07.05.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

167. mál, kreppulánasjóð

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það er rétt, eins og margir hafa þegar tekið fram, að hér er stórt og merkilegt mál á ferðinni, og er sjálfsagt að taka því með tilhlýðilegum velvilja og athugun. En ég vil taka undir þær raddir, sem fram hafa komið, sem eru á þá leið, að frv. þetta sé einhliða lausn á vandræðunum, — ég vil ekki segja að það sé engin lausn, en langt frá því að vera til fullkominna bóta. Þó er rétt að minnast þess, að það er ekki sú nefnd, sem hér er að störfum, sem verður sökuð um það, þó að frv. taki aðeins yfir einn hóp manna í landinu, sem sé bændurna, heldur er svo til þess stofnað af hálfu hæstv. stj. Nú hlýtur hæstv. ríkisstj. að vera það vitanlegt, jafnt og henni er það vitanlegt, að mikil vandræði eru hjá bændum, að það er langt frá því að vera vandræðalaust hjá öðrum mönnum í þjóðfélaginu. Það hefir verið minnzt á ýmsar stéttir manna í landinu í þessu sambandi. Ég vil þá lítilsháttar minnast á þá stétt manna, sem mér stendur næst. Það eru útvegsmenn. Mér þykir að vísu nokkuð þröngt til orða tekið, þegar talað er um útvegsmenn, að aðeins sé talað um smáútvegsmenn. Enda tel ég vísast, að þeir, sem tala um það, viti ekki gerla, hvar línuna á þar að draga. En hitt er víst, að bátaútvegurinn hefir lengi orðið við örðug kjör að búa. Og það er nokkuð víst, að einmitt þessi atvinnugrein hefir ekki notið þess stuðnings hjá undanfarandi stjórnum, sem hún hefði átt skilið, og ég vil bæta því við, að framsóknarstjórnin stendur í skuld við þessa atvinnugrein. Á þingi 1932, þegar stofnað var til banka fyrir bændur, lofaði forsrh. þáverandi, núverandi þm. Str., beinlínis í þessari hv. d., að það skyldi verða gerð ráðstöfun til þess að koma upp samskonar stofnun fyrir bátaútveginn, og þá peningastofnun, sem þá var um að ræða fyrir landbúnaðinn. Þetta loforð er ennþá óuppfyllt. (TrÞ: Ekki nema að nokkru leyti). Það hefir ekki verið haldið. Ég tel ekki, að myndun Útvegsbankans á rústum Íslandsbanka hafi leyst úr þessum vanda frekar en áður var. (TrÞ: En fiskveiðasjóðurinn?). Fiskiveiðasjóðurinn, segir hv. þm. Str. Það hafði að vísu, eftir mikið nudd, af þáverandi stjórnarandstæðingum tekizt að fá lítilsháttar bót á fiskiveiðasjóðnum. En því skammrifi, sem þá var rétt að sjávarútveginum, fylgdi sá böggull, að nýir skattar voru lagðir á útflutningsvöru sjómanna. Þetta mun hæstv. núverandi forsrh. vel kunnugt, því að hann hugðist þá að leysa þá agnúa, sem þóttu vera á frv. sjálfstæðismanna að því er snerti sjóveð, með því að leggja nýja skatta á sjávarafurðirnar, sem rynni í sjóð, til þess að vinna bug á því ákvæði að heimta ávallt fasteignaveð, þegar lán var veitt úr sjóðnum. (TrÞ: Það var aðeins heimtuð viðbótarprósenta af veittum lánum úr sjóðnum 1/8). Það var aukin álagning engu að síður. Og það var bent á það, að eins og fiskiveiðasjóðurinn hagaði sínum lánveitingum áður með því að vilja ekki veita lán nema gegn fasteignaveði, þá kom sjóðurinn ekki að notum fyrir þá, sem mest þurftu hans með. En það eru þeir, sem ekki hafa fasteignir á reiðum höndum til þess að veðsetja. Þessi tilraun fyrrv. stj. og núverandi forsrh., um að leysa þennan vanda með þessari aukaprósentu, hefir alveg mistekizt. Mér er ekki kunnugt um annað en að stjórn fiskiveiðasjóðsins, það er að segja stjórn Útvegsbankans, fylgi alveg sömu kröfum nú eins og áður að því er snertir lán úr honum.

