27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér þykir leiðinlegt í svona góðu veðri, hve hv. 2. þm. Reykv. var í vondu skapi, þegar hann flutti þessa tölu og ég læt það ekki hafa áhrif á mig. Ég ætla ekki að smitast af honum, þótt hann helli úr skálum sinnar reiði. Ég læt mér í léttu rúmi liggja, þótt hann kasti að mér hnútum um fortíðina, mér kemur ekki á óvart, þótt hann kasti hnútum vegna þessa kreppufrv., því að sá hugur, sem hefir komið fram í garð bændanna í sambandi við norsku samningana, er þungur, og sem þessi hv. þm. fremur öllum öðrum þm. í þessari d. ber í garð bændastéttarinnar. Og þegar þessi hv. þm. er að tala um atkvæðaveiðar rétt eftir að norsku samningarnir hafa verið á döfinni, þar sem framkoma hans og hans flokksmanna var ekkert annað en atkvæðasmölun, þá kemur það úr hörðustu átt frá manni með aðra eins fortíð að baki í þeim málum og með því tillitsleysi, sem hann þá sýndi. Vísa ég þessum ummælum á bug, og það er honum ekki til nokkurs sóma að játa koma fram slíka ræðu og hann flutti hér síðast.