11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (3393)

167. mál, kreppulánasjóð

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég á brtt. við þetta frv., sem fer fram á að breyta ákvæðum frv. við 19. gr., að því er snertir stjórn kreppulánasjóðs, um það að breyta ákvæðunum um það, að stjórn kreppulánasjóðs sé falin einum af bankastjórum búnaðarbankans og 2 mönnum, sem atvmrh. skipar, að fengnum till. landbn. þingsins, en í stað þess verði ákvæðið þannig, að stjórn Búnaðarbanka Íslands verði falin stjórn kreppulánasjóðs. Ég skal gera grein fyrir því, á hverju ég byggi þá skoðun mína, að þetta sé ekki einasta heppilegri tilhögun á þessu, heldur einnig sú heppilegasta tilhögun á stj. þessa sjóðs, sem ég kem auga á. Með stofnun búnaðarbankans er eins og kunnugt er bændum landsins fengin sérstök lánstofnun fyrir sig, enda er nú svo komið, að bændur reka nálega alla sína fasteignaveðlánastarfsemi við þennan banka.

Nú er þess að gæta í sambandi við þetta mál, að hér er farið fram á með þessu frv. að setja á fót stórfellda lánastarfsemi fyrir bændur landsins, starfsemi, sem á að vera til þess og byggja á því, að hjálpa þeim bændum, sem annars er svo ástatt fyrir, að komast hjá því að þurfa fyrir þær sakir, sem nú skapar hið erfiða ástand í sveitunum, að flosna upp af jörðum sínum og komast á vonarvöl, sem mundi verða þeir kostir, sem margt af þessu fólki yrði að sætta sig við eins og nú er ástatt í flestum byggðarlögum landsins.

Ég get ekki betur séð en að þessi stórfellda lánastarfsemi, sem hér er farið fram á, sé bezt komin í höndum þeirrar lánstofnunar, sem nú hefir verið sérstaklega sett á stofn fyrir bændastéttina. Ég skal geta þess, að þessi till. er samhlj. till., sem fram kom frá mér í bændan. og því frv., sem bændan. sendi til ríkisstj.

En það er nú að vísu rétt, að starfsemi kreppulánasjóðs er allmikið víðtækari en sú starfsemi, sem búnaðarbankinn hefir nú með höndum.

Stjórn þessa kreppulánasjóðs er falið allvíðtækt vald í sambandi við það uppgjör, sem fram á að fara á hag bænda og verður undanfari þessarar lánastarfsemi, sem hér er gert ráð fyrir úr kreppulánasjóði. En ég fæ ekki betur séð en að þessar framkvæmdir séu þannig vaxnar, að þeim sé bezt fyrir komið í höndum stjórnar búnaðarbankans, því hún hefir eðlilega gegnum sína starfsemi bezta þekkingu á hag og afkomu bændastéttarinnar. En það er einmitt þessi þekking, sem er undirstaðan til, að þeim tilgangi verði náð með þessu frv., sem til er ætlazt.

Það er ekki einasta, að bankastjórnin hafi þekkingu á fjárhagsafkomu þessara manna, heldur hefir hún eðlilega mjög góða þekkingu á afkomumöguleikum og lífsbjargarskilyrðum í hinum einstöku héruðum landsins, en það er vitanlega einn aðalgrundvöllurinn undir því að geta framkvæmt þetta réttilega og sanngjarnlega, því á því veltur náttúrlega ákaflega mikið, að þeir, sem standa fyrir þessum lánum, viti það út í yztu æsar og geti gert sér grein fyrir því, hvar skórinn kreppir mest að í þessu efni.

Svo er annað í þessu sambandi, sem ég álít, að taka verði tillit til og bezt sé fyrir séð með því að fara þessa leið í að skipa stjórn sjóðsins, og það er, að ég álít mjög óheppilegt og skaðlegt fyrir gagn þessa sjóðs, að inn í stjórn hans verði hleypt mönnum, sem eru stórir kröfuhafar, sem sjálfsagt hlýtur alltaf að móta þeirra afstöðu, ef ekki viljandi, þá óviljandi, að þeir verði nokkuð háðir sínum eigin hagsmunum eða þess félagsskapar, sem þeir sérstaklega starfa fyrir. En það þarf vitanlega að vera grundvallaratriði fyrir heppilegri starfsemi þessa sjóðs, að þeir, sem standa fyrir honum, séu gersamlega óháðir utan að komandi áhrifum og líti á það eitt, hvað sanngjarnt er gagnvart kröfuhöfunum í heild, án tillits til sérstakrar aðstöðu þeirra, og svo þeim skuldugu mönnum hinsvegar.

