27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

167. mál, kreppulánasjóð

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Þá er nú loks fram komið þetta frv., sem lengi hefir verið vísað til, um lausn á kreppuvandræðunum, og verð ég að segja, að mér hefir ekki enn unnizt tími til að athuga það svo vel, að ég sé búinn að skapa mér fasta skoðun um það. En sú úrlausn, sem í frv. er fólgin, snýr eingöngu að þeim þætti kreppunnar, sem veit að bændastéttinni, og þó aðeins skuldamálum bænda. Hinsvegar þykir mér þó rétt í þessu sambandi að benda á þau sinnaskipti, sem nú eru fram komin í þessu efni hjá hinum tveimur ráðandi flokkum þingsins síðan 1931. Ég minnist þess, að við Alþfl.menn fluttum á sumarþinginu 1931 frv. um sérstakar ráðstafanir vegna atvinnukreppunnar og afleiðinga hennar. Þær ráðstafanir voru miðaðar við þriggja ára tímabil. Í þessu frv. var gert ráð fyrir fjárframlögum til atvinnubóta, og ýmissa opinberra framkvæmda og til byggingarsjóða verkamanna. Þessi fjárframlög voru áætluð sumpart úr ríkissjóði, ca. 6½ millj. kr., sumpart atvinnubótalán, ca. 1½ millj. kr., í þriðja lagi frá sveitar-, sýslu- og bæjarfélögum, ca. 1½ millj. kr. og í fjórða lagi frá byggingarsjóðum og einstökum mönnum, ca. 1½ millj. kr. Hvorutveggja á móti framlögum ríkisins til atvinnubóta og verkamannabústaða. Samkv. frv. voru því samtals áætlaðar 11 millj. kr. til atvinnubóta að nauðsynlegum framkvæmdum. Þegar þetta kom fram, datt ofan yfir flesta þm. Þessa upphæð fannst þeim ómögulegt að leggja fram í þessu skyni, af því að hún væri svo gríðarlega há. Það mátti ekki nefna hana á nafn í sambandi við getu þjóðfélagsins, svo hneykslaðir voru hv. þm. þá yfir því. En eins og hv. 2. þm. Reykv. benti á í ræðu sinni, héldu ýmsir hv. þm. því fram á Alþingi 1931, að það væri engin kreppa hér á landi, og aðrir töluðu um, að það sæist einungis votta fyrir henni. Síðan eru nú liðin h. u. b. 2 ár. Og nú flytja þessir sömu þingflokkar frv. um að ráðstafa ekki 11 millj., heldur 12 millj. kr. til að greiða úr kreppuvandræðunum. Og þessi upphæð á ekki að koma frá fjórum aðilum, eins og ætlast var til í frv. okkar Alþfl.manna, heldur eingöngu úr ríkissjóði. Og það á ekki að ráðstafa þessum 12 millj. kr. til aðstoðar öllum almenningi í landinu, heldur aðeins ca. 1/3 hluta þjóðarinnar, bændunum. Þó verður að líta svo á, að ástæður séu harla ólíkar nú en þá var, að því er snertir tekjumöguleika ríkissjóðs. Samkv. fjárl.frv. stj. er tekju- og eignarskatturinn talinn 100% lægri nú en þá, og vöru- og verðtollurinn nálega þrefalt lægri en 1931.

Ég tel, að sinnuleysi þingflokkanna á þinginu 1931 sé nú að koma öllum landsmönnum í koll. Þess vegna verður nú að stofna til miklu dýrari ráðstafana gegn afleiðingum kreppunnar en ella, sem þó gera minna gagn en þær ráðstafanir, sem við Alþflmenn fluttum þá till. um. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. Ég gat þó ekki stillt mig um að gera nokkurn samanburð á þessu vegna þeirra umr., sem orðið hafa um kreppumálin. Og jafnframt vildi ég benda á það, sem nú liggur ljóst fyrir, að samkv. þessu frv. á að ráðstafa 12 millj. kr. úr ríkissjóði aðeins til hjálpar 1/3 hluta þjóðarinnar, bændunum. Það er 1 millj. kr. meira en við lögðum til 1931, að varið yrði til stuðnings öllum almenningi í landinu, og átti þá að greiðast af fleiri aðiljum; en nú er greiðslugeta ríkissjóðs a. m. k. tvöfalt minni en hún var 1931.

