30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (3353)

117. mál, barnavernd

Guðrún Lárusdóttir:

Síðan þetta mál var áður á ferðinni hér í hv. d. hefir það tekið nokkrum breyt. Í 1. gr. frv. er nú gert ráð fyrir, að kennslumálaráðh. fái heimild til að skipa eftirlitsmann, og annan til vara, til þess að líta eftir þeim kvikmyndum, sem börnum eru sýndar hér á landi, þar sem til næst. Það er að vísu ekki gert ráð fyrir, að þessi eftirlitsmaður skoði aðrar myndir heldur en þær, sem koma til Reykjavíkur, en þangað munu fyrst koma flestar myndir, sem sýndar eru á landinu. Hvað snertir þær myndir, sem kaupstaðir úti um land fá sendar beina leið, þá verður að sitja við þá skoðun, sem áður var lögboðin og barnaverndarnefnd á að hafa með höndum á hverjum stað.

Þó ekki sé farið lengra en þetta, hygg ég, að það verði til talsverðra bóta og að af því leiði meira samræmi í skoðun mynda en ella. Hygg ég því rétt að samþ. þessa breyt. Um aðrar breyt., sem í frv. felast, hefi ég áður látið skoðun mína í ljós, og tel ég þær allar til bóta. — Ætla ég svo ekki að lengja umr. meira um þetta þarfa mál.