05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég tel alveg sjálfsagt, að kreppunefnd taki til athugunar bendingu þá eða fyrirspurn, sem hv. 1. þm. Eyf. gerði jafnframt því, er hann tók aftur tillögu sína til 3. umr. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. geti komið og rætt það mál við nefndina.

Hv. 4. þm. Reykv. bar fram aths. við frh. 1. umr. Mér þótti að vísu gott að heyra, að hann áleit, að tilgangur frv. væri réttur og góður, en hann nefndi nokkur atriði, sem ég ætla nú að minnast á. Það var þá fyrst, hvað myndi blasa við, ef um breyt. væri að ræða utanlands og innan, sem leiddi til mikillar verðhækkunar. Ef af þessu verður, hygg ég, að það komi fram innan ársloka. Undirbúningur þessa máls er nú orðinn svo langur, kreppan svo hörð og aðstæður allar yfirleitt þannig vagnar, að ég hygg, að árangurinn komi í ljós síðari hluta þessa árs. Lánveitingar úr sjóðnum eiga ekki að fara fram fyrr en síðari hluta þessa árs, svo að verðhækkunin ætti þá að vera komin fram um það leyti, er lánveitingarnar hefjast. Og ég vonast fastlega eftir, að hún komi í ljós. Því að þá er ekki minnsti vafi á, að horfurnar batna og miklu minna þarf að grípa til þessara ráðstafana. Það takmarkast líka af 6. lið 5. gr., sem ég ætla að lesa upp, ef forseti leyfir. Ákvæðið hljóðar svo: „Að hann (þ. e. a. s. lánbeiðandi) geti að dómi sjóðstjórnarinnar staðið undir árlegum greiðslum af lánum sínum, er hann hefir fengið stuðning samkv. lögum þessum, samhliða heilbrigðum búrekstri“. M. ö. o., ef þetta liggur fyrir þegar lánveitingar byrja, að menn eigi vísar vonir um meira verð fyrir afurðir sínar, þá verður eðlilega krafizt minni eftirgjafa og minni lána. Árangurinn af þessari væntanlegu verðhækkun verður því sá, að ríkið þarf minna á sig að leggja til styrktar bændastéttinni. Hinsvegar spurði hv. þm. og með réttu, hver yrði afleiðing þess, að ástandið batnaði ekki, eða jafnvel versnaði. Það er ljóst, að ef það liggur fyrir, að þessar ráðstafanir beri engan árangur, þá verður afleiðingin sú, að skuldheimtumenn verða illa úti. Ríkið verður að nota heimildir sínar í ríkari mæli og harðar verður gengið að skuldareigendum að gefa upp skuldirnar og semja um lengri fresti. Þá verður aftur að taka til greina 6. lið 5. gr. og skilyrðið, sem þar um ræðir, að til þess að maður geti risið undir greiðslum af skuldum sínum, þarf að gera meira að því að afskrifa skuldir og létta undir með kreppulánum. Í framhaldi af þessu lýsti hv. 4. þm. Reykv. vafa sínum um það, hvort nú væri hinn rétti tími til slíkra stórfenglegra ráðstafana kominn. Það er mikilvægt atriði, sem allir þurfa að gera sér ljósa grein fyrir. N. bar saman um það, að nú væri hinn rétti tími tvímælalaust kominn, og að alls ekki mætti dragast lengur að stofna til slíkra ráðstafana. Það leikur enginn vafi á því, að vonleysið og kæruleysið muni stórkostlega færast í aukana, ef þessu verður slegið á frest. Ef ekki kemur nú útrétt hönd til hjálpar frá ríkinu, þá er svo komið um marga, að þeir gefa frá sér alla von, missa alveg móðinn. Ennfremur er svo ástatt að því er snertir lánsstofnanirnar, að ef ekki eru þessar ráðstafanir gerðar, þá er óhjákvæmilegt að ganga að mönnum vegna fasteignalána, eða svo er a. m. k. um búnaðarbankann. Og ef þetta verður óhjákvæmilegt, þá verður það gert í stórum stíl. Vegna þessa verður ekki um það deilt, að rétti tíminn sé kominn hér innanlands. Ég verð að játa, að þegar athugað er, hvort ástæðurnar erlendis séu á batavegi, þá fylgir því ekki eins mikill sannfæringarþungi. En mín persónulega skoðun er, að þar sé líka kominn rétti tíminn, og ég hygg, að á þessu ári muni fram koma ráðstafanir stórveldanna. En frá því hvarfla ég ekki, að innanlands sé rétti tíminn kominn.

Loks var eitt atriði hjá hv. 4. þm. Reykv.: að þó að maður geti til bráðabirgða búizt við batnandi horfum, þá muni afleiðingin ekki verða góð til frambúðar, nefnilega sú, að framleiðslan muni stórum aukast, eins og komið hefir í ljós í Englandi og Danmörku. Þetta má nokkuð rétt vera, enda hafa Englendingar aldrei verið góðir bændur, og okkur finnst, að með því verðlagi, sem þeir eiga við að búa, hefði átt að vera hægt að reka landbúnað, svo að til stórgróða horfði. Við þennan samanburð má ekki miða við verð á okkar kjöti þangað komnu. — Nú er tækifærið til þess að gera ráðstafanir til góðs í framtíðinni. Ísland hefir t. d. betri aðstöðu til þess að skapa sér markað í Englandi heldur en nýlendur þeirra og dominions, af því að það liggur svo miklu nær. Milli Íslands og Englands er ekki nema 3—4 daga ferð, en frá sumum nýlendunum tekur það tugi daga. Þetta getur enn þýtt, að meiri líkur séu á hærra verði. Með þeim framförum, sem kælivélar og kælingaraðferðir hafa tekið og taka enn, ætti að vera hægt að koma kjötinu okkar í flokk með nýju kjöti. Svo eru líka möguleikar fyrir lifandi útflutningi til Englands; það er ekki nema mannsaldur síðan íslenzku bændurnir lifðu góðu lífi af þeirri hugmynd, en þó eru þessi atriði auðvitað í óvissu enn. Það er viðbúið, að ræða hv. 4. þm. Reykv. varpi nokkrum skugga á framtíðina, en þau atriði, sem ég hefi bent á, geta líka boðað fljótan bata. Ég lít sjálfur björtum augum á framtíðina, og ef þetta þing ber gæfu til þess að samþ. þetta frv., þá hefi ég sterka trú á því, að það verði landbúnaðinum til hinnar mestu bjargar, og skapi honum bjarta framtíð og langt líf.