikla fjárfúlgu handa ríkissjóði, án þess að neitt af öðrum sköttum verði fellt niður. En það er aðalatriðið í skattamálum okkar jafnaðarmanna, að tekjuskatturinn komi í staðinn fyrir óbeinu skattana. Þess vegna er þetta engin umlagning á tekjuskattinum eða fjáröflunaraðferðum ríkissjóðs. Það er aðeins hugsað sér að grípa inn í eitt skipti til þess að afla tekna og láta það verða bæina og sjávarplássin, sem leggja þetta til, sem ætlað er svo að verja til styrktar bændum.

Það má líka vel vera, að þetta fé verði nægilegt í ríkislögregluna, og ég vil a. m. k. ekki stuðla til þess, að stj. hafi svo mikið fé undir höndum, að hún geti haldið uppi þeirri ríkislögreglu, sem hún hefir haft um skeið.

En þegar bæirnir eru svo erfiðlega staddir eins og þeir eru nú, þá er augsýnilegt, að þeir þurfa allra sinna muna með, og ég mundi ekki hika við að vera með því að leggja aukaútsvar á íbúa bæjanna nú í haust, til þess að afla bæjarsjóðunum tekna til þess að halda uppi atvinnubótavinnu þar.

En þetta tekjuskattsfrv., sem á að grípa inn á árið 1933, mundi a. m. k. gera þennan möguleika erfiðan, ef ekki ómögulegan á yfirstandandi ár. Þess vegna hefi ég borið fram þessa brtt., og ég tel ekki rétt að samþ. frv. nema sú breyt. komist fram. Eftir þeirri till. ætlast ég til, að 75% af þessum tekju- og eignarskatti renni til bæjarsjóða og sveitarsjóða og að ríkissjóður fái 25% af heildartekjunum, sem inn kæmu af viðbótar-tekju- og eignarskattinum. Það mundi verða eitthvað í áttina til þess, sem nú hefir verið samþ. sem fjárveiting til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, og þættist ég þá hafa hjálpað stj. til þess að útvega fé til þessara atvinnubóta, a. m. k. að miklu leyti. Hinsvegar ætlast ég til þess, að viðbótar-tekju- og eignarskattinum sé skipt milli bæjar- og sveitarfélaga á þann hátt, að hvert bæjarfélag og sveitarfélag fái jafnóðum og skatturinn innheimtist greitt í sinn sjóð 75% af því, sem innheimtist á hverjum tíma, og sé það gert upp mánaðarlega við sveitarsjóðina, þannig að ef í okt. og nóv. innheimtist t. d. 400 þús., þá greiði ríkissjóður í bæjar- og sveitarsjóði 300 þús. kr. af því, en heldur eftir 100 þús. kr. sjálfur, sem í hans hlut fellur, og féð skiptist á milli bæjanna eftir því, hvað mikið af skattinum kemur inn í hverju sveitarfélagi, þannig, að ef inn kæmi í Rvík einni saman 400 þús. kr. af þessum skatti, þá ætti Rvík að fá 300 þús. kr. í sinn hlut og ríkissjóður á sama hátt 100 þús.

Þessu fé ætlast ég til, að bæjar- og sveitarsjóðir verji til atvinnubóta, og af því að þetta er sérstök ráðstöfun vegna atvinnuleysis, hefi ég sett í till. mína, að fénu verði varið í samráði við stjórn Alþýðusambands Íslands. Það er flokkur verkalýðsins í landinu, og það er ekkert eðlilegra heldur en að forsvarsmenn verklýðsfélaganna og yfirstjórn Alþýðusambands Íslands hafi hlutdeild um það, í hvaða framkvæmdir skuli ráðizt og hvernig fénu skuli varið.

Ég álít því, að þessi till. sé sanngjörn, eftir því sem ástæður eru nú, eftir þeirri þörf, sem ég veit, að bæirnir hafa fyrir aukið fé til framkvæmda, og að ekki megi svipta þá möguleika þetta erfiða ár til þess að ná í tekjur handa íbúum sínum, til þess að styðja þá í erfiðleikum sínum.

Það er orðið dálítið erfitt með umr., þegar svona er komið að þingslitum, og ætla ég því ekki að hafa mín orð fleiri. Ég þykist hafa gert grein fyrir minni afstöðu til frv. og skýrt frá till., sem ég flyt, sem ég í rauninni álít fullkomlega greinilega.