27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (3371)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hafa verið fluttar allmargar ræður síðan ég talaði áðan, og yfirleitt má n. vera ánægð með þær undirtektir, sem þetta mál hefir fengið hjá þeim hv. þm., sem hafa tekið til máls. Þess vegna þarf ég ekki að segja nema örfá orð.

Aðallega hafa tekið til máls hv. þm. Vestm. og hv. þm. Seyðf., fyrir utan hæstv. ráðh. Eru það aðallega þeir hv. þm. Vestm. og hv. þm. Seyðf., sem ég þarf að snúa máli mínu til. Hv. þm. Seyðf. minntist á mörg einstök atriði í frv., sem mér virðist frekar eiga við að ræða við 2. umr. En það vill nú svo vel til, að hv. þm. Seyðf. á sæti í þeirri n., sem þetta mál fær til meðferðar, og þykir mér það skynsamlegri vinnubrögð, að hann ræði um það við okkur meðnefndarmenn sína a. m. k. fyrst í nefndinni, en að fara nú inn á þau atriði frv. við þessa umr., og þess vegna er ekki ástæða til þess nú að fara inn á einstök atriði frv., af því að þau verða meira og minna tekin til athugunar í n.

Út af því, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að hann hefði vænzt þess, að ég hefði gefið frekara yfirlit yfir þann kostnað, sem af þessu leiddi fyrir ríkið, og hvaða léttir þetta yrði fyrir landbúnaðinn, þá vil ég taka það fram, sem ég raunar gerði í framsöguræðu minni, að ég teldi rétt, að gerð yrði nánari grein fyrir því við 2. umr., þegar n. er búin að fara höndum um það, og hvaða till. hún vill taka.

Hv. þm. sagðist taka þessu vinsamlega, og vona ég því, að við getum unnið saman í n.

Hv. þm. Vestm. kom með fyrirspurn til n. um það, hvort n. vildi bera fram till. um lágmarksverð á útfluttum fiski. Það atriði skal verða tekið til athugunar í kreppunefndinni. Annars geri ég ráð fyrir, að það komi fram í grg. fyrir frv., að það atriði, að tryggja bændum lágmarksverð á kjöti, er sett inn í frv. af hæstv. stj. Hæstv. atvmrh. setti það inn í frv., og mér hefir ekki gefizt tími til þess að athuga það sérstaklega, þó ég búist við, að nokkrar breyt. þurfi að gera á því. Er ég þess vegna ekki við því búinn að ræða það að svo stöddu, en það mun verða tekið til athugunar í kreppun.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta öllu lengur, og geri ég ráð fyrir, að málið verði afgreitt til 2. umr.