05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (3380)

167. mál, kreppulánasjóð

Haraldur Guðmundsson:

Eins og háttv. frsm. benti á, þá er máli þessu ekki lengra komið en svo, að ekki er annað sýnna en að aðal umr. um það verði við 3. umr. Brtt. þær, sem n. ber fram, eru flest lagfæringar og orðabreyt. á frv., að undantekinni 1. og 16. brtt.

Um brtt. mínar hefir n. ekki tekið afstöðu ennþá, og sama er um brtt. háttv. 1. þm. Eyf.

Eins og ég þegar hefi tekið fram, er það sýnt, að ýms höfuðatriði máls þessa verða að bíða til 3. umr., þ. á. m. t. d. ákvæðið um stjórn sjóðsins. Mun ég því ekki fara að ræða um einstök atriði þess á þessu stigi. En almennt vil ég segja það um málið, að því fer fjarri, að þetta sé bjargræði fyrir bændur út úr kreppunni. Ef það er meint, að í því felist ráðstafanir til þess að létta undir með bændum í framtíðinni vegna þunga kreppunnar, þá er það misskilningur.

Það er vitanlegt, að bændur eiga við að búa margvíslega örðugleika vegna kreppunnar, og þyrfti því að gera mjög víðtækar ráðstafanir, ef verulega ætti að létta undir með þeim. Það, sem í frv. þessu er farið fram á að gera, er aðeins einn þáttur af mörgum. Það á að gera upp skuldir bændanna. Breyta lausum skuldum þeirra í hagkvæmari lán og strika sumt út. Ég játa fúslega, að þessar ráðstafanir séu réttmætar, þó orkað geti tvímælis, hve mikið skuli leggja í þetta.

Hingað til hefir það verið svo, hvað aðra snertir, að lánardrottnarnir hafa sjálfir orðið að gefa eftir og strika út hjá skuldunautum sínum. Að þessari sérstöku aðferð á að beita hér réttlætist með því, hversu mikill fjöldi manna er að lenda í greiðsluþroti.

Í þessu sambandi virðist vera rétt að gera sér grein fyrir því, af hverju í raun og veru öll þessi vandræði landbúnaðarins stafa. Það skyldi enginn halda, að þau stöfuðu af kreppunni einni saman. Því verður nefnilega alls ekki neitað, að á síðari árum hefir fé verið veitt til landbúnaðarins í hreinustu blindni og aðgæzluleysi. Það hafa t. d. verið byggðar dýrar byggingar á lélegum kotum, alveg án tillits til þess, hvort býlum þessum væri mögulegt að skila fénu aftur samhliða því að veita búendunum sæmilegt lífsuppeldi fyrir sig og sitt fjölskyldulið.

Það er enginn vafi á því, að sú mikla dreifing á lánsfé til landbúnaðarins, sem átt hefir sér stað á undanförnum árum hér á landi út um allar byggðir, hefir verið mjög misráðin. Það hafa verið veitt lán til ræktunarframkvæmda, þar sem litlir og erfiðir markaðsmöguleikar hafa verið fyrir hendi, og til dýrra bygginga, er reistar hafa verið á jörðum, sem fyrirsjáanlegt hefir verið, að aldrei mundu geta staðið undir þeim kostnaði. Við alþýðuflokksmenn höfum alltaf varað við í þessu efni, við höfum haldið því fram, að fénu, sem veitt væri til landbúnaðarins sem lán eða styrkir, ætti fyrst og fremst að beina þangað, sem skilyrðin væru bezt fyrir hendi bæði með samgöngur og markaðsmöguleika, en það er í grennd við kaupstaðina og þar sem þéttbýli er mest. Við höfum viljað láta lánsféð verka eins og þegar steini er kastað í vatn og mest verður hreyfingin umhverfis þann stað, þar sem steinninn kemur niður, en síðan falla öldurnar út til allra hliða. Í stað þess hefir lánsfénu verið dreift án þess að nokkurt tillit væri tekið til skilyrðanna, og ég hygg, að einmitt þeir erfiðleikar, sem margir bændur eiga nú við að stríða, stafi í mörgum tilfellum öllu frekar af þessu heldur en að þeir séu bein afleiðing af kreppunni. Það er kunnugt, að á mörgum stöðum hefir fénu verið varið þannig, að vonlaust er, að bændur hefði undir lánunum risið, þó engin kreppa hefði komið. Ég skal taka það fram, að í frv. er gert ráð fyrir, að úthlutun á fé kreppulánasjóðs verði nokkuð með öðrum hætti en tíðkazt hefir um fé til landbúnaðarins. Það er ætlað í frv. að setja undir þennan leka með því við lánveitingar að taka tillit til aðstöðu lánþega, bæði hvað snertir samgöngur, framleiðslumöguleika og markað fyrir framleiðsluna.