Í þessu frv. er m. a. ákvæði um það, að tryggja bændum lágmarksverð fyrir vissan hluta af sinni vöru. Ég er ekki að lasta þetta, en ég vil leyfa mér að leggja þá spurningu fyrir hv. frsm. og hæstv. stj., hvort þeir séu við því búnir að gera eitthvað svipað fyrir bátaútveginn. Eru þeir við því búnir að tryggja einhvern hluta af fiskiframleiðslu landsins á sama hátt og hér er ætlazt til, að gert verði, að því er landbúnaðarafurðir snertir? Hefir stjórnin nokkuð á takteinum til þess að greiða úr vandræðum bátaútvegsins? Það var alveg rétt fram tekið hjá hv. þm. Seyðf., að það horfir jafnörðuglega við hjá bátaútvegsmönnum að missa sína báta vegna skulda, eins og hjá bændum að missa jarðir sínar eða áhöfn. Í báðum tilfellunum eru framleiðslutækin úr höndum mannanna og þar með bjargráðin, a. m. k. í bili, horfin. Þó má ekki skilja orð mín þannig, að ég álíti, að ekki sé þörf á því að hjálpa bændum. Ég er viss um, að þess er mikil þörf, og ég er reiðubúinn að styðja að uppfyllingu þeirra þarfa. En ég vildi aðeins vekja athygli hv. d. á því, að þörfin er víðar. Og þegar svona róttækar og stórfelldar till. er lagðar fram að því er snertir annan aðalatvinnuveg landsins, þá fer ekki vel á því, að ekki sé neitt gert til þess að leysa vandræði hins atvinnuvegarins, sem hér er sjávarútvegurinn. Það er þó vitanlegt, að á þeim atvinnuvegi hvíla, ef svo má að orði kveða, öll fjárframlög þessarar þjóðar. En það hefir einkennt þær stjórnir, sem við höfum haft nú um nokkur síðustu ár, að þær hafa ekki lagt aðra eins rækt við að leysa vandamál sjávarútvegsins eins og vandamál landbúnaðarins. En þetta þarf, ef vel á að vera, hvorttveggja að fara saman, að ógleymdum hinum aðiljunum, sem líka hefir verið minnzt á, verkamönnum og iðnaðarmönnum. Þegar nú loks eftir langa bið, og farið er að síga á síðari hluta þings, að kreppumálin birtast, eða úrræði til þess að leysa úr þeim, þá er það aðeins ein einasta stétt landsins, sem hæstv. landsstj. virðist hafa augun opin fyrir. — Hér á þingi er einhversstaðar á ferðinni till. um það að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum. Hér eru líka nýkomnar fram frá stjórninni svo róttækar skattatillögur, að slíkt hefir ekki sézt áður hér á þingi. Það var vakið máls á því á síðasta þingi, að stj. gerði ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við rekstur þjóðarbúsins. Um þetta mál urðu allmiklar umr. og ég varð ekki var við annað en að stj. vildi láta gera ráðstafanir í þá átt, þó hún væri ekki sammála mér og öðrum, sem fluttu þetta mál. Hvað hefir svo skeð? Hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir? Hefir nokkur af hinum óþörfu ríkisstofnunum verið lögð niður? Hafa verið gerðar tilraunir til þess að koma meiri jöfnuði á laun þeirra manna, sem vinna fyrir borgun af opinberu fé? Ég hefi ekki orðið var við nein tilþrif í því efni hjá hæstv. stj.

Ég býst við því, að við þetta frv., sem hér liggur fyrir, komi brtt. í þá átt, að teygja að einhverju leyti þá hjálp, sem á að veita, til fleiri aðilja en nú er gert ráð fyrir eftir frv.

Um leið og ég lýsi því yfir, að ég er fylgjandi því, að bændum sé hjálpað eftir ýtrasta megni, þá lýsi ég því jafnframt yfir, að ég vil styðja hverja þá tilraun, sem miðar að því, að gera meiri jöfnuð á þessa hjálp og sem miðar að því að hjálpa fleirum, sem hjálparþurfar eru, en þessu frv. nú er ætlað að ná til.