24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (3338)

117. mál, barnavernd

Magnús Jónsson:

Ég vona, að samkomulag geti orðið um það að fresta málinu. Út af orðum hv. 1. þm. Skagf. vil ég taka fram, að ég hugsa mér, að þó sérstakur dómari verði í hverjum kaupstað, þar sem kvikmyndir eru sýndar, að þá verði þær myndir, sem álitnar eru óhollar sálarlífi barna og þess vegna dæmdar frá sýningu, stimplaðar með sérstökum stimpli, sem gildir fyrir allt landið. En ég hygg, að þetta megi allt eins leysa með einum eftirlitsmanni. Af því kynnu að stafa einhver sáralítil óþægindi fyrir kvikmyndahús úti um land. En hér er áreiðanlega margt það samþ., sem veldur meiri óþægindum. Kvikmyndahúsin yrðu aðeins að láta pantanir sínar ganga hér í gegnum Reykjavík. Og það væri áreiðanlega hægt að koma því svo fyrir, að kvikmyndahúsin hér leyfðu prófsýningar á þeim fyrir lítið eða ekkert verð.