Þá er það annað atriði, sem ég vil líka vekja athygli á og ég drap lauslega á við 2. umr., og það er, að ég tel það ákaflega hæpið að velja þennan tíma til þess að gera upp efnahag bænda, þegar verðlag allt og verzlunarhorfur er svo mjög á reiki, sem raun er á. Ef framhald verður á kreppunni með þeim hömlum, sem þjóðirnar leggja á frjálsa verzlun með innflutningsbönnum og tollum, þá fæ ég ekki betur séð en að afleiðingin verði sú, að óhjákvæmilegt verði fyrir íslenzka bændur að breyta stórkostlega til um búnaðarháttu, en það kostar mikið fé, og þá væri illa farið, ef nýbúið væri að binda stórmikið fé í þeim fyrirtækjum, sem þá reyndist, að enga framtíð ættu. Ef kjötútflutningur okkar nemur ekki nema svo sem 700 þús. kr. á ári, þá er það bersýnilegt, að landbúnaðurinn á enga framtíð fyrir höndum með það fyrir augum að selja kjöt til útlanda. Þá verður að breyta honum í það horf, að framleiðsla hans sé miðuð við innlendan markað, og það heimtar óumflýjanlega fullkomna vinnslu á framleiðslu landbúnaðarins, en slíkar breyt. kosta mikið fé, og það fé verður erfitt að fá, ef þá verður nýbúið að láta það í kreppuráðstafanir fyrir þennan sama atvinnuveg. Loks er vert að gæta þess, hve ákaflega er dýr búrekstur í hinum dreifðu byggðum, það útheimtir margfalt dýrari vegi og síma heldur en þéttbýlið, þar er miklu torveldara og dýrara fyrir bændurna að nota hin hagkvæmustu landbúnaðarverkfæri og vélar heldur en í þéttbýlinu, af því að svo erfitt er að flytja þau á milli. Persónulega lít ég svo á, að óhjákvæmilegt verði annað en að færa byggðirnar saman, ef þessi atvinnugrein á að rétta við, en það kostar enn nýtt fé, og hugsi menn til að stuðla að því, að það megi verða, þá má ekki vera búið að binda allt hugsanlegt fé í þessum fallna atvinnuvegi áður. Ég skal viðurkenna, að það er fyllilega réttmætt og nauðsynlegt að gera upp þessar gömlu skuldir, en hvað mikið hið opinbera á að leggja fram til þess, á að vera komið undir mati þingsins fyrst og fremst og svo sjóðsstjórnarinnar, en það má ekki ímynda sér það, að þó skuldamálin verði leyst, þá séu öll vandræði bænda þar með úr sögunni. Annað er enn þýðingarmeira fyrir hag bænda, og það eru möguleikar þeirra í framtíðinni, og á eitt atriði í frv. í sambandi við þetta vil ég benda. Það er gert ráð fyrir því, að öll lán, sem kreppulánasjóður veitir, hafi forgangskröfu í bú skuldunauts. Ég fæ ekki séð, hvernig hægt verður að koma fram þessu ákvæði í mörgum tilfellum, og þegar svo er komið, að allar skuldir bóndans eru orðnar forgangsskuldir, þá er bersýnilegt, að þar með er gersamlega lokað fyrir allt lánstraust bóndans, nema það, sem hann getur greitt með framleiðslu þess árs. Þetta er um málið almennt að segja.

