03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (3324)

53. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég vona, að hv. þdm. láta það ekki villa sig, þó að stórt nafn sé á þessu frv., því að í rauninni þarf ekki að gera ráð fyrir, að það valdi ríkissjóði neinum nýjum útgjöldum. Hér er eiginlega ekki um annað að ræða en að þeim útgjöldum, sem frv. gerir ráð fyrir, verði hagað nokkuð öðruvísi en verið hefir, jafnframt því, sem þess er vænzt, að þau svari betur tilgangi sínum. Það er orðin hefð, að ekki allfáum ljósmæðrum séu greidd lítilsháttar eftirlaun að öllu leyti úr ríkissjóði, og nema þau nú samtals 7-8 þús. kr. Í ljósmæðralögunum er auk þess lögð skylda á ríkissjóð að greiða hlutfallslega þau eftirlaun, sem sýslunefndir kunna að ákveða ljósmæðrum. Má því gera ráð fyrir, að þó að engin lágasetning um þetta efni yrði sett, þá yrði að eyða í þessu skyni álíka upphæð og frv. gerir ráð fyrir, því að það er nú svo, að þegar búið er að taka persónulegar fjárveitingar þess háttar, sem hér um ræðir, upp í fjárlögin í eitt skipti, er talið sjálfsagt, að áframhald verði á því.

Ljósmæðrastéttin óskar eindregið eftir þessari lagasetningu, og vilja ljósmæður verja hluta af launum sínum til að leggja í þennan sjóð, til þess að tryggja sér þann lífeyri, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég ber sjálfur ekki ábyrgð á þeim útreikningi, sem frv. fylgir og við er miðað, en vona, að hv. þdm. beri fullt traust til þess manns, sem að honum hefir unnið. Það er maður, sem er viðurkenndur sérfræðingur í tryggingarmálum, Brynjólfur Stefánsson skrifstofustjóri.

Vil ég svo vona, að málið fái að ganga til 2. umr. og þeirrar n., sem ég tel það eiga helzt heima í, en það er fjhn.