11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (3392)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess áður en ég geri grein fyrir þeim brtt., sem kreppun. flytur á ný við þetta frv. á þskj. 627, að eins og ég gat um við 2. umr., þá hefir hv. þm. Seyðf. haft nokkra sérstöðu innan n. og nú á milli umr. hefir hann lagt ríka áherzlu á það, að samhliða því, sem þetta frv. yrði afgreitt úr d., sem miðar að því að létta bændastéttinni hennar afkomu, léti n. uppi sína skoðun um, hvað ætti að gera vegna atvinnuleysis í kauptúnum. Út af þessari kröfu hv. þm. samþ. n. það mótatkvæðalaust að beina þeirri áskorun til atvmrh., að hann bæri fram till. um það, að í fjárl., sem nú eru til meðferðar, verði veitt ákveðin upphæð til atvinnubóta.

Þessi áskorun n. hefir verið send til hæstv. stj.

Að öðru leyti hefir n. ekki tekið neina nýja afstöðu til þeirra till., sem hv. þm. Seyðf. hefir borið fram á þskj. 599, sem hann vafalaust gerir grein fyrir.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um brtt. n. á þskj. 627. Þær eru þrjár. Fyrsta brtt. er um að hækka framlag á ríkisskuldabréfum, sem á að leggja til kreppulánasjóðs, úr 8 millj. upp í 9 millj. Í frv. eins og atvmrh. gekk frá því, er gert ráð fyrir 12 millj. kr., sem kreppulánasjóður eigi yfir að ráða, en þá var jafnframt gert ráð fyrir, að 2 millj. kr. væri varið til sérstakra ráðstafana, sem taldar voru upp í 25. gr. frv. eins og það kom frá stj. Í till. n. var 2. gr. frv. þáverandi, sem fjallaði um sérstakt framlag í þessu skyni, og 25. gr. felldar niður, þannig að eftir stóð þá áætlað framlag, sumpart í peningum í gegnum búnaðarbankann og sumpart í ríkisskuldabréfum, sem nam 10 millj. kr.

Út af þeim till., sem atvmrh. bar fram, hefir kreppun. borið fram eina till., sem snertir frystihús, í sambandi við það frv., sem er næst á dagskránni, og sú upphæð, sem gert er ráð fyrir, er 300 þús. kr. Í annan stað hefir komið fram sérstakt frv. um ráðstöfun vegna rjómabúa, sem líka var aðalatriði í till. atvmrh. En nú er það komið fram í sérstöku frv., sem getur legið utan við starfsvið kreppulánasjóðs.

Í þriðja lagi vil ég geta þess út af l. till. atvmrh. viðvíkjandi því að heimila stj. að veita verðuppbót á kjöti, ef það verður í mjög lágu verði, að kreppun. hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að ráðstöfun eða ákvörðun um það atriði fari bezt á því að fara fram í sambandi við afgreiðslu samninganna við Breta. Það er talið víst, að samningarnir berist þinginu innan fárra daga, en það er einnig talið víst, að þeir nái ekki nema til framleiðsluvara sjávarútvegsins, þannig að um kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir hafi ekki verið hægt að semja. Og þó að samningarnir verði samþ. í þinginu að því er snertir sjávarútvegsafurðir, þá telur kreppun. sjálfsagt, að stj. verði veitt heimild til þeirra ráðstafana, sem hún verður nauðsynlega að hafa heimild til að gera, ef bæri út af með samningana um landbúnaðarafurðir. Þess vegna telur n. rétt, að ákvörðun í sambandi við þetta eigi að koma í sambandi við ensku samningana. En bæði vegna till., sem n. hefir tekið upp viðvíkjandi frystihúsum og vegna 2. brtt. n., sem snertir afföll af ríkisskuldabréfum, þá telur n., til þess að vera í samræmi við þær ályktanir, sem áður hafa verið gerðar um það, hvað kreppulánasjóður verði að vera stór, að rétt sé að hækka heimildina um 1 millj. kr. til útgáfu ríkisskuldabréfa.