Ég vakti máls á því við 1. umr., að sjálft frv. hefði að mínum dómi tvo höfuðgalla. Með brtt. 539 gerum við Alþýðuflokksmenn tilraun til þess að laga þessa galla. Ég ætla fyrst að minnast á seinni brtt., sem er við 25. gr. frv., en í þeirri gr. er að minni hyggju aðalgallinn innifalinn. Með brtt. okkar er gert ráð fyrir, að smáútgerðarmenn, verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, sem vegna verðlagsbreyt. og atvinnuleysis ekki eru færir um að standast skuldbindingar sínar, komist á sama hátt og bændurnir undir hlunnindaákvæði kreppusjóðs, að uppfylltum hliðstæðum skilyrðum. Ég verð að segja það, að mér finnst það alveg ófært og ósæmilegt af löggjafarvaldinu að taka sér fyrir hendur að hjálpa aðeins einni stétt þjóðfélagsins, og það með svona miklum og kostnaðarsömum ráðstöfunum, en láta aðrar stéttir, sem nákvæmlega jafnilla eru settar, ekki einu sinni hjálparlausar, heldur láta þær leggja fram fé til hjálpar þessari einu stétt. Nú veit ég, að mér verður svarað því, að kreppan fari verr með bændur og sé þeim erfiðari en öðrum stéttum, en þetta er bara ekkert annað en fullyrðing, sem ekki styðst við neitt. Það er hæstv. stj., sem á sök á því, að n. hefir haft svo þröngt starfssvið, að þetta er órannsakað mál. Það hefir ekkert verið gert að því að rannsaka hag 3000 atvinnulausra verkamanna og sjómanna, ekki heldur hag smáútgerðarmanna eða iðnaðarmanna. Það hafa engar skýrslur legið fyrir um hag þessara manna eins og hag bændanna, af því að stjórnin sá ekki ástæðu til þess að láta rannsaka hag þessara manna. En það liggur hér fyrir, sem hver maður veit, að afleiðingar kreppunnar hafa orðið hinar sömu fyrir þessa menn eins og bændurna. Það má benda á það, að smáútgerðarmaðurinn alveg eins og bóndinn á alla sína framtíð komna undir því, að geta haldið sínum atvinnutækjum, bátnum og veiðarfærunum, engu síður en bóndinn bústofni sínum. Alveg eins eru það lífsskilyrði fyrir verkamanninn að missa ekki húskofann sinn, sem hann kannske árum saman hefir verið að aura saman fyrir, því missi hann það, þá getur hann ekki með sinni stopulu atvinnu framfleytt sinni fjölskyldu hjálparlaust. Þetta eru jafnóviðráðanlegar afleiðingar af kreppunni fyrir þessa menn eins og verðfall afurðanna er fyrir bóndann, og því eiga þeir jafnan rétt og hann til þess að fá hjálp hjá því opinbera. Ég legg áherzlu á, að fullt tillit sé tekið til þessara manna með því að láta ákvæði kreppusjóðslaganna ná til þeirra, en ég get fallizt á, að 25. gr. frv. haldist, ef þessi brtt. verður samþ.

Um gífurlega upphæð til hjálpar þessum mönnum er ekki að ræða. Það er áreiðanlegt, að sú heildarupphæð er mjög lítil samanborið við það, sem þarf handa bændum. Stórútgerðarmönnunum hafa bankarnir gefið upp. Þeir koma því ekki til greina hér.

Þá vil ég drepa á brtt. hv. 1. þm. Eyf. á þskj. 509. Ég skal taka það fram, að ég er samþykkur þeirri brtt., en verði brtt. okkar Alþýðuflokksmanna við 25. gr. samþ., þá hygg ég, að þessi till. hans reynist óþörf, af því að flest. það fólk, sem brtt. hv. 1. þm. Eyf. nær til, mun falla undir okkar brtt. Þó sé ég ekki, að það geri neitt til, þó báðar brtt. verði samþ., og yrði það e. t. v. fullkomnara.

Þá vil ég víkja að fyrri brtt. okkar á þskj. 539, sem er um það, að árgjöld af lánum úr kreppusjóði skuli ekki vera fastákveðin, heldur miðast við verðlag afurða á hverjum tíma, eftir nánari reglum, er settar yrðu. Höfuðtilgangur þessarar tillögu er sá, að þeir, sem lán fá úr kreppulánasjóði, hljóti engan óeðlilegan gróða með þeim lánum, ef afurðaverð hækkar meir en um 20%, miðað við það verðlag, sem lagt verður til grundvallar við uppgjör á efnahag mannsins, heldur komi sú verðhækkun upp í þann halla, sem hið opinbera verður fyrir af starfsemi kreppulánasjóðs. Í brtt. er talað um, að árgjöldin eigi að geta bæði hækkað og lækkað eftir því, til hvorrar hliðar verðbreyt. verður, en ef n. vill, get ég til samkomulags gengið inn á, að aðeins verði gengið út frá hækkun, ef hitt þykir of margbrotið fyrir stjórn sjóðsins. En ég fæ ekki betur séð en það sé sjálfsagt að taka ákvæði þessarar brtt. inn í frv. Höfuðrök þeirra, sem telja nauðsynlegt að veita bændum þá hjálp, sem frv. fjallar um, eru hinar stórfelldu verðlagssveiflur, sem orðið hafa á búpeningi þeirra og afurðum af völdum kreppunnar. Þeir segja, að það sé ekki hægt að ætlast til þess, að bændur geti nú borgað með þremur dilkum þá skuld, sem þeir fyrir kreppuna stofnuðu með því að kaupa einn dilk. Ég get fallizt á, að það er mikið til í þessu, en ef á að ganga inn á það, að kreppulánasjóður eigi að bæta bændum upp þetta verðfall með því að veita þeim hagstæð lánskjör, þá er óhjákvæmilegt að taka tillit einnig til þess, ef verðlagið breytist öfugt, ef það hækkar aftur, ef t. d. einn dilkur eftir 3—4 ár nægir til þess að borga þá upphæð, sem þrír dilkar eru virtir á nú. Slík verðsveifla upp á við sýnist óhjákvæmilega eiga að koma þeirri stofnun til góða, sem tapaði á verðfallinu, en ekki að láta einstaklinga fá óverðskuldaðan gróða af því. Það væri ástæðulaust að játa mann, sem hefði stórt bú og miklar skuldir við kreppulánasjóð kannske græða tugi þúsunda á verðhækkuninni, sem kæmi svo niður á öðrum, sem væru verr stæðir en hann og árlega legðu fram greiðslur vegna hans.