Ég saknaði þess mest úr ræðu hv. frsm., að hann skyldi ekki gera neina tilraun til þess að áætla, hvaða baggar væru bundnir ríkissjóði með þessu frv.; og í grg. frv. er enginn stafur, sem bendir til þess. Hvort það er látið ógert af ásettu ráði, skal ég engum getum leiða að. Gert er ráð fyrir, að samkv. 3. gr. frv. að gefa út skuldabréf, allt að 8 millj. kr., tryggð með ríkisábyrgð, og eru þau höfuðstóll kreppulánasjóðs, auk framlags þess, sem um getur í 2. gr., 2 millj. kr., er ríkissjóður leggur fram á árunum 1934—1940, og þeirra vaxtagreiðslna, sem búnaðarbankinn á að inna af hendi til ríkissjóðs á sama tímabili, er nema 2 millj. kr. Þetta eru samtals um 12 millj. króna. En hvað kemur svo heim aftur úr lánunum í ríkissjóð af þessum peningum? Um það er ekkert hægt að áætla nú. En eitt er víst, að það verður ekkert fyrr en eftir 1940.

Það virðist vera vendilega falið samkv. frv., hvað ríkissjóður á að leggja fram árlega og hvað þessar ráðstafanir í heild koma til með að kosta ríkið. Ég hefi reynt að gera mér lítilsháttar grein fyrir því. Og mér skilst, að samkv. 1. gr. frv. verði það 260 þús. kr. á ári í 7½ ár, eða samtals 1950 þús. kr. Samkv. 2. gr. 300 þús. kr. í 7 ár, samtals 2100 þús. kr. Vextir af 8 millj. kr. 360 þús. kr. í 6 ár, samtals 2160 þús. kr. Loks inndráttur bréfanna 200 þús. kr. í 6 ár, samtals 1200 þús. kr. Þetta eru 1120 þús. kr. árlega, samtals 7410 þús. kr. til 1940. Þessar 1120 þús. kr. verður ríkissjóður að leggja fram árlega til þessara ráðstafana af tekjum sínum, en hvað mikið það kann að verða eftir 1940 er ekki gott að segja, af því að það er ekki hægt að áætla, hvað mikið kemur inn aftur. Til þess að ríkissjóður verði skaðlaus, þarf hann að fá endurgreitt a. m. k. ½ millj. kr. árlega, 200 þús. kr. í afborgun og 300 þús. kr. í vexti og vegna inndráttar á bréfunum. Nú hygg ég, að það séu engar líkur til, að hægt sé að gera ráð fyrir þessu. Því að samkv. 25. gr. er ætlast til, að úr kreppulánasjóði sé stjórninni heimilað að leggja fram 1½ millj. kr. sem beinan styrk, en ekki lán, til ýmissa greina landbúnaðarins, þannig að öll lánsupphæðin svarar til 10½ millj. kr. Hér mega því ekki verða vanhöld á endurgreiðslum, en náttúrlega lækkar vaxtabyrðin árlega eftir því sem afborganir greiðast. Ég ætla því, að engum geti blandazt hugur um það, að þetta eru gífurlega mikil fjárútlát, sem ríkissjóði eru þarna bundin, þegar þess er gætt, að með þessu er ekki annað gert, eins og hv. frsm. réttilega tók fram, en að færa skuldirnar til, frá núverandi skuldareigendum og yfir á ríkissjóð. Hér er ekki gerð hin minnsta ráðstöfun til þess að gera afkomumöguleika landbúnaðarins betri, að undanteknu því, sem virðist hafa villzt inn í 25. gr., að heimilt sé að veita bændum styrk til að kaupa karakúlafé (MG: Er ekkert um kjötið?) Það stendur, að það megi veita bændum styrk, svo að þeir fái 60 aur. fyrir hvert útflutt kílogramm