Þá er 2. brtt., b-liður, á þskj. 627. Þar leggur n. til, að ráðh. skuli ákveða gengi á ríkisskuldabréfum, þó eigi megi afföll vera meiri en 10%. Þessi till. eins og hún er orðuð nú var í hinum upprunalegu till. frá bændan., sem hún afhenti stj. En hæstv. ráðh. felldi það niður. Og í frv. er svo kveðið á, að bréfin skuli vera gjaldgild til greiðslu á eldri skuldum með nafnverði. En af hálfu Landsbankans kom einn af bankastjórunum til n. og lagði ríka áherzlu á, að þessu ákvæði yrði breytt og af hálfu bankans er það talið sanngjarnt, að við þessi ákvæði verði unað eins og þau eru í brtt. n. Samkv. áliti okkar í bændan. var útkoman sú, að í raun og veru ættu afföll á þessum bréfum á frjálsum markaði að vera a. m, k. 20%, og þess vegna er hér farið bil beggja. Við áttum sæti í kreppun., 2 af þeim, sem vorum upphaflega í bændan., og bæði við og n. í heild höfum fallizt á, að það verði að taka tillit til þessarar eindregnu óskar Landsbankans, og þess vegna berum við fram þennan b-lið.

Þá er loks 3. brtt. Ég gat um það við 2. umr., að n. mundi bera fram brtt. við núverandi 22. gr. frv., sem kveður svo á, að ársgjöld kreppulánasjóðs skuli ekki endurgreiðast til ríkissjóðs fyrr en 1. jan. 1941.

N. hefir ráðgazt um þessa till. við stj., og till. er, í því formi, sem hún nú er borin fram í, eftir ósk stj., þannig að ársgjöldin borgist að hálfu til ríkissjóðs til 1. jan. 1937, en síðan að öllu leyti. Ég vil gera grein fyrir því, að það hefir verið reiknað út, hverju þetta munaði fyrir ríkissjóð og kreppulánasjóð, ákvæðið eins og það er í frv., og ákvæðið eins og n. leggur til í samráði við stj., að það verði, og útkoman er sú, að samkv. ákvæðinu eins og það er í frv. verður ríkissjóður að vera búinn að láta út 1940 5883700 kr., aðallega í bréfum, en samkv. þessu skipulagi, sem nú er gert ráð fyrir, verða það 3239756 kr. Það er m. ö. o. svo, að samkv. þessari brtt. léttist á ríkissjóði um það bil á þessu tímabili 2640000 kr.

Ég skal geta þess, að um þetta liggur fyrir allrækilegur útreikningur, sem gert er ráð fyrir, að n. í Ed. geti fengið aðgang að á allan hátt og menn geta fengið að kynna sér, sem þess óska. En ég tel ekki ástæðu til að fara út í einstakar tölur um það.

Þessar brtt. tel ég alveg sjálfsagðar, og ég vil gera ráð fyrir, að ekki verði mikill ágreiningur um þær.

Ég vil svo geta þess, að ég tók það fram í framsögu við 2. umr., að kreppun. geymdi sér til 3. umr. að taka til athugunar ákvæði viðvíkjandi stjórn sjóðsins, og eins og þskj. ber með sér, þá liggur ekki fyrir nein till. frá n. viðvíkjandi því atriði. En á þskj. 640 og 641 hafa 3 af nm. borið fram sérstakar till. um það atriði. Þessar till. lágu fyrir n., en hvorugar þeirra náðu það miklu samþykki, að n. bæri þær fram, sem er ljóst af því, að einstakir menn bera þær fram. En ég skal ekki gera þær að umtalsefni að sinni.

En viðvíkjandi till. hv. 1. þm. Skagf. á þskj. 642, þá kom það atriði nokkuð til umr. í n., sem hann bendir á. Og við höfum einnig athugað þetta atriði í bændan., en við treystum okkur ekki til að finna, hvernig hægt væri að framkvæma þetta, hvernig hægt væri að setja nokkrar reglur fyrir því að fara inn á þá braut, sem hv. þm. stingur upp á. Ég get því ekki léð þessari till. atkv. mitt, og ég geri ekki ráð fyrir, að kreppun. treysti sér til að styðja hana.

En ég vil benda á, að mér finnst, að það væri atriði, sem frekar mætti taka til athugunar á næsta þingi, ef reynslan sýndi, að til þess þyrfti að taka, en að svo komnu tel ég, að það sé ekki ráðlegt, og heldur ekki hægt að rökstyðja til hlítar að fara inn á þá braut, sem hv. þm. stingur upp á.

Að svo mæltu vildi ég óska, að málið verði afgr. með till. n.