03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 2. landsk. hefir flutt till. um það skilyrði, að ¾ hlutar tekjuskattsaukans renni til bæjar- og sveitarfélaga. Það liggur í hlutarins eðli, að stj. getur ekki fallizt á slíkt skilyrði. Ástæðan til þess, að stj. hefir flutt frv., eru þær nýju kvaðir, sem þetta þing leggur á ríkissjóð. Frv. er flutt til þess að fá fé upp í þær greiðslur, sem þegar eru lögbundnar. Það er þess vegna ekki hægt að ganga inn á nein skilyrði, sem fela í sér nýjar byrðar fyrir ríkissjóð, enda er það fjarstætt, að ríkið sé að innheimta beina skatta fyrir bæjarfélög, þar sem bæjar- og sveitarfélög hafa sína eigin heimild til þess að taka beina skatta. Eina skilyrðið, sem unnt er að orða, væri, að þessi viðbótar-tekju- og eignarskattur skuli renna til einhvers þess, sem þegar er búið að binda, svo sem til atvinnubóta, sem framkvæmdar verða samkv. heimildum, uppbótar á kjötverði, sem nauðsynlega yrði að grípa til samkv. heimildum, o. fl.

Þetta eru einu skilyrðin, sem hægt væri að ganga inn á. En nú vil ég spyrja hv. þm. að því, hvort hann muni hispurslaust greiða atkv. móti þessu frv., ef hans till. verða ekki samþ. (JBald: Ég hefi sagt það). Og mun hv. þm. gefa sama svarið um það, að setja þau skilyrði ein, sem bundin eru við þær ákvarðanir, sem þingið hefir þegar tekið. (JBald: Já). Að því upplýstu, að hv. þm. virðist ófáanlegur til þess að fylgja þessu frv., verð ég að óska þess af hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá þangað til seinna í dag. Ég hafði gert mér vonir um, að hv. þm. mundi fylgja þessu frv., af því hann teldi réttlátast að ná með þessum hætti þeim tekjum, sem nú er orðið nauðsynlegt að afla ríkissjóði, en þegar sú von bregzt, verð ég vitanlega að athuga aðrar leiðir til að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegar eru. Vænti ég því, að hæstv. forseti vilji taka málið af dagskrá nú.