af I. og II. flokks dilkakjöti. Það er hreinn styrkur og er mótsögn við það, sem frsm. n. sagði, að bændur vildu ekki styrk og n. vildi ekki veita þeim styrk. Hér er um hreinan styrk að ræða, en snertir ekki framtíðarafkomu landbúnaðarins. Í þessu sambandi get ég ekki stillt mig um að taka upp ummæli hv. frsm. í sambandi við styrkveitingar til bænda: Ýmsir hafa viljað veita bændum styrk. Bændanefndin hefir verið þessu mótfallin. Bændanefndin treystir sér ekki til að mæla með styrk til bænda. Ég veit ekki, hversvegna hv. frsm. segir þetta; ég veit ekki, hvernig hann skilur íslenzkt mál, en verði þetta frv. samþ. á að veita bændum styrk, sem nemur um 7½ millj. kr. til ársloka 1940, og sé gert ráð fyrir, að þetta verði gert til þess að hjálpa 2 þús. bændum, er það ekki minna en 3750 kr. styrkur á hvern einstakan bónda, sem ríkissjóður leggur fram, og að segja samtímis og þetta frv. er flutt, að n. sé á móti því, að bændum sé veittur styrkur, er hið mesta öfugmæli. Ég skal játa, að ég er samþykkur því, að gerðar verði stórfelldar ráðstafanir til þess að bæta aðstöðu bænda, enda er það engin skömm fyrir bændastéttina frekar en aðrar stéttir, að þiggja styrk í sinni lífsbaráttu. — Ég hefi talið rétt að gera nokkra grein fyrir þeim böggum, sem ríkissjóði verða bundnir, ef þetta frv. verður lögtekið, umfram það, sem hv. frsm. taldi þörf á að gera í sinni ræðu. Það er ekki til neins að neita því, að hér er um stórfellda upphæð að ræða, sem ekki á að koma nema mjög takmörkuðum fjölda manna að notum, því eftir skýrslum n. eru það ekki nema um 2 þús. bændur af um 6½ þús., sem gert er ráð fyrir, að styrkja þurfi í þessum efnum. Það eru hvorki meira né minna en 3750 kr. á hvern einstakan af þessum bændum, sem ríkissjóður leggur fram til ársl. 1940 til þess að rétta hag þeirra. Í sambandi við störf n., sem án efa hafa verið mikil, og skýrslur hennar, sem að ýmsu leyti eru merkilegar og fróðlegar, hefði ég gaman af að fá nokkrar upplýsingar. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. frsm. geti svarað fyrirvaralaust, en mér þykir samt rétt að minnast á það. Fyrst vildi ég mega segja, að því fer fjarri, eins og hv. frsm. benti á, að þessar skýrslur munu ekki vera absolut réttar. Þau gögn, sem n. hefir haft til að vinna úr, eru fengin úr svo mörgum áttum og munu ekki að ýmsu leyti vera það ábyggilegar, að það sé mögulegt að semja skýrslur sem þessar þannig, að þær gefi réttar upplýsingar um hag bænda. Hitt er efalaust rétt hjá hv. frsm., að skýrslurnar sýna hag bænda ekki verri en hann er í raun og veru. Mér finnst, að n. hefði átt að athuga, hvernig skuldaskiptum bænda innbyrðis er háttað. Skuldir bænda við einstaka menn eru taldar að vera í skýrslunni um 7700000 kr. Það er enginn vafi á því, að býsna mikið af þessum skuldum eru skuldir bænda við bændur, og getur skipt nokkru máli að fá að vita, hvernig í þeim skuldaskiptum liggur.

