27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

167. mál, kreppulánasjóð

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Hér er þá lagt fram þetta mjög merkilega og stóra mál, sem vita mátti, að yrði eitt af viðfangsefnum þessa þings, að gera einhverjar ráðstafanir af hálfu hins opinbera til aðstoðar og hjálpar þeim, sem erfiðast eiga vegna fjárhagsörðugleika á voru landi nú. Og ég verð að segja, að mér þykir þetta mjög merkilegt plagg að mörgu leyti og þ. á m. hvað það sýnist vera róttækt. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir dm., að það eru ekki bændur einir á þessu landi, sem af því hafa hag og sem er það nauðsynlegt, að því sé veitt athygli, sem er í skýrslunni. Því að það er rétt og sjálfsagt, að þar er um hag allra landsmanna að ræða. Ber þess því fyrst og fremst að gæta, að hagur allra landsmanna sé augljóslega hafður fyrir augum, þegar þetta mál er afgreitt, en varast að taka afstöðu til þess með hag bændanna einna fyrir augum. Sé farið út fyrir þetta í verulegum atriðum um lausn málsins er viðbúið, að það verði öllum til tjóns.

Það sem verður fyrst fyrir hverjum þeim, sem les og athugar frv. á þskj. 444, er það, að í frv. er gert ráð fyrir því, að fyrir árslok 1934 skuli af hálfu ríkissjóðs lagðar fram 12 millj. kr. til að leysa þann vanda, sem þar er um rætt. Í huga mínum vaknar þá fyrst og fremst sú spurning, þegar farið verður að úthluta þessum 12 millj. kr.: Kemur þá ekki fram einhver annar vandi eða spursmál, sem þarf að sjá við eða athuga í upphafi? Og hér á ég við það, hvaða áhrif þessar ráðstafanir séu líklegar til að hafa á hag landsbúa yfirleitt. Og þá sérstaklega á verðgildi peninga og þeirra verðbréfa; sem eru í umferð innanlands. Það er jafnvel þýðingarmest að hafa fyrirfram tryggt verðgildi þeirra peninga, sem bréfin eru keypt fyrir. Af því að það verður að gera ríkisskuldabréfin að peningum.

Fyrsta spurningin er þá sú, hvað verður um verðgildi íslenzkrar krónu? Þessa spurningu vil ég biðja hv. flm. þessa frv. að athuga og gefa mér og hv. þd. upplýsingar um, hvaða grein þeir vilja gera fyrir þessu. Ef þetta mál nær fram að ganga, sem líkur benda til, hvaða áhrif mundi það hafa á verðlagið? Vill kreppunefndin gera svo vel og skýra það?

Í öðru lagi vildi ég mega spyrja, þar sem svo róttækar ráðstafanir virðist eiga að gera, fyrst og fremst til aðstoðar bændum og til fyrirgreiðslu þeim, sem eiga skuldir hjá bændum, er þeir þurfa að innheimta, aðrar en þær, sem tryggðar eru með fasteignaveðum, ég vil spyrja: má ekki vænta þess, að aðrir, sem hafa við samskonar erfiðleika að búa, fái einhvern hliðstæðan stuðning?

Mér koma til hugar t. d. þeir menn, sem hv. frsm. gat um, að felldir hefðu verið niður úr frv., af því að þeir lifa ekki eingöngu á landbúnaði, en stunda jafnframt aðra atvinnu og þurfa engu síður stuðning en bændurnir. Eða er það tilgangurinn, að þetta frv. nái svo langt, að veita þeim mönnum stuðning, sem fást við útgerð? Það er vitanlegt, að fjöldi útgerðarmanna eru álíka illa settir eins og bændurnir. Eru líkur til, að þeir geti einnig notið góðs af þessum lögum? Ég á ekki aðeins við smáútgerðarmenn, heldur ýmsa framleiðendur, sem eru búsettir í kaupstöðum og kauptúnum víðsvegar um land. Sjálfsagt hljóta allir að viðurkenna, að það muni vera heppilegast að veita öllum í einu lagi þessa nauðsynlegu aðstoð, það er að segja öllum framleiðendum í landinu.

Ég er hræddur um, að ef hv. n. getur ekki sýnt fram á það, að smáútgerðarmenn og framleiðendur í þorpum og kaupstöðum eigi líka að hafa gagn af þessum lögum, þá muni þeir koma á eftir, telja sig hafa verið afskipta, og krefjast samskonar stuðnings frá því opinbera. Þess vegna óska ég eftir upplýsingum um, hvort það eigi með þessu að veita öllum framleiðendum aðstoð, eða aðeins þeim, sem lifa eingöngu á landbúnaði. Ég er ekki frá því, að það megi með nokkurum líkum segja, að þetta frv. geti einnig komið hinum að nokkru gagni. En ég vil gjarnan fá að vita, með hverjum hætti það er hugsað, og óska ég að hv. n. geri grein fyrir, hvort hún ætlast til, að það gerist af sjálfu sér sem afleiðing af frv., eða hvort til þess muni þurfa sérstakar viðbótarráðstafanir í frv., og hvaða trygging sé þá fyrir því, að þær verði gerðar.

En svo er það ein spurning enn, sem mér hefir dottið í hug. Er nú kominn sá rétti tími til þess að gera þessar ráðstafanir? Er ekki unnt að fresta því um eitt ár eða svo? Verður ekki hjá þessu komizt lengur? Er það áreiðanlegt, að bændur geti ekki komizt á réttan kjöl aftur, nema þeim verði veitt þessi aðstoð nú? Mig langar að vita, hvort líkur séu til, að þeir þurfi á meiri hjálp að halda, og hvort ástandið versnar, ef þessu yrði frestað um 1 eða 2 ár.

Það er augljóst, að ef það reyndist svo eftir 1 eða 2 ár, að þessi aðstoð hefði verið óþörf, þá væri það vitanlega betra, að þetta spor hefði ekki verið stigið. — Ég er því principielt samþykkur, að ríkið veiti framleiðendum aðstoð til þess að komast fram úr núverandi örðugleikum, og að það geti komið að góðu gagni, ef það er viturlega gert, á réttum tíma og á réttan hátt.

Ég skal játa það, að í þeim skýringum, sem fylgja þessu frv., er mikill fróðleikur, og sýnilega hafa þær kostað mikla vinnu, en þær gefa mér ekki skýr svör við neinu af því, sem ég hefi hér spurt um. Þær upplýsingar, sem í þeim kunna að felast, eru annars eðlis en það, sem fyrir mér vakir í þessu sambandi. En svo er eitt enn: Væri ekki hægt að framkvæma þetta á miklu einfaldari hátt heldur en gert er ráð fyrir í frv.? Út í það atriði skal ég ekki fara frekar nú við þessa umr., af því að það er sérstaklega fyrirkomulagsatriði. En það er augljóst, að þetta er svo stórt og afdrifaríkt mál fyrir alla landsmenn, bæði þá, sem búa í sveitum og bæjum, að ef hægt er að benda á eitthvert atriði, sem komast mætti hjá eða sem leiddi það í ljós, að þetta sé ekki gert á réttum tíma og á réttan hátt, þá verður að athuga það nákvæmlega. Því að hvert misstigið spor í þessu vandamáli getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, öllum til tjóns. Af þeim ástæðum, sem ég hefi tilgreint, óska ég eftir frekari upplýsingum um þetta mál frá þeim mönnum, sem mest hafa um það fjallað og gert sér nánari grein fyrir því. Og vænti ég að þeir svari spurningum mínum skilmerkilega áður en málið verður afgreitt úr þessari þd.