11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

117. mál, barnavernd

Magnús Jónsson:

Það mun að vísu vera svo úti um land, að fáar myndir eru sýndar nema þær, sem fengnar hafa verið þangað gegnum Reykjavík, og væri því hugsanlegt að setja ákvæði um það, að þegar myndir eru skoðaðar hér, þá mætti sýna þær annarsstaðar á landinu án frekara eftirlits. Á hinn bóginn er ekki hægt að segja um það með vissu, nema kvikmyndahús úti um land kunni að fá myndir beint frá útlöndum, og þá get ég ekki viðurkennt, að barnaverndarnefndir séu hæfari til að dæma um þær myndir heldur en þær, sem hér eru sýndar.

Að setja barnaverndarráð að neinu leyti yfir eftirlitsmanninn með myndunum tel ég algerlega óþarft. Barnaverndarráðið er skipað börnunum til verndar og maðurinn sömuleiðis.

Ég held ekki, að sálarlíf barna mótist eins auðveldlega og nýtt smjör af því, sem fyrir kemur, heldur held ég, að eðli og upplag sé ríkara og ráði meiru, eins og dæmin sýna. Um þetta eru náttúrlega mismunandi skoðanir, og það hvetur mig til að sýna lipurð í þessu efni. En mér finnst það of mikil viðkvæmni að banna að sýna mynd vegna þess, að hægt væri að hugsa sér, að einhverjum manni kynni að bregða eitthvað við að sjá skotið úr skammbyssu.

Ég get gefið það eftir, að málið verði tekið út af dagskrá, svo framarlega að það komi svo fljótt aftur frá n., að víst sé, að það geti fengið afgreiðslu á þessu þingi.