Þá lét hv. frsm. þau ummæli falla í sambandi við ríkiseign á jörðum, að ýmsir vildu nota sér kreppuna til þess að svipta bændur óðulum sínum, þó að hann orðaði það ekki svo, og fullyrti, að hann væri sannfærður um, að sjálfsábúðin væri farsælust. Ég vil spyrja hv. frsm., hvaðan hann hafi þessa sannfæringu. Nú liggja fyrir skýrslur um efnahag bænda. Hefir hann athugað efnahag sjálfsábúðarbænda í sambandi við hag leiguliða, sérstaklega leiguliða á opinberum jörðum? Ég álít sjálfsagt, að þetta sé athugað, og vil mega vænta þess, að n., úr því að hún er að fella dóma í þessum efnum, hafi athugað þetta atriði og annað í sambandi við leigukjör á opinberum jörðum, því að það er á valdi þingsins að breyta þeim. Ég vil segja, án þess að ég skuli fara mikið út í þá sálma, að mér er kunnugt um, að fjöldi bænda er þeirrar skoðunar, að einlægasta leiðin til þess að leysa kreppuvandræði bænda yrði sú, að jarðirnar yrðu keyptar af bændum, greiddar með ríkisskuldabréfum, lögleiddum gjaldeyri til að borga skuldir svo og svo gamlar, eins og gert er ráð fyrir í frv. Eftir skýrslunum eru skuldir bænda 33 millj. kr. eða talsvert lægri en fasteignamatið á jörðunum í landinu. Ef jarðirnar yrðu keyptar af því opinbera og andvirðið notað til greiðslu á skuldunum, yrði heildarútkoman sú, að bændur ættu bústofn sinn í heild jafnvel skuldlausan og fengju sæmilega ábúð á jörðunum. Ég skal ekki fara frekar út í þessa sálma, því eins og sakir standa í hv. d. er þýðingarlaust að tala um þetta. — Ennfremur er eitt atriði, sem mér hefði fundizt mikil ástæða til að n. hefði athugað: Hvaða mismunur væri á hag bænda, þar sem kaupmannaverzlun hafi verið eingöngu eða kaupfélagaverzlun. Ef það skyldi sýna sig, að hagur bænda væri betri yfirleitt, þar sem önnur hvor teg. þessara verzlana er rekin, þá væri það vísbending um, hvora verzlunaraðferðina ætti frekar að styðja. Tveir af nefndarmönnunum hafa mikla trú á kaupfélagsskapnum, og er sennilegt, að þeir hafi notað aðstöðu sína til þess að fá einhvern fróðleik, sem geti haft mikla þýðingu fyrir afkomu bænda.

Ég get að nokkru tekið undir orð, sem hv. 4. þm. Reykv. lét falla, hvort nú sé heppilegasti tíminn til þess að gera bændurna upp, því að það, sem farið er fram á í frv., er í raun og veru ekkert annað en að á 18 mán. verði efnahagur bænda gerður upp, miðað við það, sem sjóðsstj. eftir atvinnuástandinu þykir fært að leggja á þeirra herðar. Ég er ekki viss um, að skynsamlegt sé að slá því föstu nú, þar sem vitað er, að allt er á huldu um okkar viðskipti út á við. Samningarnir við Breta eru ekki ennþá komnir á, og mér er sagt, að litlar horfur séu á, að þeim verði lokið að fullu meðan þetta þing sitji. (TrÞ: Það er víst). Hv. frsm. segir, að það sé víst, að samningunum verði ekki lokið, meðan þetta þing situr. Undir því að samningar takist fer að miklu leyti, hvernig afkoma landbúnaðarins verður, og hvort nokkurt vit er í því að reka landbúnað með það fyrir augum að flytja kjötframleiðsluna á erlendan markað. Með norsku samningunum, sem hv. frsm. er ákaflega upp með sér af, er landsmönnum tryggt að flytja út, fyrst ofurlítið meira, en síðar 6 þús. tunnur af kjöti árlega. Mér er sagt, að ef lægsti Ottawakvótinn væri látinn gilda fyrir okkur Íslendinga, væri kjötmagnið, sem við mættum flytja til Englands, svo lítið, að miðað við núverandi verðlag næmi andvirðið ekki nema 350 þús. kr. á ári. Það er að minni hyggju mjög svo vanhugsað að reka landbúnað í stórum stíl hér á Íslandi með það fyrir augum að framleiða kjöt til útflutnings, og við verðum nauðugir viljugir að reyna að sveigja landbúnaðinn inn á einhverjar aðrar brautir. Ég er ekki með neinar spásögur um, hvernig fer í þessum efnum, en slæ því föstu, að þetta er allt á huldu, og að það sé varhugavert að gera heildaruppgjör á bændum nú, meðan svo óvíst er um framtíðarhorfurnar. Því má ekki gleyma, að það er mikilsvert fyrir bændur að fá fasta samninga um skuldir sínar, en sölumöguleikarnir