11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (3330)

117. mál, barnavernd

Magnús Jónsson:

Eins og hv. dm. sjá, er þessi brtt. mín ekki um efni þess frv., sem hér liggur fyrir, heldur flutt í sambandi við það, af því að hún er um breyt. á frv. til 1. um breyt. á 1. um barnavernd, nr. 43 23. júní í fyrra, á þeim tölulið, sem ræðir um kvikmyndahús og eftirlit með þeim. Í frv. er farið fram á þá breyt. á l., að barnaverndarnefnd hafi aðgang að kvikmyndahúsum og geti fengið að skoða myndirnar og ákveða, hvað af þeim má sýna börnum. Nú höfðu kvikmyndahúsin skilið lögin svo, að hér væri aðeins átt við sérstakar barnasýningar, en það hefir á hinn bóginn verið úrskurðað, að hér væri um allar myndir að ræða, og það er náttúrlega alveg sjálfsagt og rétt, því vitanlega geta börn eins haft illt af því að skoða almennar myndir.

Nú er það um eftirlit með myndum að segja, að allar þær myndir, sem hér eru sýndar, hafa þegar gengið í gegnum myndskoðun í Danmörku, sem talin er að vera talsvert ströng, og verið leyfðar af dönskum kvikmyndahúsum. Auk þess hafa lögreglustjórar litið svo á, að þeir gætu bannað þær myndir, sem þeim sýndist. Sömuleiðis er það alkunnugt, að bíóstjórarnir eru vandlátir á myndir, og senda út aftur fjölda mynda án þess að sýna þær, af ótta við, að þær veki hneyksli og komi óorði á kvikmyndahúsin.

Ég ætla ekki að hafa á móti því að setja sérstaka skoðun á myndir vegna þeirra áhrifa, sem þær kunna að hafa á börn. En þessi brtt. er borin fram af því, að þetta eftirlit n. hefir hér í Rvík reynzt gróflega erfitt fyrir kvikmyndahúsin. Ég hygg, að myndskoðunin hafi verið framkvæmd þannig, að úr n. hafi farið 2 og 2 menn saman og litið á myndirnar. Og viðkvæmnin hjá þessu fólki er svo mikil, að alveg hefir orðið að hætta að hafa barnasýningar. T. d. um það, hve viðkvæmnin er mikil, má benda á það, að myndina „Frænka Charlie's var bannað að sýna börnum. Cowboy-myndir líka, vegna þess, að þar er skotið úr skammbyssu. Litli og Stóri, sem ekki er ákaflega siðspillandi mynd eða stórbrotin, talin svo vafasöm, að líklega hefir það aðeins verið einn í n., sem óhætt þótti að leyfa að sýna hana vegna sálarlífs barnanna. Þetta hefir reynzt þannig, að mér er sagt, að orðið hafi að hætta við að hafa þessar sýningar. En aftur hafa verið teknar upp alþýðusýningar, því meira er upp úr þeim að hafa. En bíóstjórarnir hafa haft gaman af að gleðja börnin og viljað gera það þrátt fyrir tap af sýningunum. En nú hafa þeir orðið að fella sýningarnar niður fyrir þetta ákaflega nákvæma eftirlit með, að sálarlífi barnanna yrði ekki spillt með bíómyndum. Ég segi ekki, að ég lasti þetta, heldur er þetta að mínu viti einskonar of mikil viðkvæmni, að halda, að börn, sem sjá og heyra daglega fyrir sér allt það ljóta, sem gerist á götum bæjarins, verði fyrir svo miklum áhrifum af því, þó að þau sjái á mynd skotið úr skammbyssu. Ég veit það, að á bíómyndum getur verið það efni, sem börnum er mjög óhollt að sjá og því ástæða til að banna þeim það, t. d. þar sem drýgðir eru ýmiskonar glæpir eða strákapör af mikilli snilld, sem gerir börnin ákaflega hrifin, og þau gætu farið að bralla við að líkja eftir, og eins þegar verið er að sýna ákaflega hræðilega viðburði. En þótt einhver sjáist hleypa úr skammbyssu, þá er það allt of mikil viðkvæmni, að banna að sýna börnum myndina vegna þess.

Nú vilja bíóin þrátt fyrir þetta ekki mælast undan því, að eftirlit sé haft í þessu efni. En þau fara fram á, að til þessa verði skipaður sérstakur, valinn maður. Og þau fara fram á, að þótt þau ráði engu um val mannsins, þá verði til þess valinn einhver sá maður, sem ekki hefir neina sérstöðu eða sérkreddur, hvort sem heldur er í uppeldismálum eða trúmálum, heldur mundi dæma sem líkast því, sem almenningur í landinu mundi dæma. Bíóin hafa boðizt til að borga 5 kr. fyrir hverja mynd, sem skoðuð yrði á þennan hátt, og sjálfsagt er það algerlega nóg, því að ekki er það svo mikið verk.

Ég er bíóstjórunum sammála um það, að heppilegra sé að fela þetta starf einhverjum ákveðnum manni. Það getur vitanlega tekizt óheppilega til um val á honum. En miklu meiri líkur eru til þess, að einn maður, sem hefði þetta eftirlit með höndum, gæti aflað sér nauðsynlegrar þekkingar á þessum hlutum. Um það hefir verið mikið skrifað, hvað varast beri í kvikmyndum. Ég álít, að einn maður, sem skipaður væri til þessa eftirlits, gæti framkvæmt það með miklu meiri árangri og án þess að gera eins mikinn usla í bíóunum eins og ef það yrði framvegis um myndskoðunina sem verið hefir.

Það er út af þessu, sem ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 643, sem er um það, að kennslumálaráðherra skipi eftirlitsmann á hverjum þeim stað, þar sem bíó starfar, til þess að dæma um það, hverjar myndir skuli banna börnum að sjá, og að kvikmyndahúsin skuli greiða þessum eftirlitsmönnum.