06.05.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

167. mál, kreppulánasjóð

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Hv. 4. þm. Reykv. talaði sérstaklega um það, hvort réttur tími væri til að gera þá ráðstöfun, sem hér liggur fyrir. Ég lít svo á, að það muni ekki vera til bóta að draga þessa ráðstöfun. Fyrir svo mikilsverðan atvinnuveg sem landbúnaðurinn er skiptir miklu máli, að þeir, sem hann reka, missi ekki móðinn, en það myndi verða, ef ekki væru gerðar einhverjar stórfelldar ráðstafanir. Myndu þá bændur leita frá landbúnaðinum og flýta sér í atvinnuleysingjaherinn í kaupstöðunum. Væru bæjabúar sízt að bættari, ef þeir yrðu að taka á sig þær byrðar, er af því myndi leiða. Ef bændum er haldið í fjárhagskreppu þeirri, sem þeir eru nú i, óttast ég, að þær miklu skuldir, sem á þeim hvíla, muni hafa alvarleg áhrif á viðskiptasiðferði þeirra. En hingað til hefir það sízt staðið að baki viðskiptasiðferði annara stétta.

Þá vil ég víkja nokkuð að ræðu hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Seyðf. Hv. 2. þm. Reykv. bar ekki á móti því, sem ég sagði áður, að ráðstafanir þings og stj. hafi orðið verkalýðnum til bóta. Hann bar ekki á móti því, að það myndi auka atvinnu þeirra, sem við sjó búa, ef eitthvað væri bætt fyrir bændum, svo að þeir gætu greitt verkafólki kaup. Hann bar heldur ekki á móti því, að á þessu þingi hefði verið aukið að nokkru fjárframlag til vegagerðar og farið fram á lánsheimild til vega og brúa. Hann benti að vísu á, að stj. væri veitt heimild til þess að lækka þau útgjöld, er ekki væru lögboðin, um allt að 25%. En stj. hafði ekki sjálf borið fram ósk um þá heimild. Hún hefði fremur kosið, að hv. d. hefði sýnt meiri gætni í afgreiðslu fjárl. að öðru leyti.

Stj. hefir virzt heppilegra að verja fé til vegavinnu og framkvæmda, sem ekki krefjast mikils útlends gjaldeyris, en að verja því í opinberar byggingar og því um líkt, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að stj. hefði vanrækt. En meðan svo mjög stenzt á um tekjur og gjöld ríkisins, hefir stj. ekki séð sér fært að ráðast í framkvæmdir, sem engin fjárlagaheimild liggur fyrir um.

Hv. þm. Seyðf. tók á mælsku sinni og sagði, að ég hefði kveðið varlega að orði um, að það mundi athugað áður en afgreiðslu fjárl. væri lokið í Ed. að fara þar fram á heimild til þess að verja fé til atvinnubóta í kaupstöðum. Það er rétt, að ég hafði þarna fyrirvara, en það eru jafnaðarmenn, sem sök eiga á þeim fyrirvara. Ég vildi hafa hann, þangað til nánari upplýsingar væru fengnar um afstöðu flokks þeirra til frv.

Hv. þm. Seyðf. lýsti yfir því, að hann væri vingjarnlega sinnaður í garð þessa frv. Ég lýsi þá líka yfir því, að ég mun sýna þeim till., er hann bar fram um heimild til atvinnubóta í kaupstöðum, vingjarnlegan hug í sama mæli og hann sýnir sig í því að vera vinveittur ráðstöfunum til hjálpar bændum.