eru þó aðalatriðið. Í kreppufrv. því, sem við Alþýðuflokksmennirnir höfum borið fram, er ekki gert ráð fyrir heildaruppgjöri, heldur er gert ráð fyrir ráðstöfunum til þriggja ára til þess að fleyta mönnum fram þetta tímabil og sjá svo, hverju fram vindur; þó skal ég geta þess, að að sumu leyti mundi það vera jafnvel mikill fengur að fá þetta uppgjört fljótt og jafnvel strax, og tel ég, að það sé hægt einmitt á þeim grundvelli, sem lagður er í þessu frv. En það verður að gera á því nokkrar breyt. Í 19. gr. er gert ráð fyrir, að lausaskuldum sé breytt í þessi föstu kreppulánasjóðslán, sem heimilt er að veita til 42 ára; afborganir og vextir 5 af hundraði. Mun þetta svara til þess, að vextirnir séu eitthvað 3% p. a., en hitt færi í afborganir. Vextirnir eru þá helmingi lægri en almennir bankavextir eru nú og lánin veitt til 42 ára. Það segir sig sjálft, að þetta eru ódýrari og betri lán en hægt er að fá annarsstaðar, að undskildu því fé, sem Byggingar- og landnámssjóður ræður yfir. Þetta eru vildarkjör. Nú virðist mér, að ef þetta frv. yrði afgreitt, þá væri vel gerlegt að hafa þetta hundraðsgjald ekki fastákveðið, heldur breytilegt eftir því, hvernig verðlag á afurðum bænda væri, hækkandi, ef verðlag færi hækkandi, og hugsanlegur möguleiki er sá, að ef verðlag færi lækkandi, væri hægt að færa hundraðsgjaldið eitthvað niður á við. Ég skal einmitt benda á í þessu sambandi, að ef þetta er gert „absolut“, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá er framið stórkostlegt misrétti á fjölda manna. Við skulum taka t. d. bónda, sem á stórt bú, nýbyggð hús, stóra jörð, og að hann hafi lagt mikið í jarðabætur og annað þessháttar. Nú á að fara að gera þennan bónda upp, miðað við verðlag 5—6 kr. á dilk og verðlag á húsum. Það er á valdi sjóðsstj. að meta allt, sem er þáttur í framleiðslustarfseminni. Við skulum segja, að miðað sé við 5 kr. á dilk, og að bóndinn hefði ekkert af veðskuldum fyrir, svo að hann fengi afslátt af öllum skuldum, og skuldunum breytt í lán til 42 ára með 5% í vexti og afborganir, og ef hann hefði einhverjar veðskuldir, þá fengi hann t. d. 2/3 af sínum skuldum breytt í lán til 42 ára með 5% í vexti og afborganir. Nú skulum við segja, að verðlag færðist upp á við svipað því og það var 1930, dilkurinn kæmist upp í 10 kr., og þá er bersýnilegt, að þarna hefir þessum manni verið gefið stórfé. Hann er orðinn á okkar mælikvarða efnaður maður, ef hann hefir mikið undir höndum. Niðurstaðan verður sú, að kotbændurnir, sem lítið eða ekkert eiga til, fá mjög lítil fríðindi, en stórbændunum, sem eiga stórar jarðir, mikil bú og mikil hús, þeim verður gefið stórfé, ef verðlag fer hækkandi (MG: Stendur ekki eitthvað um þetta í frv.?). Það stendur í 2. mgr. 19. gr. með leyfi hæstv. forseta: „Þó skal það áskilið, að ef efnahagur lántakanda breytist svo, að honum verði auðvelt að greiða lán sitt á skemmri tíma, að dómi sjóðsstjórnar, þá geti hún gert honum að greiða hærri afborganir af láninu“. „Hærri afborganir“ þýðir, að hann eigi að borga lánið fyrr upp; borga það á skemmri tíma. (MG: Þetta er enginn munur). Það er það sorglega við þetta, að ef við lítum yfir bændastéttina í landinu, þá eru sumir hverjir þeir bændur verst staddir, sem mest hafa undir höndum, sem hafa byggt stærstu húsin, ráðizt í mestu jarðabæturnar og hafa 300—400 fjár. Ef þeir eru gerðir upp, miðað við 5 kr. á dilk, og verðlag fer síðan upp á við, þá er búið að gefa þessum mönnum tugi þúsunda, en kotbóndinn, sem lítið hefir á milli handanna, fær ekkert eða sama og ekkert, og þessar „gjafir“, ef verðlag breytist á þennan hátt, eru teknar af landsmönnum öllum með sköttum og skyldum, af verkamönnum, sjómönnum og fátækum útgerðarmönnum, sem berjast í bökkum. Ég tel, að það mætti setja undir þennan leka með því að hafa hundraðsgjaldið breytilegt eftir verðlaginu. Það verður að vera trygging fyrir því, að einstökum mönnum séu ekki gefnar stórgjafir að þarflausu. Ég tel fráleitt