11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (3394)

167. mál, kreppulánasjóð

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég vil þakka kreppun. fyrir það mikla starf, sem hún hefir lagt í þetta frv.

Ég vil taka það fram eins og hv. frsm. gat um, að þær breyt., sem kreppun. leggur til, að gerðar verði á 2. og 22. gr., eru gerðar í samráði við mig, og hefi ég gengið inn á þær til samkomulags, til þess að stofna ekki frv. í tvísýnu. Ég hefði að vísu óskað þess, að ef horfið hefði verið að því ráði, að hafa gengi á ríkisskuldabréfunum, þá hefði verðmismunurinn verið bættur upp með sérstöku framlagi úr ríkissjóði, en hefi til samkomulags gengið inn á brtt. n.

Viðvíkjandi brtt. við 22. gr. vil ég segja það, að stj. hefir vegna erfiðs fjárhags ríkissjóðs orðið að leggja nokkra áherzlu á það, að a. m. k. nokkur hluti árgjaldanna komi þegar í ríkissjóð aftur, eftir að útlánastarfseminni væri lokið. Það er þess vegna einmitt eftir ósk stj., að n. hefir lagt til, að hálf árgjöld greiðist þegar til ríkissjóðs. Hv. frsm. hefir og glögglega sýnt fram á, að þetta tillag, sem kreppulánasjóður fær þannig til 1. jan. 1937, mun fyllilega nægja til að bera þann kostnað, sem leiðir af því, að kapitalisera framlög ríkissjóðs samkv. 1. gr.

Viðvíkjandi þeim brtt., sem komið hafa fram við 19. gr., verð ég að vera þeirrar skoðunar, að það sé heppilegra yfirleitt, að stjórn sjóðsins sé skipuð 3 mönnum heldur en 5 mönnum. Það mun vera allt eins mikil trygging fyrir góðri samvinnu, og reynslan mun yfirleitt verða sú, að mjög fjölmennar stjórnir séu seinni í vöfum en fámennar. Auk þess vildi ég benda á það í sambandi við brtt. á þskj. 641, að það verður ekki beinlínis séð á þeirri till., hvort þeirri stjórn, sem þar er gert ráð fyrir, er ætlað að starfa til 31. des. 1934, þegar lánastarfseminni á að vera lokið samkv. frv., eða hún eigi að starfa allan tímann, þangað til lánin eru endurgreidd aftur eða til ársloka 1976. Eins og till. liggur fyrir, virðist mér þetta ekki með öllu ljóst. Ég hygg þó, að allir séu sammála um, og það mun e. t. v. líka vera meiningin hjá hv. flm. till., að eftir árslok 1934 sé stjórn þessa sjóðs falin Búnaðarbanka Íslands. Ég verð einnig, þrátt fyrir þær röksemdir, sem komið hafa fram fyrir brtt. á þskj. 641, að halda fram þeirri tilhögun, sem gert er ráð fyrir í frv., og n. sem heild hefir ekki lagt til, að neinar breyt. verði gerðar á.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 599 hefir þegar verið bent á það við 2. umr., að það væri mjög mikilsvert fyrir bændur landsins að fá þegar full skuldaskil, svo að þeir eigi ekki hangandi yfir höfði sér hættuna fyrir nýjum kröfum, ef eitthvað raknaði úr um aðstöðu þeirra í búskapnum, en sú hætta mundi vera yfirvofandi, ef a-liður brtt. yrði samþ.

Í brtt. b. á sama þskj. er lagt til, að smáútgerðarmenn, iðnaðarmenn, sjómenn og verkafólk, sem vegna verðlagsbreyt. eða atvinnuleysis er ekki fært að standa við skuldbindingar sínar, reka atvinnu sína á heilbrigðum grundvelli eða framfleyta sér og sínum með vinnu sinni, eigi rétt á að komast undir ákvæði þessara 1. Viðvíkjandi þessari brtt. vil ég taka það fram, að þetta er stór skerðing á þeirri hjálp, sem ég hygg, að flestir séu nú sammála um, að rétt sé að veita bændastéttinni. Það má og benda á það, að bændastéttin hefir að nokkru leyti sérstöðu að því er atvinnurekstur snertir. Hún verður að binda allmikið fé í rekstri sínum, jarðabótum, húsabyggingum og öðru slíku. Það er ekki eins auðvelt að selja þær eignir án stórkostlegs fjártjóns, eins og t. d. bát. Og ég hygg, að það sé meiri bylting í þjóðlífi okkar, ef hópur bænda flosnar upp af jörðum sínum og bætist við atvinnuleysingjana í kaupstöðunum til að taka atvinnuna af þeim, sem fyrir eru og hafa þegar litla atvinnu, heldur en jafnvel þótt smáútgerðarmaðurinn neyðist til af óviðráðanlegum atvikum að selja bát sinn og ráða sig sem háseta eða stýrimann hjá öðrum. Það er hægt fyrir þann mann að framfleyta fjölskyldu sinni að mestu við sömu kjör og áður. En þetta er ekki hægt fyrir fjölskyldumann í bændastétt, ef hann flosnar upp og verður t. d. að ráða sig sem vinnuhjú.

Þá vil ég einnig minna á það, sem hefir verið bent á áður í þessu sambandi, að aðstæður útgerðarinnar hafa nú á þessum tímum ekki breytzt eins stórkostlega til hins lakara eins og orðið hefir með landbúnaðinn. Ég hygg, að smærri útgerðarmenn hafi, það sem af er þessu ári, horft bjartari augum á framtíðina en þeir gerðu á sama tíma í fyrra, en um bændurna hygg ég megi segja, að þeir hafi aldrei verið eins hræddir um afkomu sína eða litið til framtíðarinnar með eins mikilli og almennri svartsýni og nú.

Viðvíkjandi styrk til verkafólks, sem gera má ráð fyrir, að ekki fái fulla atvinnu á þessu ári, vil ég geta þess, að stj. mun bera fram brtt. við 3. umr. fjárlagafrv. í Ed., þar sem farið verður fram á að heimila stj. að verja allverulegu fé til atvinnubóta. Sú aðferð hefir áður verið höfð, og mér finnst réttast að bregða ekki þar út af. Má vel vera, ef sérstök vandræði ber að höndum við sjávarsíðuna, að nauðsyn verði síðar meir til að gera sérstakar ráðstafanir, en til þess þarf meiri rannsóknir en ennþá hafa farið fram á þeim málum, ef á að vera mögulegt að leysa þau forsvaranlega frá löggjafarinnar hendi.

Ég leyfi mér því að mæla með því, að brtt. kreppun. verði samþ., en ég hygg, að ekki sé hægt að ráða til þess, að aðrar breyt. verði gerðar á frv. að svo komnu.