Ég vék að því áðan, að framtíð landbúnaðarins væri svo á reiki, að um hana væri ómögulegt að spá, en ég vil drepa á enn eitt atriði í því sambandi. Það er vitað, að hjá mörgum þingmönnum, einkanlega þeim, sem telja sig forvígismenn landbúnaðarins, gerir vart við sig sú skoðun hér á þingi, að það eigi að lækka gengi íslenzku krónunnar. Ég verð að segja, að það væri nú ekki alveg ónýtt fyrir bændur, ef það bættist nú ofan á aðrar ráðstafanir þeim til hjálpar. Fyrst á að gefa þeim upp ríflega þær skuldir, sem þeir eiga ekki fyrir, miðað við hið lága verðlag, og síðan væru skuldir þær, sem eftir stæðu, lækkaðar, samanborið við eignir þeirra. Og svo væri búið svo um hnútana, að þeir þyrftu aldrei að greiða meira af skuldunum við kreppulánasjóð en þau árgjöld, sem í frv. eru ákveðin. Það er alveg óverjandi að afgreiða frv. án þess að sett sé undir þennan leka. Þess vegna verður að samþ. brtt. okkar á þskj. 539. Ef verðlag hækkar um 20%, en minni breyt. er ekki gert ráð fyrir að taka til greina, þá þýðir það, að árgjaldið hækki upp í 6%. Það verður bændum nákvæmlega jafnauðvelt að greiða eins og þau 5%, sem þeir eiga að greiða miðað við núverandi verðlag, vegna þess að hækkunin á verðlagi og árgjöldum helzt nákvæmlega í hendur. Þannig má rekja þetta áfram.

Nú er því ekki að leyna, að það eru ekki þeir bændur, sem verst eru staddir, sem mestan hagnað hafa af þessu frv. Það eru ekki leiguliðarnir, sem e. t. v. líka búa við leigupening, þeir, sem eiga lítið og skulda lítið, heldur fá þeir tvímælalaust mest, sem eiga jarðir með vönduðum og dýrum byggingum, og hafa stór bú undir höndum, þeir bændur, sem skulda svona frá 30—50 þús. kr. og eru gerðir upp. Sumir fá stórar eftirgjafir, en aðrir fá löng og ódýr lán. Bændur, sem eiga kannske 500—600 fjár, og svo skyldi verðlag afurðanna hækka, svo að dilkurinn yrði 12 kr., þá er þeim bókstaflega gefinn helmingur þeirra eigna, sem þeir hafa undir höndum. Aftur á móti er smábóndanum, sem skuldar kannske 1000 kr., gefið lítið, þó hann fái að greiða þessa skuld á 42 árum með 5% árgjaldi. Það er vitaskuld engin sanngirni í því, að smábóndi, sem lifir á 50 rollum, fái ekki meiri hjálp en þetta, miðað við hina, sem stærri eru. Verður því eftir sem áður, þrátt fyrir það, þó frv. þetta verði samþ., lítil von um að smábændurnir, sem hafa þetta frá 50—80 ær, skrimti af á þeim, ef ekki verður meir á þeim létt en ráðgert er með frv.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess fastlega, að hv. þdm. sjái, að þessa galla frv., sem ég hefi nú bent á, verður að laga áður en það er afgreitt sem lög, og að það verður ekki gert á annan hátt en með því að samþ. brtt. okkar Alþýðuflokksmanna á þskj. 539.