að samþ. frv., að 19. gr. óbreyttri. Skal ég ekki fara nánar út í það að þessu sinni, en ég geri ráð fyrir, að síðar verði rætt um þetta atriði sérstaklega. Það er annað höfuðatriði í þessu frv., sem ég hefi á móti, en náttúrlega á ekki n. sök á því, heldur fyrst og fremst hæstv. stj., því að verkefni n. var, eins og hv. frsm. gerði grein fyrir, mjög skýrt ákveðið með skipunarbréfi stj., og ég geri ráð fyrir, að hún hafi fylgt því. Það, sem ég á við, eru ákvæði 4. gr., sem ég vil leyfa mér að lesa upp með leyfi hæstv. forseta: „Fé sjóðsins skal varið til lánveitinga handa bændum og öðrum, er reka landbúnað sem aðalatvinnuveg, með þeim nánari skilyrðum, er í lögum þessum greinir“. Þ. e. a. s. að kreppulánasjóðurinn, sem ekki er kallaður kreppulánasjóður bænda, er eingöngu hugsaður til styrktar bændum, engum öðrum en þeim, sem hafa helming eða meira af tekjum sínum af landbúnaði. Ég skal geta þess, að þetta hefir verið rætt á einum fundi í kreppunefnd, og þá var gert ráð fyrir, að frv. næði einnig til sveitapresta, og „mótiveraði“ einn nefndarmanna það þannig, að þetta væru „bændur“, „sem rækju prestskap“, þó að þetta væri sagt í spaugi. Mér finnst það höfuðgalli á frv., að það er eingöngu miðað við bændur. Ég tel einmitt þörf á að setja löggjöf, svipaða þessari, sem nái til miklu fleiri manna en bænda. Ég tel, að hjá smáútgerðarmönnum, sem ekki hafa átt jafngreiðan aðgang að fasteignalánum eins og bændurnir, sé a. m. k. jafnrík þörf í þessum efnum. Eins þýðingarmikið og það er fyrir bóndann að geta haldið jörð og búi til þess að geta séð fyrir sér og sínu fólki, eins þýðingarmikið er það fyrir smáútgerðarmanninn að geta haldið sínum bát. Ef bændur eiga rétt á stuðningi, þá eiga smáútgerðarmenn sama rétt og sömu kröfu til þjóðfélagsins í þessum efnum, og það sem sagt hefir verið um bændur og smáútgerðarmenn, gildir einnig um handiðnaðarmanninn, sem berst í bökkum vegna kreppunnar. Ef hann er sviptur sínum áhöldum, þá er hann eins settur eins og bóndinn, sem er sviptur jörð og skepnum. Hann verður að bætast í hóp atvinnuleysingjanna, ef hann getur ekki fengið daglaunavinnu hjá öðrum. Þetta gildir einnig um þá verkamenn, sem hafa eignast fasteign til eigin nota, verkamenn, sem hafa lagt upp af kaupi sínu 1—2 þús. kr. og hafa með því móti getað eignazt hús yfir höfuð sér. Ef verkamaðurinn þarf að ganga atvinnulaus svo mörgum mánuðum skiptir á hverju ári, þá hefir hann ekki fé yfir að ráða til þess að geta greitt vexti og afborganir, og það getur orðið til þess að gera hann ósjálfbjarga mann. Hann á nákvæmlega sama rétt eins og bóndinn til þess að fá styrk eða hjálp frá því opinbera. Ég verð að segja, að mér finnst það ósæmilegt af hæstv. stj., að þegar hún ber fram svo stórfellt frv. og þetta og þegar hér er farið fram á svona mikil útgjöld úr ríkissjóði til styrktar tiltölulega fáum mönnum, þá skuli hún ekki samtímis því a. m. k. benda á ráðstafanir til þess að hjálpa mönnum í öðrum stéttum, sem við hliðstæðar kringumstæður búa. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða munur finnst þeim á því, að smáútgerðarmaðurinn þurfi að ganga frá bát sínum og öðru því, sem honum fylgir, sem eru hans starfstæki og möguleikar til að geta séð fyrir sér og sínum og að taka jörðina af bóndanum? Enginn! Eða taka húsið af verkamanninum, svo að hann þurfi að leigja dýrara og verra húsnæði hjá öðrum, og það geti kannske alveg útilokað hann frá því að vinna fyrir sér? Ég tel því, að höfuðbreyt., sem þurfi að gera á þessu frv., sé að breyta ákvæðum 4. gr., þannig að þau nái til fleiri manna en bænda, þeirra, er svipaða aðstöðu hafa. í öðru lagi, að sú hundraðstala, sem mönnum yrði gert að greiða, yrði ekki fastákveðin, heldur breytileg eftir verðlaginu. Annars verð ég að segja það um 25. gr., að mér finnst hún koma eins og skollinn úr sauðarleggnum. Ég vil skjóta því til hæstv. stj., hvort hún vilji ekki semja sérstakt frv. um það, sem í þessari grein felst.