Ég vil benda á, að þó að lagt sé til, að búnaðarbankinn taki þetta að sér, þá er ómögulegt að líta á hann sem kröfuhafa, því að þó að bankinn sé stærsta viðskiptastofnun bænda, hvað fasteignaveðlánastarfsemi snertir, þá liggur hún að mestu leyti utan við verkahring kreppulánasjóðs, því vitanlega er hans starfsemi fyrst og fremst að ráðstafa þeim hluta af skuldum bænda, sem eru lausar. En lausar skuldir við búnaðarbankann í Rvík eru ekki nema sem svarar tæplega 1½% af öllum lausaskuldum bænda. Þetta er nægilegt til að sýna, að ómögulegt er að líta svo á, að búnaðarbankinn geti verið sérstakur kröfuhafi, þegar um er að ræða ráðstöfun á lausum skuldum.

Ég vænti því, að hv. d. geti orðið mér sammála um það, hvað starfsemi kreppulánasjóðs snertir og stjórn hans, að þá sé í alla staði heppilegast að fela hana stjórn búnaðarbankans og yfirleitt að reyna að sigla framhjá því skeri, sem gæti orðið hættulegt á þeirri siglingabraut, að einstakir stórir kröfuhafar yrðu settir inn í stjórn þessa sjóðs og kæmu til að móta þá starfsemi.

En í þeim till. öðrum, sem hér liggja fyrir, er þetta opin leið, og mér er ekki grunlaust um, að þetta sé gert beint til þess að hafa opinn þann möguleika að koma að stórum kröfuhöfum. En hver sem tilgangurinn er, þá er það ljóst, að þetta stendur opið. Með annari till., sem fyrir liggur, er kveðið svo á, að 2 stærstu kröfuhafarnir skuli settir inn í stjórn sjóðsins, en hinsvegar eiga aðrir kröfuhafar ekki að fá neinn málsvara fyrir sig. Ég er hræddur um, að þetta muni verða til þess að vekja tortryggni, e. t. v. ástæðulausa tortryggni um þessa starfsemi, sem óhjákvæmilega verður til þess að draga úr gagnsemi hennar. Það er vissulega ákaflega mikilsvert, að ró og friður verði sem mest um þetta starf. Og ég held einmitt, að með því að fela stjórn búnaðarbankans að stjórna þessum sjóði, sé þessi ró og friður tryggður svo vel sem bezt er mögulegt að því er löggjöfina snertir í þessu máli. Auk þess er engum blöðum um það að fletta, að frá sjónarmiði bænda, sem eiga að njóta góðs af þessu, er lang-aðgengilegast að geta fengið þennan stuðning fyrir milligöngu þeirrar stofnunar, sem er þeirra lánsstofnun, sem sé búnaðarbankans. Og þar sem þessi hjálp er byggð á lánsgrundvelli, þá virðist sjálfsagt, að þessari stofnun verði falið að hafa þá lánastarfsemi með höndum.

Þá skal ég ennfremur benda á það, að þegar búnaðarþingið stóð yfir í vetur, — en á búnaðarþingi sitja eins og kunnugt er fulltrúar bænda hvaðanæva af landinu —, þá fékk það þetta frv. til meðferðar og samþ. um það ályktun, sem fól það m. a. í sér, að höfð yrði á stjórn þessa sjóðs sú tilhögun, sem ég hefi nú stungið upp á. Þannig liggur fyrir áskorun um þetta frá annari aðalsamkomu bændafulltrúa hér á landi.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en ég vænti þess, að það geti orðið ofan á, jafnframt því sem allir virðast sammála um að leggja bændum það lið, sem óhjákvæmilegt er, að stjórn þessara mála verði þannig fyrir komið, að bændur landsins fái notið þessarar hjálpar svo sem bezt má verða.