11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (3396)

167. mál, kreppulánasjóð

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Við 2. umr. gerði ég ýtarlega grein fyrir brtt. á þskj. 599, sem við Alþýðufl.menn flytjum, en tókum þá aftur, og get ég því látið mér nægja að segja fátt eitt nú, og mun ég aðallega víkja að nokkrum atriðum, sem hæstv. atvmrh. drap á í sambandi við till. okkar.

Hæstv. ráðh. lét svo um mælt, að aðstæður smáútgerðarmanna og bænda væru ekki sambærilegar, af því að útgerðarmenn ættu alltaf kost á að verða hásetar, stýrimenn o. s. frv. Kann þetta rétt að vera, en bóndinn á þess allt að einu kost að verða vinnumaður hjá einhverjum öðrum, svo að hér er jafnt á komið. Og sé það rétt og sjálfsagt að bjarga bændum frá því að flosna upp frá búum sínum, með því að veita þeim skuldaskil og löng og ódýr lán, er sama réttlætiskrafan, að þeim útgerðarmönnum, sem svipað stendur á fyrir, verði einnig hjálpað. Og sama gildir um iðnaðarmenn, verkamenn og sjómenn, sem yrðu að láta af hendi upp í skuldir þau starfstæki, sem þeim eru nauðsynleg vegna atvinnu sinnar, ef þeim er ekki hjálpað. Ganga till. okkar Alþfl. manna í þá átt, að eitt sé látið ganga yfir alla þá, sem við sömu aðstöðu hafa að búa í þessum efnum. Ég get að vísu fallist á það, að útvegurinn hafi ekki staðið sig alveg eins illa og landbúnaðurinn hin síðustu ár, en afleiðingin af því er sú ein, að það verður tiltölulega fámennari hópur smáútvegsmanna, sem leitar hjálpar hjá sjóðnum, og við vitum það báðir jafn vel, ég og hæstv. atvmrh., að þeir, sem hafa við að stríða þunga skuldabyrði frá fyrri árum, sem gerir þeim jafnvel ókleift að framfleyta sér og sínum, mundu ekki standa betur að vígi í lífsbaráttunni eftir að búið væri að svipta þá atvinnutækjunum vegna skulda. Og ég tel ekki miklar líkur til þess, að óttast þurfi það sérstaklega, að sjóðstj. verði það ör á fé, að voði verði á ferðum, enda fer því mjög fjærri, að hér sé um nokkurn styrk að ræða, heldur er hér um að ræða breyt. á gömlum lánum í ný og hagkvæmari lán og útstrikun þeirra skulda, sem vitað er, að ekki er hægt að fá. Sama sanngirnin og mælir með því, að bændum verði hjálpað á þennan hátt, mælir með því, að þeim öðrum verði einnig hjálpað, sem eins stendur á fyrir.

Ég get látið þetta nægja um þessar till. okkar Alþfl.manna, en vísa að öðru leyti til þess, sem ég sagði við 2. umr.

Fyrirætlanir þær, sem hæstv. atvmrh. skýrði frá, að stj. hefði í huga viðvíkjandi atvinnubótum, er skylt að þakka, en ég veit, að hæstv. ráðh. skilur það, er ég segi honum það, að þakklæti mitt verður í samræmi við, hverjar till. stj. verða í þessu efni. Ég verð þó að segja það, að ég býst ekki við, að framlag ríkissjóðs til atvinnubóta verði svo mikið, að það geri meira en að bæta úr sárustu nauð atvinnuleysingjanna, svo að þeir geti haldið í sér lífinu, og stoðar ekki fyrir hæstv. ráðh. að ætla sér að vísa verkamanni, sem ekki getur t. d. staðið í skilum með veðdeildarlán af húseign sinni og á því á hættu að missa hana, á atvinnubótastyrkinn. Ég hugsa, að hann verði ekki svo rífur, að menn geti notað hann til að greiða með skuldir, heldur eingöngu miðaður við það, sem nauðsynlegt er til þess, að menn geti framfleytt lífinu. Það er því ekki síður nauðsynlegt, að verksvið kreppulánasjóðs nái einnig til þeirra, sem þannig er ástatt fyrir. Ég er sammála hæstv. ráðh. um nauðsyn atvinnubótanna og ennfremur um það, að heppilegt sé að veita sveitar- og bæjarfélögum atvinnubótastyrkinn, því að bæði er það, að sveitar- og bæjarfélögin láta vinnuna fara fram á þeim tíma árs, er minnst er um atvinnu, enda verður þetta til að tvöfalda það fé, sem ríkið leggur fram í þessu skyni.

Út af brtt. á þskj. 641 frá hv. 1. þm. Skagf., vil ég segja nokkur orð til viðbótar því, sem hann sagði, og vil ég þá sérstaklega benda á það, að ekki ber að skoða Landsbankann sem skuldareiganda í þessu sambandi, því að hann er fyrst og fremst stofnun, sem hafa á forustuna í fjárhagsmálefnum þjóðarinnar. Það virðist því sanngjarnt, að bankinn hafi einn mann í sjóðstj.

Aðrar till. sé ég ekki ástæðu til að ræða. Um frv. í heild sinni vil ég svo að lokum segja það, að afstaða okkar Alþfl.manna til þess fer eftir því, hverja afgreiðslu brtt. okkar fá.