Ég skal ekki fjölyrða um þau ummæli, sem hæstv. atvmrh. og hv. frsm. létu falla um hug okkar Alþýðuflokksmanna til bænda. Ég verð að segja, að mér þætti fróðlegt að heyra það frá hv. frsm. og hæstv. ráðh., hvað við höfum unnið bændum til óhags á þingi. Hefi ég áður unnið með hv. frsm., og fór hann þá lofsamlegum orðum um þá hjálp, sem við hefðum veitt Framsóknarflokknum. (TrÞ: Þau orð tek ég ekki aftur).

Í sambandi við nefnda samninga verð ég að segja það, að ég held, að hv. þm. Str. og hæstv. atvmrh. séu svona viðkvæmir fyrir málinu, af því að þeir finna, að þeir hafa ekki verið að vinna fyrir bændur með samþykkt samningsins. Svo hvumpnir eru þeir, að þeir kippast við hvenær sem samningurinn er nefndur, og ber það vitni um vonda samvizku.

Í sambandi við orð hæstv. ráðh. og frsm. um ráðstafanir vegna kreppunnar, um atvinnubætur og slíkt, vil ég spyrja hæstv. atvmrh., hvort það hafi verið rétt tekið eftir hjá mér, að hann segðist ekki tala fyrir munn stj., þó að hann teldi sjálfur æskilegt, að stj. gæti varið nokkru fé til atvinnubóta. Finnst mér þetta loðin ummæli og lítilsverð. Þegar farið er fram á svo stór fjárframlög sem í þessu frv., lætur hæstv. ráðh. sér sæma að vera í vafa um það, hvort ástæða sé til að óska heimildar fyrir stj. til atvinnubóta. Veit ég ekki, hvað er óheppilegra en það, ef stj. lítur svo ólíkum augum til hinna ýmsu stétta manna. Það á að leggja fram til þess að hjálpa 2000 bændum, en að það gæti verið æskilegt að hjálpa eitthvað upp á atvinnuleysingjana, á því hefir minna borið. Á síðasta vetri voru meira en 3000 atvinnuleysingjar í kaupstöðum landsins, og er það þriðjungi meira en tala þeirra bænda, sem hér er um að ræða. Þá er rétt ástæða til að athuga, hvort rétt sé að hjálpa. Ég á ekkert orð til yfir slíkt. Sýnir það svo ferlegt skilningsleysi á ástandinu í landinu. Hæstv. ráðh. gat um það fyrir nokkru, að fjvn. hefði hækkað framlagið til vegabóta, til þess að bæta úr atvinnuleysinu. En síðan var stj. heimilað að taka 25% aftur af fénu til verklegra framkvæmda og er það miklu meira en þessi viðbót fjvn. (TrÞ: Sú ósk kom ekki frá stj.). Kom hún frá hv. þm. Str.? (TrÞ: Já). Verði honum að góðu!

Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en þetta tvennt er það, sem ég hefi aðallega við frv. að athuga: annað það, að miða þessa fjárhagslegu hjálp einungis við bændur, og hitt, að binda þetta við svona ákveðinn tíma. Þessar rannsóknir á hag bændanna eru góðar út af fyrir sig, en þær eiga jafnframt að vera undirstaða undir fjölþættari rannsókn. — Af okkar hálfu nýtur frv. fulls velvilja.